Myndband: Shutterstock
Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Hverjir eiga náttúruperlur Íslands?

Gríð­ar­leg breyt­ing hef­ur orð­ið á ásýnd lands­ins með fjölg­un er­lendra ferða­manna. Nátt­úruperlurn­ar eru farn­ar að láta á sjá vegna átroðn­ings en á sama tíma sjá fjár­fest­ar auk­in tæki­færi í nátt­úr­unni. Sí­fellt fleiri land­eig­end­ur stefna á að taka gjald af þeim sem vilja sjá nátt­úr­una og í und­ir­bún­ingi er heil­mik­il upp­bygg­ing hót­ela og annarra mann­virkja á jörð­um við nokkr­ar af okk­ar feg­urstu perl­um.

Náttúra Íslands er það sem dregur nær áttatíu prósent ferðamanna hingað til lands samkvæmt könnun Ferðamálastofu. Talið er að um ein og hálf milljón erlendra gesta komi til Íslands í ár sem þýðir að átroðningur á náttúruperlum landsins hefur líklega aldrei verið meiri. Það er í okkar höndum að tryggja að komandi kynslóðir fái notið náttúru Íslands, líkt og kynslóðirnar á undan gerðu fyrir okkur. Sigríður í Brattholti hótaði að henda sér í Gullfoss vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda í fossinum, svo við fengjum notið hans, en í dag ræður Gullfoss ekki við þann fjölda ferðamanna sem fer um svæðið á ári hverju. Gullfoss er hins vegar friðlýstur og í eigu ríkisins og hefur töluverð uppbygging verið á svæðinu undanfarin ár. Sömu sögu er hins vegar ekki að segja um eina þekktustu náttúruperlu Íslands – Geysi. Miklar deilur hafa staðið um Geysissvæðið síðastliðin ár, en svæðið er bæði í eigu einkaaðila og ríkisins. Landeigendur hófu gjaldtöku á svæðinu sumarið 2014 sem ríkinu hugnaðist ekki og lét setja lögbann á gjaldheimtuna. Landeigendur buðu í kjölfarið milljarð króna í hlut ríkisins í Geysissvæðinu, en ríkið vill ekki selja. Ríkið vill hins vegar kaupa hlut landeigenda og friðlýsa svæðið, en það hugnast landeigendum ekki. Pattstaða er því í málinu og á meðan liggur Geysissvæðið undir skemmdum. Geysir er í dag á rauðum lista hjá Umhverfisstofnun, yfir svæði sem eru í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu, eða hafa tapað því að hluta til. 

 

Fleiri stefna á gjaldtöku

Umræðan um gjaldtöku við ferðamannastaði hefur verið áberandi undanfarin ár. Fjárfestarnir sem eiga Kerið í Grímsnes- og Grafningshreppi voru ákveðnir brautryðjendur hvað varðar gjaldtöku við náttúruperlur hér á landi, en þeir hófu að taka gjald af ferðamönnum sem vildu skoða Kerið sumarið 2013. Þeir ruddu brautina fyrir aðra landeigendur sem nú freista þess að hefja gjaldtöku við perlur á sínum landareignum. Sumarið eftir hófu landeigendur við bæði Geysi og hverina við Námafjall og Leirhnjúk að taka gjald af ferðamönnum, en í báðum tilfellum var sett lögbann á gjaldheimtuna vegna ósamstöðu innan landeigendahópsins. 

Gjaldtaka er nú við Víðgelmi í Hallmundarhrauni í Borgarfirði og þá boðuðu landeigendur við Reynisfjöru að gjald yrði tekið af þeim sem hyggðust nota bílastæðin við fjöruna í sumar. Sú gjaldtaka gekk hins vegar ekki eftir. Þá stefndi sveitarfélagið Rangárþing eystra á gjaldtöku við Seljalandsfoss í sumar, sem ekkert varð úr, og þá hefur gjaldtaka við Skógafoss og Sólheimajökul einnig verið rædd.  

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár