Pistill

Græjurnar geta ýtt undir útivist

Karen Kjartansdóttir átti ekki gönguskíði og kunni ekki á þau, en skráði sig í 50 kílómetra keppnisgöngu. Hún talar um áhrif græjanna á útivistina.

Karen Kjartansdóttir Nýtti sér hina ýmsu tækni til að byggja upp þol eftir að hafa í tryllingi skráð sig á 50 km gönguskíðamót á Ísafirði.

Við höfum ábyggilega flest gengið í gegnum tímabil þar sem líkamsrækt virðist bara svo leiðinleg. Það er kalt úti og dimmt og einhvern veginn virðist rétti tíminn til að hreyfa sig aldrei fyrir hendi. Þegar loksins tekst að hunskast svo út uppgötvar maður sér til skelfingar að þetta hlé hefur valdið því að kílómetrarnir virðast hafa lengst, veðrið versnað, íþróttafötin minnkað, lóðin þyngst og allt er ómögulegt og líklega öllum öðrum um að kenna nema manni sjálfum. Einhvern veginn svona leið mér að minnsta kosti í lok janúar þegar ég var að reyna að byggja aftur upp þol eftir að hafa í tryllingi skráð mig á 50 km gönguskíðamót á Ísafirði sem var á dagskrá 29. apríl.  Til útskýringar þá er Fossavatnsgangan elsta skíðamót landsins, en skíðagangan fór fyrst fram árið 1935 og hefur jafnan farið fram um mánaðamótin apríl/maí síðan. Einhvern veginn, eða kannski ekki einhvern veginn heldur einfaldlega með ótrúlegum dugnaði heimamanna, hefur þetta orðið að alþjóðlegum viðburði sem flestir ættu að reyna að setja á listann yfir verkefni sem okkur dreymir um að framkvæma áður en haldið er yfir móðuna miklu. 

Sérvörubúð á hjara veraldar

Vissulega er gott að setja sér markmið og allt það en þetta var kannski pínu djarft þar sem ég var ekki í neinu formi einmitt þarna, átti ekki gönguskíði og kunni ekki á þau. En orð eru til alls fyrst og einn frostkaldan morgun brunaði ég í verslun, straujaði kreditkortið hressilega og ók heim með bílinn fullan af skíðagræjum sem ég kunni engin skil á. Og fyrst ég var búin að fjárfesta í þessu dóti var eins gott að nýta það. Skemmst er frá því að segja að þessi tryllingur færði mér dásamlegar stundir við undirbúninginn og nýja félaga auk þeirrar stórkostlegu reynslu sem fylgdi mótinu sjálfu á Ísafirði. Græjukaupin voru þannig hverrar krónu virði, reyndar líður mér núna, þegar ég horfi á reikninginn minn eftir ferðina, eins og ég hafi ákveðið að láta tíund launa minna renna til sérvöruverslunarinnar Craftsport sem virðist þrífast vel í hjarta Ísafjarðar – á hjara veraldar. En ég meina, hversu dásamlegt er að eiga útbúnað til að geta notið vetrarmánaða í landi þar sem manni finnst oft eins og eilífur vetur ríki?

Góð æfing fyrir heimsendi

En meira um græjur, mér þykja þær skemmtilegar og hvetjandi. Stundum þurfa þær ekki einu sinni að kosta neitt sérstaklega mikið en aukið ánægjuna við íþróttaiðkunina þeim mun meira. Eftirlætis dæmið mitt um þessar mundir er appið Zombies, Run! sem gæti útlagst á íslensku sem Uppvakningar, hlaupið! Fyrir sci-fi nörda, skokkara sem vilja aðeins hressa upp á hlaupin, fólk með áhuga á góðum útvarpsleikritum og þá sem vilja hræða sig til að taka ærlega á rás við sprettæfingar, er þetta reglulega skemmtileg viðbót. Zombies, Run! nefnilega tvinnar saman hlaupum, ógnvekjandi útvarpsleikriti, með þig í aðalhlutverki, og sprettæfingum undan uppvakningum. Æsingurinn eftir því að fá að vita meira um söguna varð þess valdandi að ég hljóp 19 km um daginn, sem hefði kannski ekki verið í frásögur færandi nema að ég tók 32 km skíðaæfingu daginn áður, er nýfarin að hreyfa mig aftur eftir óvenju langt letikast og var í smá vandræðum þar sem ég var farin að léttast of ört fyrir minn smekk – ekki að það fari að drepa mig alveg á næstunni. 

Leiðindi koma upp, jafnvel í útivist og í hamingjuríkum hjónaböndum

Eftir að hafa rótað í hinum ýmsu leikföngum sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina hef ég komist að því að græjur virka afskaplega vel til að koma manni af stað og þegar mann vantar tilbreytingu. Eitthvert óyndi og óstuð kemur jú alltaf upp hjá fólki hvort sem um er að ræða áhugamál eða í hin hamingjuríkustu hjónabönd, en þá má maður ekki gefast upp, fórna höndum og kenna öllu öðrum um en sjálfum sér, heldur já, finna upp á einhverju nýju og skemmtilegu til að bralla. Leiðindin fara ekki af sjálfu sér og það er á okkar ábyrgð að færa hamingju aftur inn í líf okkar, hvort sem um er að ræða útivist eða hjónabönd nú eða eitthvað allt annað. Það eru nefnilega við sjálf og það hvort við látum kné fylgja kviði við ákvarðanir sem ræður úrslitum að lokum. Vissulega verður maður samt líka að muna að þótt gaman sé að nota góð tæki og skemmtilega hluti við útivist þarf maður líka að kunna að vera án þeirra og meðtaka alla fegurðina sem yfirleitt umlykur mann.

Á heimleiðinni má samt taka eitt hlaup undan ímynduðum en ógnvænlegum uppvakningum. Það kristallar bara svo vel tilgang hreyfingar að reyna að flýja undan hinum lifandi dauðu í huganum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Costco: Musteri græðginnar

Fréttir

Nichole vill setja stjórn yfir Landspítalann svo forstjórinn hætti að „betla pening“

Pistill

Um útskrift og útlitsdýrkun

Viðtal

Neyðarópið í gilinu

Fréttir

Krefjast aðgangs að gögnum sem ráðherra telur „spilla fyrir hugmyndafræðinni“

Fréttir

Hóta að hætta nema fjármálaráðherra verði áfram formaður hollvinafélagsins

Mest lesið í vikunni

Pistill

Costco: Musteri græðginnar

Fréttir

Nichole vill setja stjórn yfir Landspítalann svo forstjórinn hætti að „betla pening“

Viðtal

Hjarta og martraðir lögreglumannsins

Úttekt

Menningarbylting Sjálfstæðisflokksins

Fréttir

Stefnt að fækkun lögreglumanna næstu árin

Blogg

Fordómar gagnvart ákveðnum dýrategundum