Fréttir

United Silicon segir mengun muni minnka í Keflavík: „Ekki skamma okkur eins og hunda“

„Við erum mengandi iðnaður, það verður ekki komist hjá því,“ segir Helgi Þórhallsson, forstjóri United Silicon í Helguvík. Stæka brunalykt hefur lagt frá verksmiðjunni frá því hún var gangsett fyrir fjórum dögum. Helgi biður fólk þó að bíða með sleggjudóma þar til reynsla fæst á ofninn í fullum afköstum.

Mennirnir sem ráða Frá vinstri: Þórður Magnússon rekstrarstjóri United Silicon, Magnús Garðarsson einn helsti eigandi United Silicon og Helgi Þórhallsson forstjóri. Mynd: United Silicon

Sterk brunalykt hefur fundist víða í Reykjanesbæ undanfarna daga, en líkt og Stundin greindi frá í gær þá hefur kvörtunum rignt yfir Umhverfisstofnun vegna mengunarinnar sem kemur frá kísilveri United Silicon í Helguvík.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar hafa starfsmenn kísilversins átt í vandræðum með hreinsibúnað auk þess sem bilun hafi átt sér stað í ofni verksmiðjunnar en hann er sá fyrsti af fjórum sem fyrirtækið hyggst gangsetja.

Stundin hafði samband við Helga Þórhallsson, forstjóra United Silicon í Helguvík, sem staðfesti heimildir Stundarinnar um að vandræði hefðu verið með hreinsibúnað. Vandræðin séu til komin vegna timburs sem þeir brenndu í ofninum til þess að hita hann. Mikill raki hafi verið í timbrinu sem hafi síðan smitast í pokasíur sem eiga að hreinsa reykinn. Fjölmargar af þessum pokasíum hafi eyðilagst og því hafi þurft að skipta um þær. Við gangsetningu hafi einnig skaut eyðilagst og því hafi þurft að skipta um það og endurræsa ofninn. Þá hafi einnig ekki verið nægilegt rafmagn til þess að keyra viftur sem tengdar eru í reykræstivirki verksmiðjunnar.

Biður íbúa að bíða með sleggjudóma

Helgi vildi þó ekki kannast við að þetta vandamál væri enn til staðar því viðgerðir hafi staðið langt fram á kvöld og hafi lokið í nótt. Búið sé að skipta um pokasíur, skaut og nægt rafmagn sé nú til staðar til þess að keyra vifturnar. Enga lykt ætti því að vera hægt að finna lengur. Blaðamaður getur þó vitnað til um það að lyktin hafi enn verið til staðar um klukkan þrjú í dag. Helgi biður samt íbúa og aðra að bíða með sleggjudóma þar til reynsla er komin á ofninn.

„Þegar ofninn er kominn í eðlilegt ástand og skilar fullum afköstum þá er fyrst hægt að dæma um það hvort einhver óvenjuleg mengun berist frá verksmiðjunni eða ekki.“

Hvenær verður ofninn kominn í fulla keyrslu?

„Ef við lendum ekki í frekari hremmingum með skaut erum við að tala um fjóra eða fimm daga. Þá erum við komnir í þrjátíu megawött. Þá erum við að tala allan reyk í gegnum reykræstivirkið og erum þá komnir með stabílt ástand. Menn verða að hafa smá þolinmæði og ekki skamma okkur eins og hunda á meðan við erum á fyrstu metrunum. Þegar verið er að gangsetja svona verksmiðju að þá getur orðið röskun og ójafnvægi og þá geta ákveðin óþægindi skapast sem ég vona að heyri sögunni til þegar við erum komnir í fulla keyrslu.“

Helgi, efnaverkfræðingur að mennt og hokinn af reynslu á þessum vettvangi eins og hann orðar sjálfur, segir allt kapp lagt á að reka verksmiðjuna eins vel og hægt er, í sátt og samlyndi við nærumhverfi hennar og íbúa Reykjanesbæjar. Hann hafi verið forstjóri kísilverksmiðja víða um heim og að hér á landi séu mjög strangar reglur er varða mengun og umhverfisáhrif.

„Við verum mengandi iðnaður“

„Ég hef starfað á þessum vettvangi í yfir 34 ár og get sagt þér að við fylgjum öllum þeim kröfum og reglum sem okkur eru settar og þær eru mjög strangar og ekkert síður strangar hér en til dæmis í Noregi. Við ætlum að standa okkur og sjá til þess að allur búnaður sé í lagi sem á að halda allri mengun í skefjum. Við verum mengandi iðnaður, það verður ekki komist hjá því.“

Forstjóri með 34 ára reynslu

Helgi starfaði áður sem aðstoðarforstjóri hjá Elkem á Íslandi en þeir reka kísilverksmiðju á Grundartanga. Vandamál með lyktmengun hafi ekki komið upp en það sé þó eflaust vegna þess að sú verksmiðja hafi verið „úti í sveit“ og fjarri íbúabyggð.

Kom nálægðin við byggð í Reykjanesbæ þér á óvart?

„Þegar ég byrjaði að koma hérna fyrst þá hrökk ég dálítið í kút, hélt að svæðið væri fjær, en nota bene, ég hef verið verksmiðjustjóri í verksmiðju í Noregi sem var staðsett í miðjum bæ og bæjarfélagið varð til í kringum hana. Hún opnaði 1928 og þá var ekki til þess tækni í hreinsibúnaði sem við notum í dag og í vissum vindáttum gat fólk ekki opnað glugga eða þvegið þvott. Það voru líka meiri mengandi efni en það var hluti af því að búa á svona stað og hafa lífsviðurværi af honum,“ segir Helgi og bendir á að höfnin í Helguvík sé ástæða þess að verksmiðjan sé á þessum stað.

Óvissa með næsta ofn

„Það sem menn eru að horfa á hér er að búið er að byggja þessa höfn og nú þarf að finna henni verkefni og menn byggja ekki svona verksmiðju án þess að vera nálægt höfn. Þeim verksmiðjum sem ekki eru nálægt höfn hefur ávallt á endanum verið lokað því aðföngin eru svo dýr. Ég var eitt sinn forstjóri kísilverksmiðju í Kína og flutningskostnaðurinn var að drepa okkur,“ segir Helgi sem þykir eðlilegt að þær verksmiðjur sem þurfi á höfnum að halda rísi nálægt þeim.

„Kannski hefðu menn kosið að hafa höfnina í Helguvík fjær byggð.“

En nú er þetta aðeins fyrsti ofninn af fjórum sem er áætlað að gangsetja. Hvenær er áætlað að fjórði og síðasti ofninn verði gangsettur?

„Það veit enginn hvenær hægt er að byrja á ofni númer tvö. Það er ekkert rafmagn til staðar fyrir hann. Þá geta menn líka bara litið til þeirra verkefna sem eru í sama flokki og verksmiðjan okkar til að sjá að það gengur illa að fá fjármagn fyrir þetta. Verð á kísiljárni og málmum er í sögulegu lágmarki, þá er samdráttur í notkun á þessum málmum og mikil framleiðsla í Kína þannig að niðursveiflan er miklu meiri en menn hafa nokkurn tímann séð í málmi. Verð hafa reyndar aðeins verið að þokast upp á við en verða samt sem áður lág á næsta ári. Svo má ekki gleyma þessu með rafmagnið. Það þarf að tengja rafmagn við þetta og það er ekki fáanlegt á Íslandi í dag. Þetta er langhlaup eins og maður segir.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Tinna Alavis vill ekki tjá sig opinberlega um auglýsingar í barnaafmæli

Pistill

Skuldaskil Gunnars Smára Egilssonar við sósíalismann og Fréttatímann

Pistill

Það hættulega við sósíalíska stjórnmálamenn

Pistill

Um frelsishetjur og fórnarlömb

Fréttir

Velur hreinna fæði eftir að líkaminn gaf sig

Flækjusagan

Mannkynssögunni gerbylt? Voru menn í Ameríku fyrir 130.000 árum?

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Tinna Alavis vill ekki tjá sig opinberlega um auglýsingar í barnaafmæli

Fréttir

„Gera ráð fyrir að sjúkrahúsin á landinu skeri niður um tæpa 5,2 milljarða“

Úttekt

Nýlendur unga fólksins

Pistill

Skuldaskil Gunnars Smára Egilssonar við sósíalismann og Fréttatímann

Pistill

Eitraðir ísbirnir hröktu nasista Hitlers brott; nú er Pútin mættur

Pistill

Það hættulega við sósíalíska stjórnmálamenn