Pistill

Mér hefur mistekist hrapallega

Lára Guðrún Jóhönnudóttur fer yfir mistök sín og lærdómana, líka þá sem gleymast jafnóðum.

Þorvaldur Hörður og frænka hans, Hildur Sif. „Meira að segja jólasveininum hefur mistekist.“ Mynd: Úr einkasafni

Ég á að baki mjög margar misheppnaðar tilraunir til ýmissa verka. Þar sem árið 2016 hefur reynst mörgum alveg hreint einstakt, risastórt, sílekandi graftarkýli af leiðindamálum á jörðinni þá langaði mig að hefja samhengislausa upptalningu á hinum mörgu mistökum sem ég hef gert. Sum mistök var hægt að fyrirbyggja, önnur voru algerlega ófyrirsjáanleg og svo voru auðvitað þessi klassísku mistök sem allir i kringum þig voru búin að sjá fyrir áður en þú gerðir þau. 

Ruslapokar hafa ítrekað farið í bíltúr með mér. Þeir hafa ferðast með mér um allan bæ óáreittir í framsætinu mínu. Þar til eitthvað kemur upp um þá. Eitthvað í líkingu við hina klassísku ruslalykt, eða þessi óþægilega tilfinningu sem þú færð þegar þér finnst einhver vera að fylgjast með þér. Þá er það bara ruslapokinn í framsætinu. 

Ég er tveir metrar á hæð með skólatösku. Eða reyndar ekki, ég er nákvæmlega 181,6 cm af kjöti, fitu og beinum (meðal annars en þó ekki eingöngu). En ég er með takmarkaða rýmisgreind. Það er að segja, mér finnst allir vera jafnháir mér. Nema hurðarhúnar, þeir eru óvinir mínir. Þeir krækjast í mjaðmarbeinið á mér og skilja alltaf eftir marbletti. Þar hefur mér ítrekað mistekist að læra af mistökum mínum. 

Ég hef keypt súkkulaði fyrir barnið mitt. Borðað það sjálf og kennt svo öðrum um. 

Ég hef komið heim af barnum, borðað pítsu uppi í rúmi og sofnað. Svo hef ég vaknað með pítsusneið á andlitinu. Fjarlægt hana af andlitinu. Og borðað hana. Það eru mistök að segja öðrum frá því. 

Háskólanám hef ég stundað. Og háskólanám hef ég hætt að stunda. Af því mér mistókst að halda uppi nokkrum grundvallaratriðum. Mæta í skólann, læra heima, og velja nám sem ég hef áhuga á. 

Ég hef fallið á áhugasviðsprófi. Tvisvar. Í bæði skiptin ákvað ég að taka prófið til þess að finna mig. Negla niður lífið, hvernig get ég vitað hvað ég vil fá út úr lífinu án þess að hafa það staðfest á pappír hverju ég hef áhuga á? Í fyrsta prófinu var niðurstaðan þessi: Ég hef áhuga á öllu og get lært nokkurn veginn hvað sem er án þess að verða fyrir teljanlegum skaða. Í annað skiptið sem ég tók prófið taldi ég mig vera orðna svo þroskaða og klára í lífinu. Núna væri rétti tíminn og niðurstaðan hlyti að vera önnur í þetta sinn. Niðurstaðan: Ég hef áhuga á öllu og get gert nokkurn veginn hvað sem er án þess að verða fyrir teljanlegum skaða. Enn skýrari niðurstaða var að ég hef lítinn áhuga á ferli sem herkænskufræðingur (e. army strategist) og skoraði lægra í áhættusækni en í fyrra skiptið. Enda orðin ábyrg móðir í krónískri tilvistarkreppu. 

PS. ef einhver veit hver besta leiðin til að mennta sig í herkænskufræðum er má sá hinn sami endilega hafa samband hið fyrsta. Það getur ekki mistekist?

Svo eru það þessi klassísku mistök sem maður lærir ekki af en heldur áfram að gera. Vert að nefna þá er skilgreining vitfirringar að gera sama hlutinn aftur og aftur og búast við annarri niðurstöðu. Takk Einstein. Eins og að fjárfesta ár eftir ár í árskorti í líkamsrækt og ætla að mæta reglulega, sækjast ekki eftir nýjum og betri tilboðum í tryggingar heldur sætta sig bara við fyrirsjáanlegar „af því getum það“ hækkanir. Fara upp stigann en ekki niður þegar einhver er að elta þig með hníf í hryllingsmynd. Lofa að hringja til baka eftir nokkrar mínútur en gleyma því um leið og þú leggur símann frá þér. Taka ekki tímann þegar þú ert með eitthvað í ofninum, af því þú ætlar bara að treysta á innsæið. Og svo auðvitað það að telja eitthvað vera mistök sem var bara einfaldur kjánaskapur.

Stærstu mistökin sem ég hef gert er að bera ekki virðingu fyrir mistökum mínum. Þessi mistök voru ekki framkvæmd með einbeittum brotavilja. Nema þegar ég borðaði súkkulaði sonar míns og kenndi öðrum um. Það var staðbundið hágildi einbeitts brotavilja.

Þetta á sér allt ástæðu. Misgóð tímabil í lífinu, athyglisbrestur, áföll, kvíði sem er afleiðing af fullkomnunaráráttu sem orsakar frestunaráráttu. Að ótöldum þessum klassísku mannlegu tilhneigingum til að pissa í skóinn þinn, saga greinina sem þú situr á af trénu, klappa með einni hendi um leið og þú pissar upp í vindinn af því þú ert skólaus eftir að hafa pissað í skóna þína.

En þetta er allt í lagi. Við erum að gera okkar besta. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Leitin að Birnu: Skór fundust og myndband sýnir hlaupandi menn á Laugavegi

Fréttir

Ný ljósmynd sýnir Birnu fyrir hvarfið - lögreglan vill ræða við fólk af myndbandi

Fréttir

Danskt varðskip eltir grænlenskan togara í tengslum við leitina að Birnu

Fréttir

Myndskeið sýnir Birnu með símann sinn á Skólavörðustíg

Fréttir

Faðir Birnu: „Hún var búin að vera hress og kát“

Fréttir

Lögreglan leitar í rauðri bifreið í Breiðholti

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Leitin að Birnu: Skór fundust og myndband sýnir hlaupandi menn á Laugavegi

Fréttir

Ný ljósmynd sýnir Birnu fyrir hvarfið - lögreglan vill ræða við fólk af myndbandi

Fréttir

Danskt varðskip eltir grænlenskan togara í tengslum við leitina að Birnu

Fréttir

Myndskeið sýnir Birnu með símann sinn á Skólavörðustíg

Fréttir

Faðir Birnu: „Hún var búin að vera hress og kát“

Fréttir

Lögreglan leitar í rauðri bifreið í Breiðholti