Flækjusagan

„Hvað er svo sem að muna?“

Illugi Jökulsson tók sér það bessaleyfi að þýða stutta en magnaða frásögn eftir Svetlönu Alexíevitsj eftir sextugri rússneskri sveitakonu.

Rússneskar sveitakonur - Bandaríski ljósmyndarinn Margaret Bourke-White ferðaðist til Sovétríkjanna á fjórða áratugnum og tók myndir af alþýðufólki.

Haustið 2015 varð Svetlana Alexíevitsj frá Hvíta-Rússlandi fyrst blaðamanna til að hljóta bókmenntaverðlaun Nóbels. Verðlaunin fékk hún fyrir frábærar viðtalsbækur sínar þar sem hún gefur rödd alþýðufólki í hinum fyrrum Sovétríkjum. Sjálf er hún reyndar nokkuð efins um hvort hún eigi að kalla sig blaðamann og leggur áherslu á að hún eigi sinn þátt í að túlka orð viðmælenda sinna. En það gera raunar allir góðir blaðamenn.

Árið 2013 sendi hún frá sér bókina Время секонд хэнд, sem þýðir Notaður tími og í einum stuttum kafla segir sveitakona um sextugt frá. Ég var beðinn að þýða kaflann úr ensku, og gat ekki setið á mér að birta hann hér. Geta má þess að Alla sú Púgatéva, sem nefnd er á einum stað er geysivinsæl söngkona í Rússlandi. Hún fæddist 1949 og nýtur mikillar hylli fyrir söng sinn jafnt á léttri klassískri tónlist sem dægurlögum.

En hér tekur ónefnda sveitakonan við og segir, með orðum Svetlönu Alexíevitsj, þegar hún er spurð hvers hún minnist frá fyrri tíð og hvaða breytingar hafi orðið þegar Sovétríkin tóku að hrynja um miðjan níunda áratuginn:

 

„Hvað er svosem að muna? Ég lifi mínu lífi bara eins og allir aðrir. Perestrojka … Gorbatsjov … Konan í pósthúsinu opnaði hliðið: „Varstu búin að frétta það? Kommarnir eru farnir.“ „Hvað áttu við?“ „Þeir eru búnir að banna flokkinn.“ Ekki hleypt af einu skoti, bara allt átakalaust. Nú um stundir segja þeir að við höfum þá búið í voldugu virki en svo höfum við tapað því öllu. En hverju höfum við svosem tapað? Ég hef alltaf búið í sama litla húsinu án allra þæginda – ekkert rennandi vatn, ekkert klósett, ekkert gas – og svoleiðis er það enn. Allt mitt líf, þá hef ég unnið heiðarlega fyrir mér. Ég hef púlað og púlað og vanið mig á algjöra þrælavinnu. Og aldrei fengið neitt nema smáaura fyrir. Það eina sem ég átti að éta þá voru makkarónur og kartöflur, og það er ennþá það eina sem ég borða. Ég lufsast enn um í gamla Sovét-pelsinum mínum – og þið ættuð að sjá hvað það snjóar hérna!

Það besta sem ég man var þegar ég gifti mig. Við vorum ástfangin. Ég man þegar við gengum heim frá hjónabandsskrifstofunni og sírenurnar voru í fullum blóma. Og hvílíkar sírenur! Þú ræður hvort þú trúir því en það sátu næturgalar á greinunum á þeim … Svoleiðis man ég það … Við vorum hamingjusöm saman í nokkur ár, við eignuðumst dóttur … Svo fór Vadik að drekka, og endaði með að vodkað drap hann. Hann dó ungur, hann var bara fjörutíu og tveggja. Síðan, þá hef ég búið ein. Dóttir mín er löngu fullorðin, hún gifti sig og flutti burt.

Á veturna, þá fer allt á kaf í snjó hérna, allt þorpið er bókstaflega á kafi í snjó – húsin, bílarnir. Stundum keyrir strætó ekki í margar vikur. Hvað er þá á seyði þarna í höfuðborginni? Það eru þúsund kílómetrar héðan til Moskvu. Við horfum á lífið í Moskvu eins og leikrit í sjónvarpinu. Ég hef heyrt um Pútin og Öllu Púgatévu … En annað, æ, ég veit ekkert um það. Fundir, mótmælagöngur … Hérna, hérna búum við bara eins og við höfum alltaf gert. Hvort sem það er kommúnismi eða kapítalismi. Hver er Rauður, hver er Hvítur – það skiptir engu máli. Það sem skiptir máli er að skrimta þangað til fer að vora. Setja niður kartöflur … [Löng þögn.]

Ég er sextug … Ég fer ekki í kirkju, en ég þarf samt einhvern til að tala við. Til að tala um aðra hluti … um það til dæmis að mig langar ekkert að vera gömul, ég vil bara ekki sjá að verða gömul. Það verður ömurlegt þegar kemur að því að deyja. Hefurðu séð sírenurnar mínar? Ég fer út á nóttunni til að horfa á þær – þær glóa. Ég stend þá bara og dáist að því hvað þær eru fallegar. Heyrðu, ég skal skera þér vönd …“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Reykjavík er ónýt

Fréttir

Hægt að taka á húsnæðisvanda ungs fólks með fyrirframgreiddum arfi frá foreldrum

Pistill

Eru erlendir dýraníðingar í lagi?

Pistill

Tökum kvótann af sægreifunum

Leiðari

Sigur lyginnar

Fréttir

Kenna vinstristjórninni um 25 ára reglu hægristjórnarinnar

Mest lesið í vikunni

Pistill

Reykjavík er ónýt

Fréttir

Ótti og grátur eftir störf á farfuglaheimili á Selfossi

Fréttir

Hægt að taka á húsnæðisvanda ungs fólks með fyrirframgreiddum arfi frá foreldrum

Rannsókn

Skuggahlið ferðamennskunnar: Draumurinn á Íslandi breytist í martröð

Pistill

Eru erlendir dýraníðingar í lagi?

Pistill

Tökum kvótann af sægreifunum