Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Hver er Guðni Th?

Í gær tók Guðni Th. Jó­hann­es­son, sjötti for­seti Ís­lands, við embætti. Sagn­fræð­ing­ur­inn Guðni hef­ur þurft að tak­ast á við ým­is­legt í gegn­um tíð­ina; feimni, föð­ur­missi, skiln­að og fleira. Frá og með gær­deg­in­um tekst hann hins­veg­ar á við nýja áskor­un, að vera þjóð­ar­leið­togi Ís­lend­inga.

Guðni Th. tók við embætti forseta Íslands í gær. Í aðdraganda kosningana kom Guðni í viðtal þar sem hann lýsti meðal annars lífshlaupi sínu, mótunarárum og viðsnúningnum að vera sagnfræðingur sem verður hluti af sögunni.

Þrátt fyrir að hafa skrifað fjölda greina og bóka sem vakið hafa mikla athygli undanfarin ár, og verið einn fremsti fræðimaður og álitsgjafi landsins, var það ekki fyrr en í miðjum fellibylnum sem skall á íslenskum valdhöfum í kjölfar leka Panama-skjalanna sem Guðni Th. stimplaði sig rækilega inn í meðvitund þjóðarinnar, og þar með umræðuna um hugsanlega forsetaframbjóðendur.

Á meðan landsmenn sátu límdir við skjáinn og fylgdust með ráðamönnum hlaupa á milli stofnana í tilraun til að missa ekki tökin á stjórnartaumunum var Guðni eins og umsjónarmaður í dýralífsþætti, og hélt í höndina á undrandi áhorfendum, og útskýrði mögulegar útkomur, vísaði í dæmi úr stjórnmálasögunni og veitti farsanum þá jarðtengingu sem hann svo stórlega vantaði.

„Ég var alveg handviss um að það kæmi öflugur kvenframbjóðandi fram.“

Takturinn í atburðarásinni hafði fram að þessu verið töluvert hægari hjá Guðna, enda með fádæmum rólegur og orðvar maður. „Fyrir áramót höfðu sumir spurt mig hvort ég myndi sýna því áhuga að bjóða mig fram færi svo að Ólafur Ragnar hætti við. Svo færðist smá þungi í það þegar hann kynnti ákvörðun sína á nýársdag. En ég svaraði því til að ég vildi ekki fara í þá baráttu með öllu sem því fylgdi, meðal annars vegna þess að ég var alveg handviss um að það kæmi öflugur kvenframbjóðandi fram. Að ákall tímans væri um konu í embættið.“

Sunnudaginn 3. apríl síðastliðinn var sýndur á RÚV Kastljósþáttur, þar sem Sigmundur Davíð rauk úr viðtali vegna spurninga um eignir hans og eiginkonunnar í skattaskjólum. Á mánudeginum gerði Sigmundur misheppnaða tilraun til þess að fá heimild til að rjúfa þing og næstu daga á eftir var mikið moldviðri í stjórn landsins, öllu sjónvarpað beint, með Guðna Th. í hlutverki þýðanda sem reyndi að útskýra atburðina og setja þá í samhengi fyrir ringlaða áhorfendur. „Það breytist auðvitað allt með Panama-skjölunum og Wintris-upplýsingunum. Ég er þá kallaður til leiks. Þegar í ofanálag bætist við stjórnarkreppa og afstaða forsetans, sem er á mínu sérsviði, þá færðist mikill þungi í þetta.“

„Ég vildi ekki láta einhvern annan mann ákveða fyrir mig hvað ég myndi gera.“

Segir Guðni að á þessum tíma hafi vinir hans og félagar látið gera skoðanakönnun sem sýndi að fólki fannst eitthvað heillandi við hugmyndina um hann á Bessastöðum. „Ég heillaðist af þeirri hugmynd að skapa söguna frekar en að skrifa hana og ákvað að láta slag standa.“

Guðni var búinn að ákveða að fara fram þegar Ólafi snerist svo hugur og tilkynnti að hann væri hættur við að hætta. „Þá þurfti ég að hugsa mig aðeins um, því það er allt annað að fara í framboð á móti sitjandi forseta, bæði vegna þeirrar helgi sem er yfir embættinu, því það er ekkert sjálfsagt að maður bjóði sig fram gegn þeim sem vill sitja áfram, og svo hitt að maður vildi skoða og íhuga hvernig maður myndi breyta kosningabaráttunni, hvert fylgið við mann væri. Eftir þá skynsamlegu íhugun ákvað ég að láta slag standa áfram, þó ekki væri nema vegna þess að ég vildi ekki láta einhvern annan mann ákveða fyrir mig hvað ég myndi gera.“

Á næstu dögum urðu svo miklar sviptingar á helstu frambjóðendum. Guðni heldur áfram: „Atburðarásin varð svo enn hraðari. Ólafur hvarf aftur á braut, sem ég hygg að hafi verið rétt hjá honum, en Davíð Oddson bættist við. Í þeim sviptingum öllum saman mældist ég með allt upp í 70% fylgi, en það verður nú ekki þannig. Það var í miklu óvissuástandi skulum við segja. Þótt ég sé mjög bjartsýnn að eðlisfari er ég ekki svo bjartsýnn að ætla að ég fái 70% fylgi í skoðanakönnunum eða á kjördeginum mikla, þótt maður keppi auðvitað að því að fá sem mest fylgi,“ sagði Guðni, sem reyndist sannspár, en hann var kjörinn með 39,08% atkvæða, þann 25. júní.

Ömmur kynnast í Kvennó

Sagan af Guðna hófst svo sannarlega ekki nú í apríl síðastliðnum. Hann fæddist þann 26. júní árið 1968 í Reykjavík. Móðir hans heitir Margrét Thorlacius, en þaðan kemur einmitt skammstöfunin „Th“ í nafni Guðna. Margrét var lengi barnakennari, mestan hluta ferilsins í Garðabæ. Foreldrar hennar voru Margrét Thorlacius sem fæddist á Hjörsey á Mýrum og Guðni Thorlacius, sem Guðni er nefndur í höfuðið á. „Hann vann lengi hjá Vitamálastofnun og Landhelgisgæslunni. Frægar sögur eru til af honum að glíma við breska landhelgisbrjóta.“

Faðir Guðna, Jóhannes Sæmundsson, fæddist á Patreksfirði árið 1940 og flutti ungur með foreldrum sínum til Hafnarfjarðar. „Þau voru Sigurveig Guðmundsdóttir, sem var lengi kennari í Hafnarfirðinum. Hún var virk í félagsmálum, lengi hjá Sjálfstæðisflokknum en seinna hjá Kvennalistanum, mikil kvenréttindakona. Hún var um skeið í forsvari fyrir kvenréttindafélög Íslands. Og afi, Sæmundur Jóhannesson, var stýrimaður lengi og vann svo um árabil í áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Taldi það nú ekki eftir sér að ganga úr Hafnarfirði til starfa í verksmiðjunni.“

Ömmur Guðna, Margrét og Sigurveig, kynntust þegar þær voru við nám í Kvennaskólanum. Segir Guðni að þær hafi þá báðar verið að þreifa fyrir sér í trúmálum í leitinni að lífsgátunni og enduðu þá í kaþólsku kirkjunni. „Þannig það lá svo sem í augum uppi að þegar pabbi og mamma felldu hugi saman, bæði kaþólsk, að ég skírðist til kaþólskrar trúar líka.“

„Mín sök, mín sök, mín mikla sök.“

Þrátt fyrir það segist Guðni aldrei hafa verið neitt sérstaklega kirkjurækinn. „Við fórum í kirkju á sunnudögum, bræður mínir. Ég man eftir því að ég náði í skottið á því að messan var sungin á latínu. Ég kunni messuna nánast utan af. Mundi til dæmis og man enn að þegar presturinn sagði: „Mea culpa, mea culpa, mea maxima culpa“ (ísl. Mín sök, mín sök, mín mikla sök) þá sá nú fyrir endann á messunni.“

Foreldrar Guðna keyptu sér fokhelt einbýlishús á Arnarnesi og þangað flutti litla fjölskyldan þegar Guðni var ársgamall, árið 1969. „Þetta þótti nú sumum ansi djarft hjá þessum kennarahjónum, en þau gerðu bara það sem fólk gerði á þessum árum. Tóku alla aukavinnu sem bauðst og reyndu ekki að klára allt í einum rykk. Og þarna bjuggu þau okkur mjög indælt heimili, þar sem maður átti mjög góða æsku.“

Æskuárunum segist Guðni hafa varið að miklu leyti úti í fótbolta, jafnvel á veturna ef þannig bar undir, en að bækur og lestur hafi þó átt hug hans allan og þar hafi sagnfræði strax borið höfuð og herðar yfir aðrar skruddur. „Ég drakk í mig allan fróðleik. Við áttum til dæmis Britannicu-alfræðiorðabókina og ég vissi fátt skemmtilegra en að fletta bara upp í henni svona hér og þar og sjá hvaða nýtt maður myndi rekast á og lesa um.“

Í menntaskóla á slóðum nýfallins föður

En hamingjan er fallvölt og vorið 1983 varð fjölskyldan fyrir miklu áfalli þegar Jóhannes, faðir Guðna, greindist með krabbamein og lést.

„Þá var allri þessari sælu umbylt. Það var auðvitað mikið áfall, en mamma stóð sig eins og hetja og henni tókst að búa þannig um hnútana að við bjuggum áfram á okkar æskuslóðum og hún sinnti okkur eftir bestu getu.“ Guðni var á fimmtánda ári þegar faðir hans lést. Hann lauk grunnskólaprófi og hóf svo sumarið eftir nám við MR, þar sem pabbi hans hafði verið kennari. „Hann kenndi þarna mörgum góðum mönnum, manni þykir alltaf hlýtt um að það er talað fallega um hann.“

Jóhannes var mikill íþróttamaður. Lauk hann meðal annars BA-prófi í íþróttafræðum frá San Jose College í Kaliforníu, og aðstoðaði þar að auki við þjálfun landsliðanna í handbolta og körfubolta. Það gefur því augaleið að íþróttir voru fyrirferðarmiklar á heimilinu. Draumur ungra drengja er að ganga í augun á föður sínum og þar var Guðni engin undantekning. Þegar það hins vegar rann upp fyrir honum í MR, á staðnum þar sem faðirinn sem hann hafði nýlega misst hafði starfað, að framinn í handbolta sem hann dreymdi um yrði líklega aldrei að veruleika, var það mikill skellur. „Ég var mikill íþróttamaður í æsku. Hafði líf og yndi af handbolta, en þarna sá ég að ég yrði aldrei góður í handbolta og það urðu mér vonbrigði.“

„Þetta voru ekki mín bestu ár.“ 

Vonbrigðin, óöryggið og feimnin mögnuðust upp á þessum stað, sem var stöðug áminning um föður hans. „Þetta voru eiginlega ekki mín bestu ár. Ég var yfirmáta feiminn, ætlaði að slá í gegn á ræðunámskeiðum en svo varð ekkert úr því. Ég var svona hikandi og spurði sjálfan mig hvað yrði nú úr manni. Hvort maður myndi standa sig.“ Hann lýsir þessum árum þó með væntumþykju og skilning til handa menntskælingnum unga sem rættist úr. „Ég hef hugsað um hvað það gæti verið gaman að hverfa eitt andartak aftur í fortíðina, klappa á öxlina á þessum feimna strák, sem var þarna óviss um eigið ágæti, og geta sagt við hann: „Þetta verður allt í lagi, þú ert kominn í forsetaframboð.“

„Hvað heldurðu“
„Hvað heldurðu“ Guðni segir að uppflettingar í Britanicu í æsku hafi komið til góða í spurningakeppnum.

 Eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að frami í handbolta væri ekki raunhæfur möguleiki fann Guðni sér einfaldlega aðra stefnu. Hann komst til dæmis í Gettu betur-lið MR, í árdaga keppninnar. „Þar töpuðum við með glæsibrag gegn Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í úrslitum, þetta var eitt af fyrstu skiptunum. En þá komu sér til góða allar þessar uppflettingar í Britannica forðum daga.“ Ljóst var að Guðni átti gott með að fletta upp í þeim fróðleik sem hann hafði innbyrt og gagnaðist sá hæfileiki vel í spurningakeppnum, en það tók hann þó ekki langan tíma að fá leiða á þeim. „Síðast keppti ég svo fyrir Kjalnesinga í mjög vinsælum spurningaþætti Ómars Ragnarssonar, en eftir það fékk ég eiginlega algjört ofnæmi fyrir spurningaþáttum og hef ekki látið draga mig í svoleiðis eftir það. Ef ég ákveð að gera eitthvað, eða gera ekki eitthvað, þá bara stendur það.“

[Þegar Guðni var rétt rúmlega tvítugur keppti hann í þættinum „Hvað heldurðu“ sem var í stjórn Ómars Ragnarssonar]

En þrátt fyrir að yfir menntaskólaárunum hafi legið sorg, sjálfsefi og óvissa var Guðni þó ávallt bjartsýnn. „Svo rættist úr þessu. Ég var alltaf svo viss um að ég myndi ná að hafa það gott. Það var bara spurning hvernig ég færi að því og hvernig ég myndi ná þeim kjarki sem þyrfti. Blessunarlega tókst það nú allt saman.“

Ástin gerir ekki boð á undan sér

Eftir að hafa lokið stúdentsprófi tók Guðni sér ár í að safna fyrir framhaldsnámi ásamt því sem móðir hans aðstoðaði hann við það. Hann fór svo til Bretlands þar sem hann lauk BA-prófi í sögu og stjórnmálafræði frá University of Warwick. Stefnan að því loknu var sett á framhaldsnám í Þýskalandi en Guðni varð óvart ástfanginn á Íslandi. „Það er nú bara skemmst frá því að segja að við gengum í hjónaband og eignuðumst dóttur, ég og fyrri konan mín, Elín Haraldsdóttir. Hún er listakona, vinnur með keramik, en er reyndar viðskiptafræðingur líka en finnur sig miklu betur í listinni. Við eignuðumst dóttur okkar árið 1994, hana Rut, sem er háskólanemi í sálfræði og ritlist.“

Hjónin ungu ætluðu sér mikið á stuttum tíma og fór svo að lokum að upp úr sambúðinni slitnaði. „Svo skildum við. Eftir á að hyggja gerðum við allt of mikið allt of hratt. Við fórum allt of hratt úr því að vera ástfangið par með engar áhyggjur yfir í það að vera með íbúð, bíl og barn og allar áhyggjur heimsins á öxlunum. Okkur fannst líka eins og við ættum eftir að láta einhverja drauma rætast og fannst einhvern veginn eins og við værum farin að standa í vegi fyrir hvort öðru. En við skildum í mjög góðu og okkur hefur alltaf komið mjög vel saman.“

Í kjölfarið skilnaðarins fór Guðni í doktorsnám í Bretlandi, árið 1998. Hann hóf nám í Oxford en fékk svo styrk til náms í Queen Mary-háskólanum og færði sig um set. Áður en sá flutningur átti sér stað tókst honum þó að verða ástfanginn aftur, í þetta sinn af kanadískri konu að nafni Eliza Reid. „Við felldum þarna hugi saman og bjuggum svo saman úti í Bretlandi til 2003, þegar ég lauk mínu doktorsnámi. Þá fluttum við hingað til Íslands. Það var alltaf skýrt, ég vildi vera nálægt Rut. Eliza var alveg til í að láta slag standa.“

„You just watch me.“

Guðni varaði þó konuna við að það gæti reynst flókið fyrir utanaðkomandi að aðlagast. „Ég var búinn að segja henni að þetta væri sérstakt samfélag hérna. Við Íslendingar stöndum saman og það getur verið snúið fyrir útlendinga að koma sér fyrir í þessu samfélagi, en hún var til í þá áskorun. Sagði bara: „You just watch me.““

Eliza tók sig til og lærði íslensku og stofnaði svo sitt eigið fyrirtæki, Iceland Writers Retreat. Það býður upp á ritlistarbúðir, þar sem heimsþekktum rithöfundum er boðið til Íslands, sem ásamt íslenskum rithöfundum aðstoða fólk sem er með bók í maganum eða vill þjálfa sig í að skrifa. Á sama tíma ferðast fólkið um landið og kynnir sér sögu og menningararf þjóðarinnar. Jafnframt því að reka þetta fyrirtæki ritstýrir Eliza tímariti Icelandair, sem er um borð í öllum flugvélum félagsins. „Fyrir utan það að við erum að ala upp þessi börn okkar saman, þannig við höfum haft mjög mikið að gera,“ segir Guðni, sem greinilega er mjög stoltur af konunni sinni.

„Eliza er gott dæmi um nýjan Íslending sem hefur haslað sér völl hérna. Mér finnst líka gott hvað samfélagið hefur tekið henni vel.“

Guðni og Eliza
Guðni og Eliza Önnur eiginkona Guðna, Eliza Reid hefur rekið fyrirtækið Iceland Writers Retreat, þar sem boðið er upp á ritlistarbúðir fyrir fólk með bók í maganum.

Þrátt fyrir að Elizu hafi gengið vel að finna sína fjöl segir Guðni það augljóst að útlendingar sem vilja setjast hér að séu ekki allir eins heppnir. „Ég sé vel í gegnum kynni okkar af útlendingum sem flytja hingað að það gengur misvel að koma sér fyrir hérna. Sumir eru náttúrlega eingöngu til þess að vinna í smá tíma og eru svo horfnir á braut. En af þeim sem vilja setjast hér að til langframa eru það þeir sem reyna að læra íslensku sem pluma sig. Bæði tekur samfélagið þeim betur og hitt að þeir ná þá að verða hluti af samfélaginu. Hinir, sem annaðhvort vilja ekki eða eiga í erfiðleikum með að ná tökum á íslensku, eru alltaf í vandræðum.“

Hann segir að ákveðið glerþak komi í veg fyrir að þeir nái að taka þátt, skilja hvað sé í gangi á foreldrafundum, vera með í félagastörfum, fá vinnu og svo framvegis. „Þetta er eitt af því sem ég hef séð svo vel núna undanfarin ár og eitt af því sem væri gaman að geta stuðlað að því að bæta sem forseti. Að hjálpa þeim sem vilja virkilega koma sér fyrir hérna og gera gagn og vera hluti af samfélaginu. Hjálpa þeim, því að það er allra hagur, ekki aðeins þeirra vegna heldur okkar hinna líka.“ Voru þessar áherslur einnig áberandi í innsetningarræðu Guðna í gær

Skrifar fyrir almenning

Eftir doktorsnámið kom Guðni sem sagt með Elizu til landsins og hóf kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands, „en svo rann upp þetta góða ár 2007. Þá bauðst mér starf við Háskólann í Reykjavík sem ég þáði með þökkum. Miklu betri laun, minni kennsla og ögrandi starf að kenna viðskiptafræðinemum og laganemum samtímasögu. Það var virkilega skemmtilegt í alla staði. En svo kom blessað hrunið og HR gat bara ekki leyft sér lengur þennan lúxus að hafa sagnfræðing á launaskrá þannig að þau urðu að láta mig fara 2010.“ Eftir það var hann sjálfstætt starfandi sagnfræðingur til ársins 2013 þegar hann fékk fasta stöðu við Háskóla Íslands, þar sem hann hefur verið síðan.

Hefur Guðni einbeitt sér fyrst og fremst í sínum rannsóknum og skriftum íslenskra stjórnmála og samtímasögu á 20. öld til okkar daga. Hefur hann skrifað þónokkrar bækur með það að meginsjónarmiði að miðla rannsóknum sínum. Segist hann vilja hafa breidd í fræðasamfélaginu. Sumir fræðimenn skrifi fyrst og fremst fyrir fræðasamfélagið sjálft, jafnvel á ensku frekar en íslensku. Öðrum finnist meiri ögrun liggja í því að miðla fræðunum og hann sé í þeim hópi. „Mér finnst skemmtilegast að skrifa bækur á íslensku fyrir almenning. Það hef ég gert. Ég hóf minn feril á því að skrifa bók um Kára Stefánsson og Íslenska erfðagreiningu. Bókin var nú í óþökk Kára fyrst, en svo sá hann að þetta var ekki árás á hann eða hans fyrirtæki, þannig við Kári grófum stríðsöxina og erum bestu vinir í dag. Það er mjög gott að eiga Kára að.“

Gagnrýndur fyrir þorskastríðin

Afi og nafni hans, Guðni Thorlacius, starfaði lengi hjá Landhelgisgæslunni þar sem hann glímdi meðal annars við breska landhelgisbrjóta. Hefur sagnfræðingurinn Guðni meðal annars skrifað um þessa umbrotatíma. „Þar hef ég haldið á loft þessari þjóðarsögu. Þetta er einn mikilvægasta kaflinn í utanríkissögu Íslands á síðustu öld. Mikið afrek og nauðsynlegt að ná að færa út fiskveiðilögsöguna. Hins vegar hef ég bent á að sagan er ekki eins einföld og valdhafar láta hana stundum vera á hátíðarstundum.“ Guðni segir að búin sé til saga um stöðuga einingu og úrslitaáhrif Íslands á alþjóðavettvangi. Því sé hampað að Íslendingar hafi aldrei gefið eftir og aldrei samið „en allir sem kynna sér þessa sögu fordómalaust vita að svona einföld var sagan ekki“.

„Það var svo mikill hiti í mönnum að það þurfti að hlera síma hjá alþingismönnum og fleirum.“

Eftir að Guðni fór í framboð voru gerðar tilraunir til að gera ýmislegt sem hann hafði látið frá sér vafasamt, meðal annars skrif hans um þorskastríðið. Annar frambjóðandi, Davíð Oddsson, sagði ítrekað að Guðni væri með skrifum sínum að tala niður afrek Íslendinga og afskrifa þau sem þjóðsögu og mont. Guðni aftur á móti hvetur fólk til að lesa söguna alla en pikka ekki bara út það sem þeim finnst stinga í augu. „Það er þannig að þorskastríðin eru þjóðarsaga, og eins og ég sagði og hef rakið í ræðu og riti, einn mikilvægasti hluti okkar utanríkissögu. En það þýðir ekki að við eigum að búa til bautastein þar sem staðreyndum er snúið á haus.“ Tekur hann sem dæmi að samstaðan stöðuga sem máluð hefur verið upp í seinni tíð standist ekki nána skoðun. „Tökum bara eitt dæmi: Fyrsta þorskastríðinu lauk með samningum við Breta 1961. Þá var við völd viðreisnarstjórnin og foringjar Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson eldri lögðu ríka áherslu á að samningar væru lausnin og leiðin eina. Andstæðingar sögðu að þetta væri mesti landráðasamningur sem sögur fara af, og það var svo mikill hiti í mönnum að það þurfti að hlera síma hjá alþingismönnum og fleirum.“

Þessi atburður segir Guðni að einn og sér afsanni kenninguna um hina einróma samstöðu og enga eftirgjöf. „Þarna var samið og það var talað um landráðasamning og þjóðin skipaði sér í tvær stríðandi fylkingar. Þannig er saga þorskastríðanna flóknari en hin einfalda mynd sem sumir freistast til þess að draga upp. Orð Ara fróða eru bara í góðu gildi: Hafa skal það sem sannara reynist.“

Hrunið, þið munið

Í skrifum sínum um íslenska samtímasögu fyrir hinn almenna lesanda hefur Guðni því oft rekið sig á það að upplifun almennings og sagnfræðilegar staðreyndir eru ekki alltaf á sama sporinu. Varðandi hrunið og þá tilhneigingu fólks að skella skuldinni á einn flokk, einn atburð eða eina manneskju, eins og reglulega er reynt að gera, segir Guðni að það sé eins ósanngjart og hugsast geti. „Hrunið er það margslunginn og flókinn atburður að það er ekki hægt að negla niður einhvern einn atburð eða benda á einhvern einn einstakling og segja „Hér er rótin.“ 

Hann segir rætur vandans hafa verið teknar mjög vel saman í einum fyrsta dómnum sem kveðinn var upp eftir hrun. „Það var finnskur sérfræðingur, Karlo Jenneri. Hann kom hér og lagði mat á ástand mála, snemma árs 2009, og sagði að það væri hægt að skýra þetta með þremur meginþáttum, og gerði það á ensku, en á íslensku myndi það hljóma svona: Slæmir bankamenn, slæm stjórnvöld, slæm örlög. (Bad banking, bad policies, bad luck).“

„Þeir skildu ekki að dramb er falli næst.“

Nefnir Guðni þó að eigendur bankanna beri meginábyrgð á íslenska bankahruninu. „Þeir fóru sér allt of geyst, þeir skildu ekki að dramb er falli næst. Stjórnvöld sömuleiðis. Eftirlitsstofnanir sváfu á verðinum. Þingmenn og ráðherrar lokuðu augunum fyrir augljósum hættuljósum og nánast allir brugðust.“ Einnig hafi tímasetningin þegar bankarnir voru einkavæddir verið mjög óheppileg, því þá hafi lánsfé einmitt verið mjög auðfengið um allan heim. Svo hafi eitthvað valdið því að ekki hafi verið brugðist nógu skjótt við þegar allt tók að hrynja haustið 2008. „Þá bárum við ekki gæfu til þess að taka réttar ákvarðanir alveg í tíma. En með neyðarlögunum tókst að bjarga því sem bjargað varð og eftir það snerist þetta um að koma okkur sem best út úr þessum vanda sem skapast hafði.“

Nú eru þenslutímar í þjóðfélaginu. Lánsfé er orðið aðgengilegra, byggingarkranar spretta upp um land allt og gullæði í makríl og ferðamennsku hefur gripið landann. Þrátt fyrir þetta telur Guðni að þjóðin hafi dregið einhvern lærdóm af hruninu. „Ég ætla nú að leyfa mér að vona það. Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari og ég trúi ekki að við förum í sama farið og fyrir hrun. Þótt byggingarkranarnir rísi hér úti um allt og geti verið mælikvarði á ofþenslu, þá neita ég að trúa því að einhverjum bankanum detti til dæmis í hug að fara að kynna hérna nýja leið til þess að styrkja grundvöll rekstrarins með opnun innlánsreikninga á netinu í útlöndum. Það myndi nú einhvers staðar heyrast hljóð í horni ef það gerðist.“

„Þannig að þar getum við líka lært af því sem miður fór, hvað varðar hlutverk forseta.“

Ólafur Ragnar, fráfarandi forseti, var ítrekað gagnrýndur fyrir það sem kallað hefur verið klappstýruhlutverk sitt í síðasta góðæri, þar sem hann kepptist við að tala upp afrek íslenskra útrásarvíkinga og hengdi á þá ógrynnin öll af fálkaorðum. Segir Guðni að næsti forseti geti dregið ákveðinn lærdóm af þeim mistökum. „Ég vil trúa því að við förum af ögn meiri gát fram núna. Þar hefur forseti hlutverki að gegna. Forseti á að vera bjartsýnn, og hann á að telja kjark í þjóð sína. En hann á um leið að vera hógvær og hann á ekki að búa til glansímyndir sem standast ekki. Þannig að þar getum við líka lært af því sem miður fór, hvað varðar hlutverk forseta.“

Stjórnarskránni ekki breytt á Bessastöðum

Eftir að Ólafur Ragnar hætti við að hætta sem forseti gaf hann til kynna að hann hygðist beita sér í stjórnarskrármálinu. Í kjölfarið fóru kjósendur að velta því fyrir sér hvar aðrir frambjóðendur stæðu í því máli og tókust Davíð Oddsson og Guðni til dæmis hart á í spjallþætti þar sem Davíð sakaði Guðna um að vilja kollvarpa stjórnarskránni. Guðni segir að afstaða forseta til einstakra mála eigi ekki að skipta öllu, fólkið eigi að ráða. „Það er fólkið sem breytir stjórnarskránni. Hvernig? Það kýs fulltrúa á þing sem vilja breyta stjórnarskránni, svo þarf þingið að samþykkja breytingar, svo þarf kosningar á nýjan leik, og annað þing til þess að samþykkja breytingarnar. Svona þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda.“

Guðni segir að sé vilji í samfélaginu fyrir róttækum breytingum á stjórnarskránni þá komi sá vilji í ljós í kosningum og þingmenn verði við þeim þjóðarvilja. „Ef ekki, eins og raun varð til dæmis við síðustu kosningar, þá þarf að fara aðrar leiðir og mér hugnast leið áfangasigra og málamiðlana í stjórnarskrármálum, eins og ýmsum sem sátu í stjórnlagaráði, til dæmis. Þess vegna vil ég, nái ég kjöri sem forseti, beinlínis beita mér fyrir því að það komi inn í stjórnarskrá ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, því það varðar völd forseta með beinum hætti.“

Forseti
Forseti Sagnfræðingurinn sem varð þjóðarleiðtogi

Ýmsir aðrir hlutir í stjórnarskránni segir Guðni einnig að þarfnist breytinga, þá sérstaklega kaflanum um völd og verksvið forseta, sem þurfi að færa í nútímahorf. „Ákvæði sem mönnum þótti árið 1944 úrelt, en vildu ekki breyta þá í nafni samstöðu og einingar. En vissu sem var að það yrði að breyta fyrr en seinna, svo hefur bara hikstað á því.“ Stjórnarskráin er að uppruna frá þeim tíma þegar Ísland var konungsríki. Gaf hún konungi mikil völd, svo smám saman voru þau völd tekin frá honum og færð í hendur þings og ráðherra, en eftir stendur að ákvæði í kaflanum um völd þjóðhöfðingjans, konungs áður, forseta núna, eru að Guðna mati ekki í samræmi við stjórnkerfið í raun.

„Það eru sum ákvæði í stjórnarskrá sem gefa forseta í orði kveðnu mikil völd en eru svo tekin af honum einum eða tveimur greinum seinna. Þetta er óþarfa flækja. Óþarfur arfur frá liðinni tíð og um þetta eru allir sammála, meira að segja Davíð Oddsson ef þú myndir spyrja hann. Þessu þarf að breyta. Eins og Sveinn Björnsson, fyrsti forseti, minntist líka réttilega á á sínum tíma og ég hef skrifað mikið um, um þetta á eiginlega enginn að vera ósammála.“

Guðni ítrekar svo að forseti eigi ekki að eiga lokaorð eða berjast af fullum krafti með eða á móti nýrri stjórnarskrá. Hann eigi að sjá til þess að vilji þjóðarinnar komi skýrt fram, „og þá dugar ekki eitt og sér afstaða stjórnlagaráðs eða niðurstöður í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau sjónarmið eru hluti heildarmyndarinnar og inn í þá heildarmynd bætist þingmeirihluti hverju sinni og hverju sá meirihluti vill áorka. Það er hins vegar þannig, held ég, að stjórnarskrármál verða líklega ekki efst á baugi núna þegar við göngum til alþingiskosninga væntanlega í haust. Eitthvað sem segir mér að þetta sé ekki það sem brennur helst á fólki.“

Sakaður um afstöðu

Í hinum bókstaflega kosningaslag var Guðni einnig sakaður um að vera fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Er afstaða hans til viðræðna og inngöngu mjög lík þeirri sem hann hefur gagnvart stjórnarskránni, að það sé ekki forsetans að vera með eða á móti, einfaldlega að sjá til þess að vilji þjóðarinnar komist til skila með kosningum. „Sérstaklega í ljósi reynslunnar frá 2009–2013. Það hreinlega gengur ekki að sækja um aðild að ESB eða hefja samningaviðræður um það án þess að fyrir liggi skýr meirihluti innan ríkisstjórnar, innan Alþingis og meðal þjóðarinnar. Það verði ekki lagt af stað í þá vegferð aftur án þjóðaratkvæðagreiðslu beinlínis um það hvort hefja skuli leikinn á ný, og að ríkisstjórn sem þá er við völd sé einhuga um það.“

Góð sagnfræði snýst að hans mati öðrum þræði um að læra af fortíðinni og læra af mistökunum. Það eigi þjóðin að gera þegar litið er á aðildarviðræðurnar. „Eins og staðan er núna þá er drjúgur meirihluti á móti því að hefja viðræður á ný og þá er það einfaldlega þjóðarviljinn sem allir verða að sætta sig við og gera það með glöðu geði. Ég þar með talinn.“

„Ég fór á mikinn baráttufund hjá Alþýðubandalaginu þar sem menn sungu Internationalinn í lokin og fór þá um strákinn á Arnarnesinu.“ 

Í tilraun til að sópa fylgi Guðna til sín gerðu ákveðnir frambjóðendur tilraunir til að spyrða hann við stjórnmálaflokka, ýmist til hægri eða vinstri. Sjálfur segist hann aldrei hafa starfað með stjórnmálaflokki, þrátt fyrir brennandi áhuga á stjórnmálum. Sá áhugi hafi byrjað fyrir alvöru þegar hann var í MR. „Það var hálfan vetur í menntaskóla sem ég þræddi ungliðahreyfingarnar. Fór á fundi hjá Heimdalli. Fór í þann alræmda stjórnmálaskóla Alþýðuflokksins, sem varð nú Þóru Arnórsdóttur að fótakefli 2012. Ég fór á mikinn baráttufund hjá Alþýðubandalaginu þar sem menn sungu Internationalinn í lokin og fór þá um strákinn á Arnarnesinu. En ég fann nú ekkert sem Framsókn var að gera þá í borginni.“

Áttaði hann sig þarna á því að hann hefði ekki gaman af því að vera í fremstu víglínu, en hins vegar ætti mjög vel við hann að fylgjast með og skrifa um stjórnmál og stjórnmálasögu. „Síðan hef ég ekkert tekið þátt í stjórnmálum en ég er stuðningsmaður þess sem við getum kallað íslenska samfélagsins sem við komum á á tuttugustu öld. Það var ekkert allt til fyrirmyndar þar. Frændhygli, íslensk spilling, flokksskírteini réðu og þess háttar, en okkur tókst að byggja hér upp samfélag þar sem grunnstoðirnar voru og eru í ríkiseigu og efnahagur réð því ekki hvort þér tókst að mennta þig eða ekki. Efnahagur réð því ekki hvort þú nytir heilbrigðisþjónustu eða ekki, og það eru sjónarmið sem ég held í.“ Segir hann eitthvað að finna í hugsjónum og stefnu allra þeirra flokka sem voru við völd lengst af tuttugustu öldinni, sem hann geti fellt sig við. „Samvinnuhugsjón framsóknarmanna, frelsi einstaklingsins frá sjálfstæðismönnum og áhersla vinstri flokkanna á samvinnu og jöfnuð. Hver getur verið ósammála þessu? Þetta eru sjónarmið hins skynsama venjulega Íslendings sem lætur ekki toga sig út í vitleysu og öfgar.“

Undir frægum feldi í Reykholti

Þegar mesti hitinn var á Guðna að tilkynna af eða á um það hvort hann ætlaði í forsetaframboð, var hann staddur í Reykholti í Borgarfirði að skrifa og skrásetja sögu íslenska forsetambættisins.

Segir hann að sér hafi liðið mjög vel þar, þótt atið í fjölmiðlum hafi verið töluvert. Hann kláraði sína vinnu, tilkynnti um blaðamannafund nokkrum dögum seinna, og tók hraðanum sem krafa var um af mikilli yfirvegun. „Þær stundir koma auðvitað að maður þarf að taka ákvarðanir á svipstundu, og þá gerir maður það. En hafi maður tíma til að hugsa sitt ráð og ana ekki að neinu þá lætur maður líka tímann vinna með sér, og það var ég að gera þarna. Þannig að ég hygg að þótt spennan hafi verið einhver þarna þá sjái fólk nú að það lá ekkert á.“ Með breyttu fjölmiðlaumhverfi sé hraðinn miklu meiri og krafan sé á fjölmiðlana að skila af sér nýrri frétt og nýjum upplýsingum oft á dag.

„Þess vegna varð til þessi spenna: hvenær kemur ákvörðunin? Fyrr á tíð hefði þetta alls ekki sætt eins miklum tíðindum eða vakið eins mikla eftirvæntingu. Þegar Ólafur Ragnar var í framboði 1996 var hann miklu, miklu lengur undir feldinum heldur en ég var þarna í nokkra daga. Miklu minni hraði, miklu minni asi og færri fjölmiðlar.“

Töluvert hefur hægst á vinnunni í bókinni eftir að Guðni fór í framboð, en hann segist þó stundum finna rúm til þess að líta um öxl og sinna henni. „Það eru skemmtilegar stundir. Nái ég kjöri veit ég að það verður lítið ráðrúm til fræðaskrifa, en kannski eitthvað.“ Var Guðni ásamt fólki frá SagaFilm farinn að leggja drög að sjónvarpsþáttum um sögu Íslands, sem fellur að þeirri hugmyndafræði hans að gera söguna aðgengilega almenningi. „Það gæti verið gaman að vinna að því áfram, tryggja að það fái framgang. Það væri mjög áhugavert. Ég hefði mjög gaman af því að tengjast því með einum eða öðrum hætti.“

Hlutverk og staða fræðimanna sem staka í menginu sem þeir rýna í er líka eitthvað sem Guðna er hugleikið. „Ég hefði líka mjög gaman af því að skrifa um þann vanda fræðimanna að sýna hlutlægni en vera um leið hluti af samfélagi. Vera fólk með skoðanir. Við erum öll mótuð af okkar umhverfi. Mótuð jafnvel af okkar eigin fordómum sem við þurfum að vinna bug á.“

 

Hér má lesa samantekt Stundarinnar á líklegri afstöðu og stefnumálum Guðna í embætti.

25. júní
25. júní Að kvöldi kjördags fagnaði Guðni úrslitum kosninganna meðal stuðningsmanna sinna á Grand Hótel

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Forsetakosningar 2016

Saga af tveimur forsetum: Helgi fokking Björns. Og hnykkurinn
Karl Th. Birgisson
Skoðun

Karl Th. Birgisson

Saga af tveim­ur for­set­um: Helgi fokk­ing Björns. Og hnykk­ur­inn

Guðni Th. Jó­hann­es­son hef­ur flutt um 35 ræð­ur og er­indi frá því hann varð for­seti. Hann hef­ur not­að þau í að kveða nið­ur þjóð­rembu og forð­að­ist með­al ann­ars upp­hafn­ingu þjóð­kirkj­unn­ar. Hann sker sig frá Ólafi Ragn­ari Gríms­syni, sem í kosn­inga­bar­áttu sinni 1996 hafði sem ein­kenn­islag „Sjá dag­ar koma“ eft­ir Dav­íð Stef­áns­son, þar sem alda­löng­um þraut­um Ís­lend­inga er lýst.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu