Fréttir

Rektor segir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mikil vonbrigði: „Ekki í samræmi við það sem sagt var fyrir kosningar“

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, gagnrýnir ríkisfjármálaáætlun harðlega.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára valdi sér miklum vonbrigðum og samræmist ekki þeim fyrirheitum sem gefin voru í kosningabaráttu stjórnmálaflokka síðasta haust. 

„Í stuttu máli eru þetta mikil vonbrigði og ekki í samræmi við það sem sagt var af stjórnarflokkunum fyrir kosningar,“ segir Jón Atli í samtali við Stundina.

Hann bendir á að í aðdraganda kosninganna hafi verið einhugur um að Ísland skyldi stefna að því að ná meðaltali OECD-ríkjanna á kjörtímabilinu hvað varðar fjárframlög á hvern háskólanema. 

„Áætlunin er ekki í samræmi við þetta og víðs fjarri stefnu Vísinda- og tækniráðs um að ná OECD meðaltalinu 2016 og Norðurlandameðaltalinu 2020,“ segir Jón Atli.

„Miðað við þessa áætlun og óbreyttan nemendafjölda á háskólastiginu munum við seint ná OECD meðaltalinu – sem ætti að jafnaði ekki að vera mjög metnaðarfullt markmið – og hvað þá Norðurlandameðaltalinu. Eina leiðin til að ná þessum meðaltölum miðað við áætlunina væri mjög mikil fækkun nemenda á háskólastiginu á Íslandi.“

Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynnti á föstudag, munu framlög hins opinbera til háskólastigsins hækka úr tæpum 41,6 milljörðum króna á árinu 2017 upp í ríflega 44 milljarða króna á áætlunartímabilinu. Er þá kostnaður vegna byggingarframkvæmda við Hús íslenskra fræða á árunum 2017 til 2021 meðtalinn.

„Við teljum afar misvísandi og beinlínis ruglandi að Hús íslenskra fræða sé í áætluninni sett inn með framlögum til háskólanna. Öll hækkun framlaga í málaflokki háskóla fer til byggingar Húss íslenskra fræða fyrstu árin, þ.e. ekki er gert ráð fyrir hækkun framlaga til háskólanna fyrr en eftir að húsið hefur verið reist árið 2020. Þá munu losna um 700 milljónir króna og 1.500 milljónir árið 2021. Þetta þýðir að háskólastigið þarf að bíða í 4 ár eftir innspýtingu sem þó er mjög hógvær.“

Jón Atli segir að ef áætlunin nái fram að ganga muni Háskóli Íslands og Íslendingar að öllum líkindum missa stöðu sína í alþjóðlegum samanburði háskóla. Jafnframt sé ljóst að ekki verði unnt að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu á innviðum sem létu verulega á sjá í kjölfar hrunsins.

„Enn blasir sú staðreynd við, og þessi áætlun breytir því ekki, að háskólastigið á Íslandi er verulega undirfjármagnað í öllum samanburði við lönd sem við viljum helst bera okkur saman við.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Baráttan um heilbrigðiskerfið er barátta fyrir lýðræði

Pistill

Vaxandi misskipting

Fréttir

Landlæknir leiðréttir „misskilning“ Óttars – lagatúlkun ráðuneytisins opni á einkavæðingu heilbrigðiskerfisins

Fréttir

Páll vill sýna United Silicon skilning: „Það getur kviknað í hverju sem er“

Úttekt

Nýlendur unga fólksins

Pistill

Burt með grasið, lifi mosinn!

Mest lesið í vikunni

Viðtal

Heimsækja allar kirkjur á höfuðborgarsvæðinu

Pistill

Um kosti þess að búa á Íslandi

Úttekt

Björn Ingi fékk kúlulán meðfram lundafléttu

Fréttir

Segir Viðskiptablaðið fara með dylgjur og lygar

Pistill

Ótrúlegt nokk: Norður-kóreski herinn er sá stærsti í heimi

Pistill

Ísland efnahagsbrotalaust land 2020