Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Flúðu helvítið til Íslands

Fjöl­skylda lýs­ir upp­lausn heim­kynna sinna, umbreyt­ingu þeirra í hel­víti og draumn­um um að kom­ast til Ís­lands, sem rætt­ist eft­ir eld­raun­ir. Mann­rétt­inda­lög­fræð­ing­ur­inn Hiba Al Jaraki og klæðsker­inn Maher Al Habbal lýsa hvernig líf þeirra fór nið­ur í hringiðu og hvernig þau fengu nýtt upp­haf.

„Ég ákvað að fara til Íslands af því á Íslandi eru ekki þessi vopn. Það var fyrsta ástæðan,“ segir Maher Al Habbal, sem flúði stríðsátökin í Sýrlandi, þar sem heimili hans hafði verið sprengt upp, eiginkona hans var á lista yfir fólk sem Isis vildi afhöfða og barnung dóttir þeirra sat stjörf á næturnar og starði út í myrkrið.

Leiðin yfir á meginland Evrópu var þyrnum stráð og það tók hann tvær tilraunir að ná loks á land á Ítalíu, þar sem hann fór á netið til að skoða hvar best væri að leita skjóls. Áður hafði hann séð heimildarmynd um eldgos á Íslandi og vissi að þetta væri lítil eyja í Atlantshafi sem lá ekki að landamærum annarra þjóða, sem var mikill kostur í hans huga. Þegar hann komst síðan að því að hér væri hvorki her né vopnuð lögregla, auk þess sem Ísland var ekki aðeins á lista yfir öruggustu þjóðir heims heldur einnig þær hamingjusömustu, ákvað hann að freista þess að komast þangað. Þarna vildi hann hefja nýtt líf, þarna vildi hann veita börnunum heimili. Þegar allt annað var horfið frá honum var það þetta sem skipti máli; friður, öryggi og hamingja. „Við gátum ekki hugsað okkur að setjast að einhvers staðar þar sem stríð gæti brotist út,“ útskýrir hann. „Hér ríkir stöðugleiki og friður og fólk er hamingjusamt.“

Myndirnar sem ásækja hann 

Leiðin til Íslands var bæði löng og ströng og frásögnin af flóttanum reynir á Maher. Í miðri frásögn gefur hann merki með höndunum um að hann vilji pásu. „Pása,“ segir hann, „ég þarf pásu,“ stendur upp og hverfur inn í eldhús þar sem hann kveikir skömmu síðar á blandara og útbýr veitingar á meðan hann er að jafna sig. Stelpurnar standa upp á eftir honum og hlaupa hlæjandi um íbúðina áður en þær detta aftur í teiknimyndirnar. Áður en Maher stóð upp var hann að segja söguna af því þegar báturinn sökk og fjöldi fólks sem hafði verið honum samferða drukknaði á leið sinni yfir Miðjarðarhafið.

Eiginkona hans, Hiba Al Jaraki, situr eftir í sófanum og hallar sér fram til að útskýra hversu erfitt það er fyrir hann að segja þessa sögu, því þegar hann talar um þetta birtast myndirnar aftur í huga hans, myndir sem ásækja hann og halda fyrir honum vöku að næturlagi, enda eins og versta martröð.

„Hún vissi að hún væri að deyja en vildi ekki deyja og greip um hann. Hún var kannski fimm ára.“ 

„Eitt situr alltaf í honum,“ segir hún. Þegar Maher kom um borð í bátinn sá hann strax í hversu slæmu ásigkomulagi hann var, en báturinn var engu að síður svo þétt setinn að flóttamennirnir þurftu að setjast klofvega um borð og raða sér í fang hver annars. Fyrir aftan Maher sat lítil stelpa. „Þegar hún áttaði sig á hættunni greip hún um hann og sagði: „Gerðu það, ekki skilja mig eftir í sjónum.“ Eftir að bátnum hvolfdi leitaði Maher lengi að henni en þegar hann fann hana loks aftur var hún að drukkna. Hún vissi að hún væri að deyja en vildi ekki deyja og greip um hann. Hún var kannski fimm ára. Hann getur ekki talað um þetta atvik. Hann hefur aðeins einu sinni sagt mér frá þessu og þá var hann grátandi.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár