Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

„Ég horfðist í augu við svartnættið“ 

Svart­nætt­ið hef­ur stund­um ver­ið svo yf­ir­þyrm­andi að það eina sem hef­ur hald­ið í hon­um líf­inu er vitn­eskj­an um að hann geti alltaf fyr­ir­far­ið sér. Myrkr­ið sótti að hon­um strax í æsku en nú hef­ur hann öðl­ast til­gang, bæði í gegn­um föð­ur­hlut­verk­ið og á þingi, þar sem hann er í að­stöðu til þess að berj­ast fyr­ir bætt­um úr­ræð­um í geð­heil­brigðis­kerf­inu. Hann hef­ur misst þrjá vini úr sjálfs­vígi, en sem ung­ling­ur gerði hann sjálfs­vígs­sátt­mála við besta vin sinn sem fór síð­an á und­an hon­um. Gunn­ar Hrafn Jóns­son seg­ir frá þung­lynd­inu, geð­deild og kerfi sem bregst.

Hann var ekki búinn að vera nema nokkrar vikur á þingi þegar hann greindi frá því að þunglyndið hefði sótt aftur að honum með sinni vægðarlausu grimmd og við því væri aðeins eitt að gera: að leita sér hjálpar. Hann væri því farinn í veikindaleyfi. Í kjölfarið var hann vistaður á geðdeild þar sem hann dvaldi um jólin og tók þá ákvörðun að leyfa þessum sjúkdómi aldrei aftur að ganga svona langt.

Eftir átta ára starf sem fréttamaður á RÚV tilkynnti hann í júlí að hann hefði sagt starfi sínu lausu og væri genginn til liðs við Pírata. Í október var hann síðan kjörinn á þing og við tóku aðstæður sem vöktu með honum kvíða. Kvíða sem kann að vera eðlilegur þegar þú ert að byrja í nýju starfi en vegna sinnar veikindasögu ræður Gunnar Hrafn almennt verr við kvíða en almennt gengur og gerist.

Það var svo á dimmasta degi ársins, þann 22. desember, sem hann var vistaður á geðdeild. Það var stórt og erfitt skref fyrir nýkjörinn þingmann, jafnvel þótt hann hafi rætt opinberlega um sín veikindi. „Það kom mér á óvart hvað það var stórt skref að fara í innlögn. Þetta var erfiðara en ég hefði haldið. Ég hefði ekki getað það nema vegna þess að vinir mínir stóðu þétt við bakið á mér og vinkona mín beið með mér þar til ég var kominn inn. Mér fannst þetta alveg ofboðslega erfitt. Sérstaklega fyrsta nóttin á geðdeild. Ég gat ekki sofið. Mér fannst eins og þyrfti að komast út. Á sama tíma vissi ég að þarna væri mér best borgið og að ef ég myndi ganga út myndi ekkert betra taka við. Svo ég harkaði af mér.“

Fór fram af brúninni 

Aðdragandinn að innlögninni var ekki langur, en ákveðin stígandi var í þróuninni þar til hann fór fram af brúninni í byrjun desember. Þegar kvíðinn gerði fyrst vart við sig ætlaði Gunnar Hrafn að róa taugarnar með því að taka hálfa róandi. Hann fór að gera það reglulega. Síðan fékk hann sér bjór, sem er honum hættulegt því hann er alkóhólisti og var óvirkur á þessum tíma. Þannig hélt þetta áfram, hann fór að taka verkjatöflur, svefntöflur og hvað sem er til þess að slá á mesta stressið. „Mér fannst eins og ég væri að fá taugaáfall og yrði að fá eitthvað til þess að afstýra því. En um leið og ég lagðist á þessar hækjur veiktist ég mjög illa og hætti að gæta að reglunni í mínu lífi, að taka lyfin á réttum tíma og í réttum skömmtum.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár