Fréttir

Útlit fyrir að tryggja eigi enn frekar stöðu útgerðarvaldsins: „Sama trix og síðasta ríkisstjórn reyndi“

Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum, segir Viðreisn og Bjarta framtíð hafa gefið fullkomlega eftir í sjávarútvegsmálum. Engin uppboðsleið verður farin.

Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum og einn ötulasti talsmaður uppboðsleiðar í sjávarútvegi á Íslandi, segir ljóst að Viðreisn og Björt framtíð hafi gefið fullkomlega eftir í sjávarútvegsmálum við myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokknum. Stjórnarsáttmálinn sem kynntur var í dag gefi raunar til kynna að stjórnin ætli sér að tryggja enn frekar sterka stöðu útgerðarinnar með langtímasamningum.

„Stjórnarsáttmálinn talar um að kannaðir verði kostir þess að úthlutun aflaheimilda byggi á langtímasamningum. Þetta er sama trix og síðasta ríkisstjórn reyndi varðandi makríl og var stoppað með stórri undirskiftasöfnun. Slíkt má ekki gerast!,“ skrifar Jón Steinsson í stöðuuppfærslu á Facebook. „Viðreisn og Björt framtíð virðast hafa gefið fullkomlega eftir í sjávarútvegsmálum. Raunar virðast þær breytingar sem nýja stjórnin ætlar sér að vinna að miða að því að tryggja enn frekar stöðu útgerðarinnar.“

Eins og Stundin greindi frá fyrr í dag er hnykkt á því í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar að við ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skuli ekki „gengið á eignar- og nýtingarrétt einstaklinga nema brýnir almannahagsmunir krefjist þess“. Í sjávarútvegskaflinum kemur fram að núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi hafi skilað miklum þjóðhagslegum ávinningi og ríkisstjórnin telji kosti aflamarkskerfisins mikilvæga fyrir áframhaldandi verðmætasköpun í sjávarútvegi. 

„Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna. Gæta þarf að langtímarekstraröryggi í greininni og stöðugleika í byggðum.“

Stefna Viðreisnar og Bjartar framtíðar fyrir kosningar var skýr um að efnt yrði til uppboðs á aflaheimildum og tryggt að almenningur nyti auðlindarentunnar í ríkari mæli en nú tíðkast. 

Í grein eftir Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, sem birtist á vef flokksins í september er fullyrt að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gæti vel staðið undir nafninu Sérhagsmunastjórnin. „Veiðigjald hefur verið lækkað og öllum almenningi er misboðið,“ segir í greininni. „Það er stefna Viðreisnar að afgjaldið ráðist á markaði þar sem ákveðinn hluti kvótans verði boðinn upp á hverju ári. Lausnin er kynnt hér á eftir. Sumum kann að virðast hún flókin, en í raun er hún sáraeinföld. Á hverju ári fer ákveðið hlutfall kvótans á uppboðsmarkað, til dæmis 3 til 8%. Tekjur ríkisins ráðast ekki af því hvaða flokkar eru í ríkisstjórn heldur af markaðsaðstæðum á hverjum tíma.“

Í tvennum viðræðum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar við Pírata, Vinstri græn og Samfylkingu í nóvember og desember voru allir flokkar opnir fyrir breytingum í sjávarútvegi þar sem meðal annars yrði látið reyna á uppboð aflaheimilda. Viðreisn átti, í bæði skiptin, frumkvæði að því að viðræðum var slitið eftir að hafa lagst gegn tekjuöflunartillögum Vinstri grænna, meðal annars um prógressífari skattlagningu, til að standa undir auknum útgjöldum. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Tinna Alavis vill ekki tjá sig opinberlega um auglýsingar í barnaafmæli

Pistill

Skuldaskil Gunnars Smára Egilssonar við sósíalismann og Fréttatímann

Pistill

Það hættulega við sósíalíska stjórnmálamenn

Pistill

Um frelsishetjur og fórnarlömb

Fréttir

Velur hreinna fæði eftir að líkaminn gaf sig

Flækjusagan

Mannkynssögunni gerbylt? Voru menn í Ameríku fyrir 130.000 árum?

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Tinna Alavis vill ekki tjá sig opinberlega um auglýsingar í barnaafmæli

Fréttir

„Gera ráð fyrir að sjúkrahúsin á landinu skeri niður um tæpa 5,2 milljarða“

Úttekt

Nýlendur unga fólksins

Pistill

Skuldaskil Gunnars Smára Egilssonar við sósíalismann og Fréttatímann

Pistill

Eitraðir ísbirnir hröktu nasista Hitlers brott; nú er Pútin mættur

Pistill

Það hættulega við sósíalíska stjórnmálamenn