Silja Snædal Pálsdóttir, nemandi í MH, tók þátt í #FreeTheNipple deginum síðastliðinn fimmtudag og mætti berbrjósta í skólann. Henni var hins vegar vísað úr tíma fyrir að vera of fáklædd þegar hún neitaði að hylja brjóst sín. Stundin sagði frá málinu í morgun. Silja verður með framsögu á fundi um frjálsu gervörtuna á Kex Hosteli í kvöld ásamt Öddu Þóreyjardóttur Smáradóttur sem hóf íslensku brjóstabyltinguna, Huldu Hólmkelsdóttur talskonu Ungra vinstri grænna og Sóleyju Tómasdóttur borgarfulltrúa Vinstri grænna.
Fékk ekki fjarvist fyrir tímann
„Ég ákvað á fimmtudaginn að mæta berbrjósta í skólann. Það tóku flestir vel í það og ég fékk margar skemmtilegar kveðjur, aðallega frá nemendum. Kennararnir voru ekki alveg vissir með þetta, en voru duglegir að spyrja spurninga. Þeir vissu fæstir hvað væri í gangi og héldu að þetta væri eitthvað persónulegt statement hjá mér. Þegar ég útskýrði þetta fyrir þeim ákváðu flestir að styðja mig í þessu og fannst þetta flott framtak,“ segir Silja í samtali við Stundina. Eins og áður sagði neitaði einn kennari hins vegar að hleypa Silju í tíma ef hún myndi ekki hylja líkama sinn. Hópur stráka tók sig þá til og mótmælti ákvörðun kennarans með því að rífa sig úr bolunum. „Mér fannst þeir mjög frakkir að gera þetta og sýna mér þennan stuðning,“ segir Silja.
Athugasemdir