Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Milljarðaslóð Jóns Ásgeirs og Ingibjargar rakin í skattaskjól

Panama-skjöl­in sýna að Jón Ás­geir Jó­hann­es­son á og teng­ist mikl­um eign­um í skatta­skjól­um þrátt fyr­ir að hann hafi neit­að því í gegn­um ár­in. Þau sýna um­fangs­mik­il við­skipti Ingi­bjarg­ar Pálma­dótt­ur, fjár­fest­is og að­aleig­anda fjöl­miðla­fyr­ir­tæk­is­ins 365, og Jóns Ás­geirs í fé­lög­um í skatta­skjól­um heims­ins. Ingi­björg er skráð­ur eig­andi fé­lags­ins Guru In­vest í Panama sem borg­aði upp skuld­ir upp á 2,4 millj­arða við Glitni og Jón Ás­geir er eig­andi Jo­vita Inc. í Panama með­al ann­ars.

„Það er enginn fjársjóður á Tortóla eða einhvers staðar í suðurhöfum,“ sagði Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir í viðtali við Stöð 2 í september 2009. „Ég á fyrir Diet Coke, það er nóg,“ bætti hann við. 

En gögn sem Stundin hefur greint úr Panama-skjölunum leiða í ljós að Jón Ásgeir og eiginkona hans , Ingibjörg Pálmadóttir, geymdu milljarða króna í skattaskjólinu Panama í Mið-Ameríku.

Reiddu fram 2,4 milljarða úr skattaskjóli

Félag Ingibjargar Pálmadóttur, fjárfestis og aðaleigenda fjölmiðlafyrirtækisins 365, í skattaskjólinu Panama greiddi Glitni banka 2,4 milljarða króna vegna félaga í eigu hennar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í júní árið 2010. Greiðsla félagsins, Moon Capital S.A., var í ríkistryggðum íbúðabréfum og var greidd inn á reikning Glitnis í Lúxemborg. Auk þess voru 200 milljónir króna greiddar í reiðufé. Nafni Moon Capital S.A. var síðar breytt í Guru Invest S.A. Félagið var viðskiptavinur lögfræðistofunnar Mossack Fonseca í Panama og er Ingibjörg Pálmadóttir skráður eigandi Guru Invest S.A.

Jón Ásgeir fékk umboð
Jón Ásgeir fékk umboð Jón Ásgeir Jóhannesson fékk prókúrumboð yfir félaginu Oneoone Entertainment sem síðar var nefnt Moon Capital og svo Guru Invest. Ekkert í Panamaskjölunum sýnir að umboð Jóns Ásgeirs hafi verið afturkallað frá árinu 2007 en Ingibjörg Pálmadóttir fékk fyrir félagið á sama tíma.

Mikla athygli vekur hins vegar að Jón Ásgeir Jóhannesson var með prókúruumboðið fyrir fyrirtækið í Panama eftir að það var stofnað árið 2007 og gat hann því tekið ákvörðun um að skuldbinda þetta félag Ingibjargar þó hann væri ekki skráður eigandi þess.  

Endurgreiðsla félaga Ingibjargar og Jóns Ásgeirs á skuldunum nam því 2,4 milljörðum króna en heildarskuldirnar námu hins vegar nærri 3,3 milljörðum króna og fengu þau því umtalsverðan afslátt af þeim og þannig verulegar afskriftir á skuldum.

Skuldirnar voru vegna tæplega 2,6 milljarða króna yfirdráttar sem fyrirtækið 101 Chalet ehf. fékk hjá Glitni banka í júlí og ágúst 2008, rétt fyrir íslenska bankahrunið, til að kaupa skíðahótel í Courchevel í Frakklandi af Fjárfestingarfélaginu Gaumi og svo rúmlega 723 milljóna króna skuld Gaums frá árinu 2002.

Miklar upplýsingar um félög Jóns og Ingibjargar

Þetta kemur fram í hluta Panama-skjalanna, gögnum sem lekið hafa frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama, sem íslenska fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media ehf. vinnur með á Íslandi í samstarfi við þýska blaðið Süddeutsche Zeitung og alþjóðlegu blaðamannasamtökin ICIJ. Stundin birtir upplýsingarnar upp úr gögnunum í samvinnu við Reykjavík Media ehf. Í Panama-skjölunum er að finna mikið magn upplýsinga um viðskipti Guru Invest S.A. og annarra félaga sem tengjast Ingibjörgu Pálmadóttur og eða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni víðs vegar um heiminn, allt frá Íslandi til Tortólu, Guernsey, Lúxemborgar og Seychelles-eyja í Indlandshafi.

Í gögnunum er ekki að finna sönnun fyrir því að prókúruumboð Jóns Ásgeirs yfir Guru Invest S.A. hafi verið afturkallað eftir árið 2007 og kann því að vera að hann sé ennþá með umboð til að skuldbinda fyrirtækið.

Gögnin stangast á við orð Jóns Ásgeirs

Opinberunin á gögnunum segir allt aðra sögu en Jón Ásgeir Jóhannesson hefur borið á borð í viðtölum og greinum á Íslandi frá bankahruninu árið 2008 þar sem hann hefur ítrekað hafnað því að hann eigi eignir í skattaskjólum eða á aflandssvæðum.

„Hvar eru þessir fjármunir?“

Jón Ásgeir sagði til dæmis í lok september árið 2010, eftir að Steinunn Guðbjartsdóttir úr slitastjórn Glitnis hafði sagt að rannsóknarfyrirtækið Kroll teldi sig hafa fundið faldar eignir erlendis sem tengdust honum, að engar slíkar eignir væri að finna: „Hvar eru þessir fjármunir? Mér er ekki kunngt um þessar eignir en þætti vænt um ef Steinunn og starfsmenn Kroll hafa fundið peninga og eignir sem mér tilheyra og ekki hefur verið gerð grein fyrir áður. Ég veit að það mun reynast erfitt því þessi verðmæti eru ekki til.”

Sýnir eignarhald Ingibjargar
Sýnir eignarhald Ingibjargar Þetta skjal sýnir eignarhald Ingibjargar Pálmadóttur á félaginu Guru Invest í Panama.

Félag Ingibjargar borgar skuldir félags Jóns Ásgeirs

Með umræddu skuldauppgjöri voru þessar skuldir 101 Chalet ehf. og Gaums við Glitni gerðar upp. Eftirstöðvarnar, tæpur milljarður króna, virðast hafa verið afskrifaðar samkvæmt skuldauppgjörinu. Jón Ásgeir Jóhannesson var einn stærsti óbeini hluthafi Glitnis í gegnum FL Group á árunum fyrir hrunið 2008 og voru félög hans meðal stærstu skuldara bankans. Mikla athygli vekur að Guru Invest S.A., félag sem Ingibjörg Pálmadóttir var skráð fyrir, greiddi ekki bara upp skuldir 101 Chalet ehf., félags sem var og er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, við Glitni heldur einnig skuldir Fjárfestingarfélagsins Gaums. Ingibjörg átti ekki hlutabréf í Gaumi en Jón Ásgeir Jóhannesson átti 41 prósent hlut í því. Gaumur er gjaldþrota og skildi eftir sig 38,7 milljarða króna skuldir. 

Í mánuðinum fyrir skuldauppgjör 101 Chalet ehf. og Fjárfestingarfélagsins Gaums um sumarið 2010 lét slitastjórn Glitnis frysta eignir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar með sérstökum dómsúrskurði í Bretlandi. Í skulduppgjörinu við Glitni var tekið sérstaklega fram að ef „samkomulagið fæli í sér afsal, viðskipti eða rýrnun eigna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar“ þá veitti Glitnir samþykki sitt fyrir uppgreiðslum á skuldum 101 Chalet ehf. og Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. þrátt fyrir frystinguna á eignum hans. Glitnir átti á þessum tíma í umsvifamiklum málaferlum við Jón Ásgeir, bæði á Íslandi og í New York í Bandaríkjunum. Glitnir sótti því hart að Jóni Ásgeir á þessum tíma. 

Áður hefur komið fram í fjölmiðlum að umrætt skuldauppgjör hafi farið fram á milli Ingibjargar Pálmadóttur og Glitnis. Hins vegar hefur ekki komið fram að skuldauppgjörið fór fram með eignum í fyrirtækjum í skattaskjóli og að 2,4 milljarðar af 3,3 milljörðum hafi verið greiddir. Í viðtali við DV í mars 2011 sagði Ingibjörg til dæmis um skuldauppgjörið við Glitni: „Sama er að segja um skíðahótelið marg umrædda í Frakklandi. Það var selt á síðasta ári og ég greiddi Glitni allt lánið ásamt vöxtum.“ Eðli skuldauppgjörsins hefur hins vegar ekki legið fyrir fyrr en núna.                                                                                                                                                                                                                    

Vann líka fyrir Hannes
Vann líka fyrir Hannes Gögnin um viðskipti Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannesson sýna mjög umfangsmikil viðskipti í gegnum Panama og var það Þorsteinn Ólafsson hjá Arena Wealth Management sem sá um viðskiptin fyrir þau. Þorsteinn sá líka um viðskipti Hannesar Smárasonar, fyrrverandi viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs, meðal annars í gegnum Panama.

Umsvifamikil viðskipti Jóns Ásgeirs og Ingibjargar úr skattaskjólum

Gögnin sýna að Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson eiga umfangsmiklar eignir sem geymdar eru hjá félögum í skattaskjólum og að viðskipti þeirra á Íslandi og í öðrum löndum Evrópu fara að hluta til fram í gegnum slík félög. Þá er ljóst út frá gögnunum að ekki er hægt að gera greinarmun á þeim viðskiptum þeirra hjóna þar sem hagsmunir félaga í þeirra eigu tengjast svo oft saman, til dæmis með lánveitingum á milli félaga í þeirra eigu. Þannig átti Ingibjörg Pálmadóttir ekki hlut í Gaumi þegar félag hennar í skjattaskjóli gerði upp skuld fyrir það félag en Jón Ásgeir Jóhannessonar átti hins vegar hlut í því félagi. Þá eru í gögnunum uppplýsingar um lánveitingar frá félögum sem Jón Ásgeir er í forsvari fyrir til Guru Invest S.A. og eins lánveitingar frá Guru Invest S.A. til ýmissa félaga sem tengjast Jóni Ásgeiri og Ingibjörgu. Viðskiptalegir hagsmunir þeirra Ingibjargar og Jóns Ásgeirs virðast því vera algjörlega samtvinnaðir. 

Moon Capital S.A. er ekki eina skattaskjólsfélagið sem kom að umræddu skuldauppgjöri við Glitni þar sem félagið Piano Holding í skattaskjólinu Cayman-eyjum kom einnig að því. Piano Holding var í sjálfsskuldarábyrgð fyrir skuld 101 Chalet ehf. við Glitni. Ekki kemur fram í gögnunum hversu miklar eignir þetta félag, Piano Holding, á. Munurinn á Piano Holding og Guru Invest S.A. í skuldauppgjörinu er því meðal annars sá að Piano Holding bar ábyrgð á skuldunum sem greiddar voru upp en Guru Invest S.A. gerði það ekki. Samt greiddi Guru Invest skuldirnar upp sem þriðji aðili. 

„Það er enginn fjarsjóður á Tortóla eða einhvers staðar í suðurhöfum.“

Sagðist ekki eiga eignir á aflandseyjum

Upplýsingarnar um þessar eignir Guru Invest S.A. í skattaskjóli eru áhugaverðar að mörgu leyti. Meðal annars í ljósi þess að Jón Ásgeir hefur ítrekað sagt að hann eigi engar eignir í skattaskjólum. Í viðtali í sjónvarpsþættinum Silfri Egils árið 2009 sagði hann meðal annars, aðspurður af Agli Helgasyni um hvort hann kannaðist við eyjuna Tortólu, að hann kannaðist ekki við eyjuna. „Ég kannast ekki við hana. […] Þú veist það Egill að ég á örugglega mest rannsakaða fyrirtæki Íslandssögunnar. […] Ég er með allt mitt undir. […] Nei. […] Nei,“ sagði Jón Ásgeir þegar Egill spurði hann að því hvort hann hefði komið fjármunum undan til eigin nota. 

Jón Ásgeir Jóhannesson í viðtali í Silfri Egils 12. október 2008. 

Í grein í Fréttablaðinu, sem eiginkona hans er sögð vera aðaleigandinn að, sagði hann í apríl 2010. „Fjármuni í felum á aflandseyjum á ég enga.“ Skuldauppgjörið við Glitni sýnir hins vegar þvert á móti að fjármunir sem notaðir hafa verið til að greiða upp skuldir félaga sem tengjast Ingibjörgu og Jóni Ásgeiri koma úr skattaskjóli í gegnum félag sem Mossack Fonseca stofnaði. Orðrétt stendur í skuldauppgjörinu: „Moon vill standa skil á þeim skuldbindingum sem fram koma í yfirdrættinum,“ en með þessum orðum var vísað til yfirdráttarheimildar 101 Chalet ehf. hjá Gitni. 

Þekktustu ummæli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar eru hins vegar þau sem hann lét falla í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í september árið 2009. Þá sagði hann, aðspurður um hvort hann ætti einhverjar eignir í skattaskjólum og hvernig hans persónulega fjárhagsstaða væri: „Nei. Það er enginn fjársjóður á Tortóla eða einhvers staðar í suðurhöfum. […] Mín persónulega staða? Ég á fyrir Diet Coke, það er nóg.“

Tekið skal fram að þetta félag sem kom að skuldauppgjörinu við Glitni í júní árið 2010, Moon Capital S.A. sem síðar breytti um nafn og var kallað Guru Invest S.A., er ekki sama félag og Moon Capital sem nú er móðurfélag fjölmiðlafyrirtækisins 365. Þá skal tekið fram að tölvupóstföng Ingibjargar og Jóns Ásgeirs koma fyrir í þeim gögnum um skuldauppgjörið sem koma fyrir í Panama-gögnunum þannig að þau fylgdust bæði með og voru hluti af umræddum viðskiptum með beinum hætti. 

Fleiri hundruð Íslendingar
Fleiri hundruð Íslendingar Fleiri hundruð Íslendingar eru í Panamaskjölunum, leka frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama. Höfuðstöðvar lögmannsstofunnar í Panama sjást hér og voru Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir meðal viðskiptavina stofunnar.

Sports Direct á Íslandi fjármagnað úr skattaskjóli

Í Panama-gögnunum kemur fram að Guru Invest S.A. í Panama er hluthafi í móðurfélagi íþróttavöruverslunarinnar Sports Direct á Íslandi sem rekur verslun í Kópavoginum. Búðin í Kópavoginum, sem auglýsir sig undir slagorðinu: Sportsdirect.com - Íslands eina von, opnaði um vorið 2012. Þegar hann var spurður um aðkomu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar að opnun verslunarinnar sagðist Sigurður Pálmi vera fullfær um að opna verslun sjálfur og að hann þyrfti ekki hjálp frá Jóni Ásgeiri.

Móðurfélag þeirrar verslunar er í Lúxemborg og heitir Rhapsody Investments S.A. Framkvæmdastjóri þeirrar verslunar er sonur Ingibjargar Pálmadóttur, Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, og hefur aldrei komið fram áður að það er félag í skattaskjóli sem er óbeinn hluthafi í Sports Direct. 

Í hluthafasamkomulaginu kemur þetta skýrt fram þar sem Guru Invest S.A., Sigurður Pálmi, Sports Direct Retail Limited í Bretlandi og Jeffrey Rose Blue sem búsettur er í Bretlandi, eru sagðir vera hluthafar fyrirtækisins á Íslandi í gegnum Rhapsody Investments. Af hlutafé félagsins upp á eina milljón punda lagði Guru Invest S.A. fram 320 þúsund pund, Sigurður Pálmi 330 þúsund pund, Sports Direct 250 þúsund pund og Jeffrey Rose Blue 100 þúsund pund. Fjármunir úr skattaskjóli renna því til Íslands í gegnum félag í Lúxemborg og eru notaðir til að fjármagna íþróttavöruverslunina í Kópavoginum. 

Jón Ásgeir í samvinnu við eigandann

Stofnandi og eigandi Sports Direct í Bretlandi er auðkýfingurinn Mike Ashley en hann á meðal annars knattspyrnuliðið Newcastle. Jón Ásgeir hefur átt í samvinnu við Ashley í gegnum árin og haustið 2012 greindi DV frá því að hann og Óskar Hrafn Þorvaldsson, blaðamaður og fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2, hefðu komið að því að setja á laggirnar heimasíðuna sportsdirectnews.com. Umrædd heimasíða var í eigu fyrirtækisins Mym-e Ltd. sem er í eigu fyrirtækisins Sports Direct International. Umtalsverð tengsl eru því á milli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur og Sports Direct. Í tilkynningu um opnun verslunarinnar í Kópavogi árið 2012 kom  einungis fram að Sigurður Pálmi, Sports Direct og Jeff Blue hefðu áform um að opna fleiri verslanir á Norðurlöndunum. Ekkert var minnst á Guru Invest S.A. 

Athygli vekur að í gögnunum kemur fram að Ingibjörg Pálmadóttir og Jeff Blue settust svo í stjórn Rhapsody Investments fyrir hönd Guru Invest S.A. og virðist Jeff Blue því hafa verið fulltrúi Guru í stjórninni þrátt fyrir að hann væri kynntur opinberlega sem einn af hluthöfum Sports Direct á Íslandi. Gögnin sýna hins vegar fram á það svart á hvítu að eini eigandi Guru Invest S.A. var Ingibjörg Pálmadóttir. Ingibjörg Pálmadóttir undirritar svo skjöl fyrir Rhapsody Investments S.A. sem eini hluthafi Guru Invest S.A.

Lánar út peninga til fyrirtækja tengdum Jóni Ásgeiri og Ingibjörgu

Í Panama-gögnunum eru svo lánasamningar á milli Mym-e Ltd. og Guru Invest S.A. þar sem skattaskjólsfélagið lánar félaginu sem er í eigu Sports Direct International fjármuni, meðal annars tæplega 50 þúsund pund í lok mars 2012. 

Þá lánaði Guru Invest S.A. í Panama einnig peninga til Sigurðar Pálma Sigurbjörnssonar þann 30. maí árið 2012 og kemur fram í lánasamningnum að lánið hafi verið veitt til að fjármagna kaup hans á þriðjungshlut í Rhapsody Investments í Lúxemborg, móðurfélagi Sports Direct á Íslandi. Lánasamningurinn er upp á 115 þúsund pund, rúmlega 21 milljón króna, ríflega þriðjung af heildarverðmæti hlutafjár Sigurðar Pálma í félaginu í Lúxemborg, og kemur fram í lánasamningnum að hann hafi átt að greiða lánið fyrir 1. september 2013. Guru Invest S.A. er því, á bak við tjöldin, ráðandi aðili í Rhapsody Investments og er í raun lang stærsti hluthafi fyrirtækisins vegna eigin hlutafjáreignar og lánveitinga til Sigurðar Pálma. 

Þá eru lánveitingar frá Guru Invest S.A. til fleiri fyrirtækja sem tengjast Ingibjörgu og Jóni Ásgeiri meðal annars til leðurvörufyrirtækisins Moncrief UK Limited. Guru Invest S.A. keypti sömuleiðis hlutabréf í breska fyrirtækinu JMS Partners Limited sem er að hluta til í eigu Jóns Ásgeirs og að hluta í eigu Gunnars Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Baugs, um haustið 2012. Það fyrirtæki er skráð í Bretlandi. Eftir þetta voru hluthafarnir þrír í félaginu: Jón Ásgeir, Gunnar og Guru Invest S.A. Seljandi þeirra hlutabréfa var fyrirtækið Ormond Limited sem skráð er í skattaskjólinu Guernsey á Ermarsundi. Guru Invest S.A. keypti svo líka hlutabréf af Gunnari Sigurðssyni í JMS Partners. 

JMS Partners lánaði fyrirtæki í eigu Guru Invest S.A. í skattaskjólinu Seychelles líka nærri 800 þúsund pund. Það fyrirtæki heitir Richmond Brands ltd. Þar er því komin önnur tenging við annað skattaskjól. 

Frekari lánveitingar á milli félaga og fyrirtækja í eigu Ingibjargar og Jóns Ásgeirs er að finna í gögnunum en það er óþarfi að tíunda allar lánveitingarnar þar sem umfang þeirra er svo mikið. Aðalatriðið er að fyrirtæki í skattaskjólum sem eru í eigu Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar koma mikið við sögu í alþjóðlegum viðskiptum þeirra hjóna.

Jón Ásgeir fyrir dómi
Jón Ásgeir fyrir dómi Kröfuhafar hafa reynt að sækja á Jón Ásgeir. Hér er hann fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur ásamt Gesti Jónssyni, verjanda sínum.

Félag Jóns Ásgeirs í Panama lánaði íslensku félagi hans 

Sú umfjöllun um viðskipti Guru Invest S.A. í Panama-skjölinum og annarra fyrirtækja tengdum Ingibjörgu Pálmadóttur og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sýnir fram á gríðarlega mikil viðskipti Ingibjargar og Jóns Ásgeirs í gegnum félög í ýmsum skattaskjólum yfir margra ára tímabil. 

Auk þeirra félaga sem hér eru nefnd tengist Jón Ásgeir líka félögunum Abernathy Equtites Inc. á Bresku Jómfrúareyjum, þar sem hann var skráður sem hluthafi ásamt Kaupþingi í Lúxemborg árið 2003, auk félagsins Jovita Inc. sem stofnað var í Panama árið 2007 og sem Jón Ásgeir átti og hafði umboð fyrir samkvæmt Panama-gögnunum. Þetta félag lánaði íslensku eignarhaldsfélagi Jóns Ásgeirs, Þú Blásól ehf. sem alfarið var í eigu hans sjálfs, 1,1 milljón evra, tæplega 150 milljónir króna, í lok ágúst árið 2008. Þetta þýðir þá að þetta félag Jóns Ásgeirs í Panama átti að minnsta kosti tæpar 150 milljónir króna þar í landi rétt fyrir bankahrunið á Íslandi árið 2008.

Bæði Jovita Inc. og Abernathy Equties hafa hætt störfum en Guru Invest S.A. er ennþá starfandi og eru síðustu gögnin um félagið í Panama-skjölunum frá því í árslok 2014.  

Af Panama-gögnunum að dæma er ljóst að Guru Invest S.A. spilar mikilvægt hlutverk í alþjóðlegu fyrirtækjaneti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur. En tekið skal fram að ekkert í gögnunum sýnir fram á hversu miklar eignir er að finna í fyrirtækinu. 


Íslenski tengiliðurinn í skattaskjólinu:

Bað ítrekað um að hann yrði ekki nafngreindur

Sá sem sá um samskiptin við Mossack Fonseca fyrir hönd Guru Invest S.A. og þeirra Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar heitir Þorsteinn Ólafsson og starfar hjá fyrirtækinu Arena Wealth Management í Lúxemborg. Þorsteinn var áður starfsmaður eignastýringardeildar Landsbankans í Lúxemborg en hann stofnaði Arena Wealth Management í kjölfar hrunsins árið 2008 og tók við eignastýringu fyrir marga af viðskiptavinum þess banka, meðal annars fyrir Ingibjörgu Pálmadóttur, Jón Ásgeir Jóhannesson, Hannes Smárason og Magnús Ármann sem gjarnan er kenndur við fjárfestingarfélagið Ímon. Aðrir Íslendingar sem starfa fyrir Arena Wealth Management eru meðal annars Kjartan Guðmundsson og Sigvaldi Stefánsson. 

Þorsteinn hefur meðal annars komið að því eftir hrunið árið 2008 að halda utan um fjárfestingarverkefni Hannesar Smárasonar og Magnúsar Ármann í frönsku ölpunum, íburðarmikinn skíðaskála sem meðal annars hefur verið leigður út til efnafólks. Eins og DV greindi frá árið 2013 eiga þeir Magnús og Hannes þennan skíðaskála, eða áttu á þeim tíma hið minnsta, í gegnum flókinn eignastrúktúr aflandsfélaga sem endar í  Panama en fer í gegnum Lúxemborg og Kýpur meðal annars. Þorsteinn heldur fyrir þeirra hönd utan um viðskipti sem tengjast félögunum sem eiga skíðaskálann og skrifaði meðal annars í tölvupósti í nóvember að hann hefði ákveðið að veita lán upp á 125 þúsund evra út úr einu fyrirtæki sem heldur utan um skíðaskálann, Mexborough Holding S.A. í Sviss. „Lánið sem ég er að tala um er lánið frá Mexborough upp á 125.000 evrur sem ég veitti í september.“ Þorsteinn og Arena Wealth Management stýra því lánum aflandsfélaga sem tengjast Magnúsi og Hannesi. 

Á Íslandi er Þorsteinn hins vegar einna þekktastur fyrir að hafa verið söngvari hljómsveitarinnar Vinir vors og blóma á sínum yngri árum. Auk þess kemur hann fyrir á einni þekktustu ljósmynd sem tengist góðærinu og hruninu á Íslandi sem tekin var í samkvæmi í skíðaskála í Courchevel í Frakklandi árið 2007. Á myndinni situr Þorsteinn fyrir framan Jón Ásgeir Jóhannesson, Stefán H. Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóra Baugs, Sigurjón Árnason, fyrrverandi Landsbankastjóra, og Magús Ármann fjárfesti. 

Í öllum þeim fjölda tölvupósta sem er að finna í Panama-skjölunum um samskipti við Mossack Fonseca út af Guru Invest S.A. er ekki einn tölvupóstur frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sjálfum eða Ingibjörgu Pálmadóttur. Þau koma fyrir í tölvupóstunum á stöku stað sem viðtakendur tölvupósta eða afrita af tölvupóstum en ekkert meira. Þorsteinn sér nánast alfarið um samskiptin við Mossack Fonseca fyrir hönd eiganda Guru Invest S.A. Í gögnunum kemur fram að hann biður starfsmenn Mossack Fonseca ítrekað um að nafn hans komi ekki fyrir í gögnum sem panamaíska lögmannsstofan vinnur fyrir hönd Guru Invest S.A. 

Í einum tölvupóstinum segir hann, eftir að hafa beðið  lögmannsstofuna um að útbúa lögfræðiálit fyrir Guru Invest S.A., hvort ekki sé hægt að sleppa því að tengja nafn hans við beiðnina um lögfræðiálitið. „Má ég biðja ykkur um að útbúa lögfræðiálitið án þess að hafa mig sem beiðanda þess eða nefna mig í því? Kannski getið þið stílað það á stjórn Moon? [Capital sem síðar var endurskírt Guru Invest].“ Þorsteini var því mikið í mun að vera ekki beintengdur við viðskipti Guru Invest. 

Þorsteinn og Arena Wealth Management eru því mjög umsvifamikil í eignastýringu erlendis fyrir íslenska auðmenn og fjárfesta og virðast öll viðskipti Guru Invest S.A. við Mossack Fonseca hafa farið í gegnum hann auk þess sem hann hefur haldið utan um viðskipti Magnúsar Ármann og Hannesar Smárasonar með skíðaskálann í Courchevel og jafnvel víðar. 

Stundin gerði tilraunir til að ná tali af Þorsteini Ólafssyni á skrifstofu Arena Wealth Management en án árangurs. 


Stýrir Sports direct á Íslandi
Stýrir Sports direct á Íslandi Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, sonur Ingibjargar Pálmadóttir, stofnaði Sports direct á Íslandi. Í ljós kemur að félagið fékk fjármögnun í gegnum skattaskjólsfélag Ingibjargar.

Sigurður Pálmi:

„Gott að fá svona upplýsingar“

Eitt af því sem vekur athygli í gögnunum frá Mossack Fonseca er að móðurfélag íþróttavöruverslunarinnar Sports Direct á Íslandi er að hluta til í eigu Guru Invest S.A. í Panama. Mörg skjöl eru um þetta í gögnunum, meðal annars hluthafasamkomulag félagsins í Lúxemborg sem á íslenska rekstrarfélagið, NDS ehf., en lúxemborgíska félagið heitir Rhapsody Investments (Europe) S.A. Þar kemur fram að Guru Invest S.A. er, eða var að minnsta kosti, einn af hluthöfum félagsins í Lúxemborg. Þá lánaði Guru Invest S.A.einum hluthafa Rhapsody Investments, Sigurði Pálma Sigurbjörnssyni, 115 þúsund pund fyrir hlutafé í félaginu en hann er sonur Ingibjargar Pálmadóttur. NDS ehf. skilaði rúmlega 21 milljóna króna hagnaði frá því í maí 2014 og þar til í apríl 2015 samkvæmt ársreikningi þess en fyrirtækið er fjármagnað að hluta til af móðurfélagi sínu í Lúxemborg og skuldaði því meðal annars rúmlega 54 milljónir króna í lok þessa tímabils sem um ræðir. 

Sigurður Pálmi vill hins vegar ekki gefa miklar upplýsingar um tengsl Sports Direct á Íslandi við Guru Invest S.A. eða lánið sem hann fékk frá félaginu í Panama. 

Samtal blaðamanns við Sigurð Pálma

Blaðamaður: Kannastu við félag sem heitir Guru Invest S.A.?

Sigurður Pálmi: Kannast ég við það? Af hverju spyrðu?

Blaðamaður: Út af því að ég hef heimildir fyrir því að þetta félag sé hluthafi í Sports Direct á Íslandi.

Sigurður Pálmi: Viltu ekki bara tala við þann aðila sem þú heldur að sé með þetta félag? Ég veit ekkert um þetta félag. [Ingibjörg móðir Sigurðar Pálma er skráður eigandi félagsins]

Blaðamaður: En hefur þú ekki fengið lánaða fjármuni frá þessu félagi?

Sigurður Pálmi: Ég hef bara ekkert um þetta að segja. 

Blaðamaður: Árið 2012?

Sigurður Pálmi: Ég hef ekkert um þetta að segja.

Blaðamaður: Þetta félag er hluthafi í félaginu í Lúxemborg sem er móðurfélag Sports Direct á Íslandi en það hefur aldrei komið fram opinberlega. Af hverju er það?

„Sports Direct á Íslandi er bara félag í einkaeigu og það er engin upplýsingaskylda með það.“

Sigurður Pálmi: Ég hef bara ekkert um þetta að segja. Sports Direct á Íslandi er bara félag í einkaeigu og það er engin upplýsingaskylda með það.

Blaðamaður: En geturðu ekki sagt mér hvort þú kannist við það hvort þetta félag sé hluthafi í Sports Direct á Íslandi?

Sigurður Pálmi: Það kemur fram á ársskýrslu félagsins hver er eigandi þess. Það er öllum reglum fylgt þannig að það eru einu upplýsingarnar sem ég ætla að gefa þér.

Blaðamaður: Veistu hvar félagið Guru Invest er staðsett?

Sigurður Pálmi: Alveg eins og ég sagði áðan þá eru þetta einu upplýsingarnar sem ég ætla að gefa þér. Þú verður bara að tala við þá sem eru á bak við Guru.

Blaðamaður: En ert þú raunverulegur eigandi Sports Direct á Íslandi meðal annarra?

Sigurður Pálmi: Ásamt Sports Direct-keðjunni…

Blaðamaður: Og Guru Invest?

Sigurður Pálmi: Þú sérð það bara á ársskýrslu rekstarfélagsins sem er í eigu Rhapsody.

Blaðamaður: En hver á Rhapsody?

Sigurður Pálmi: Ég til dæmis og Sports Direct.

Blaðamaður: Og Guru?

Sigurður Pálmi: Nú ertu að leggja mér orð í munn.

[….]

Blaðamaður: En hlutafé þitt í félaginu var meðal annars fjármagnað af Guru Invest. 

Sigurður Pálmi: Ertu að spyrja mig eða segja mér það?

Blaðamaður: Ég er að segja þér það að það var þannig og ég veit að þú veist það.

Sigurður Pálmi: Já, takk fyrir það. Gott að fá svona upplýsingar. 

Sigurður Pálmi vildi ekki ræða málið frekar og sagði að hann fylgdi í einu og öllu lögum í starfsemi félagsins. Hann sagðist ekki þurfa að ræða sína einkafjármál. „Ég er í raun og veru búinn að svara öllu sem þú ert búinn að spyrja mig um. […] Ber mér einhver skylda til að gefa þér einhverjar upplýsingar um eignarhald á einhverjum félögum sem þú þylur upp?.“


Ingibjörg Pálmadóttir:

„Ég varð ekki að viljalausu verkfæri“

Ingibjörg Pálmadóttur, eigandi Guru Invest S.A. og Moon Capital, hefur gagnrýnt það að vera samsömuð við eiginmann sinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, í umfjöllun fjölmiðla um viðskipti hennar. Á Kvennadaginn þann 19. júní árið 2014 skrifaði hún meðal annars grein sem hún birti í vefmiðlinum Kvennablaðinu þar sem hún gagnrýndi þá tilhneigingu í íslenskum fjölmiðlum að hún væri samsömuð Jóni Ásgeiri og talað um að hún væri einhvers konar leppur fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson.  

Í greininni sagði Ingibjörg meðal annars: „Það er forkastanlegt að íslenskir fjölmiðlakarlmenn skuli ekki trúa því að ég, konan, geti átt og rekið fyrirtæki. Þegar fjallað er um fyrirtæki í minni eigu er yfirleitt látið liggja að því að ég sé eitthvert eggjunarfífl Jóns Ásgeirs, eiginmanns míns. Jón Ásgeir eins og aðrir eiginmenn hefur skoðanir á því sem ég geri, sem ég hlusta stundum á. Ég er hins vegar eldri, reyndari og betur menntuð en hann og margir aðrir. Í krafti eigin getu og þekkingar tek ég ákvarðanir er lúta að mínum eignum. […] Ég varð ekki að viljalausu verkfæri þegar ég gifti mig tæplega fimmtug.“

„Jón Ásgeir eins og aðrir eiginmenn hefur skoðanir á því sem ég geri, sem ég hlusta stundum á.“

Í tölvupósti til DV í maí árið 2012 þar sem hún var spurð um eignarhaldið á 365 kom hún einnig inn á þetta atriði um að hún vildi ekki vera samsömuð Jóni Ásgeiri. „Hver á 365 ? Svarið er einfalt og alltaf það sama hvort sem ykkur líkar það betur eða ver, ég Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir á 365 að stærstum hluta eða yfir 90%. Jón Ásgeir eða Jóhannes Jónsson eiga ekki félagið að neinum hluta þó margir vilji hafa það þannig. Kannski er þessi þráhyggja um eignarhaldið af því að ég er kona og konur geta ekki verið eigendur og alls ekki ef þær eru giftar Jóni Asgeiri.“

„Kannski er þessi þráhyggja um eignarhaldið af því að ég er kona.“

Nokkrum dögum áður hafði Jón Ásgeir Jóhannesson svarað spurningunni um eignarhaldið á 365 með því að benda á Ingibjörgu og þá staðreynd að hún væri fjárhagslega sjálfstæð. „Konan mín er fjárhagslega sjáfstæð og var það löngu áður en ég kynntist henni eins og alþjóð veit.“ 

Út frá Panama-skjölunum og gögnunum um Guru Invest S.A. þá eru fjárhagsmálefni Jóns Ásgeirs og Ingibjargar nær algjörlega samtvinnuð. Lánaviðskipti eiga sér stað á milli erlendra fyrirtækja í þeirra eigu og félag Ingibjargar borgar upp skuldir fjölskyldufyrirtækis Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og skuldauppgjörið frá Glitni snýst um fyrirtæki sem þau bæði eiga í sitt hvoru lagi. Út frá gögnunum að dæma virðist líka vera hægt að samsama Jón Ásgeir við Ingibjörgu með sama hætti og hægt er að samsama Ingibjörgu við Jón Ásgeir. 


Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Jón Ásgeir og Ingibjörg Pálmadóttir í skattaskjóli

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu