Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Panamaskjölin: Eigendur elstu heildverslunar Íslands stunduðu viðskipti gegnum Tortólu

Erf­ingj­ar heild­söl­unn­ar Ó. John­son og Kaaber, seldu hluta­bréf til Tor­tóla­fé­lags fyr­ir nærri 330 millj­ón­ir króna. Fjög­ur systkini og móð­ir þeirra stýrðu fé­lag­inu sem hét Eliano Mana­gement Corp sem hóf lán­tök­ur upp á mörg hundruð millj­ón­ir króna í bönk­um í Lúx­em­borg. Systkin­in, með­al ann­ars fyrr­ver­andi frétta­mað­ur­inn Helga Guð­rún John­son, neita að tala um Tor­tóla­fé­lag­ið. Skatta­sér­fræð­ing­ur seg­ir veru­legt skatta­hag­ræði kunna að hafa ver­ið af fé­lag­inu.

Panamaskjölin: Eigendur elstu heildverslunar Íslands stunduðu viðskipti gegnum Tortólu
Svara ekki spurningum Þau Helga Guðrún Johnson og Ólafur Johnson, sem er framkvæmdastjóri Ó. Johnson og Kaaber í dag, hafa ekki viljað veita upplýsingar um Eliano Management Corp. Skömmu eftir andlát föður þeirra árið 2001 seldu þau hlutabréf fjölskyldufyrirtækisins inn í Tortólafélagið af ástæðum sem ekki liggja fyrir. Helga Guðrún svarar ekki símtölum og Ólafur segir í tölvupósti að hann geti ekki veitt neinar upplýsingar um félagið. Mynd: Ásdís Ásgeirsdóttir

Eigendur elstu heildverslunar Íslands, Ó Johnson & Kaaber hf., stofnuðu félag í skattaskjólinu Tortóla árið 2001 og notuðu félagið meðal annars til að kaupa hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum af  eignarhaldsfélagi sínu á Íslandi fyrir á fjórða hundrað milljónir króna. Þá fékk Tortólafélag fjölskyldunnar lán upp á nokkur hundruð milljónir króna í Búnaðarbankanum í Lúxemborg og Landsbankanum í Lúxemborg. Um var að ræða erfingja heildverslunarinnar, börn Ólafs Ó. Johnson, sem var forstjóri fyrirtækisins um áratugaskeið, og móður þeirra, Guðrúnu Gunnlaugsdóttur Johnson. 

Félagið hét Eliano Management Corp. og fengu þau Guðrún Gunnlaugsdóttir Johnson og börn hennar, Friðþjófur Johnson, Helga Guðrún Johnson, Ólafur Ó. Johnson og Gunnlaugur Johnson öll prókúruumboð yfir félaginu í september árið 2010. Faðir þeirra, Ólafur H. Johnson, hafði látist í júní sama ár. 

Þessar upplýsingar koma fram í Panamaskjölunum svokölluðu – gögnum frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama – sem lekið var til þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung. Þýska blaðið miðlaði gögnunum svo til alþjóðlegu blaðamannasamtakanna ICIJ sem aftur hófu samstarf við fjölmarga fjölmiðla víða um heim til að vinna úr gögnunum. Íslenskur samstarfsaðili Süddeutsche Zeitung er íslenski fjölmiðilinn Reykjavík Media ehf. og vinnur Stundin greinina um Eliano Management Corp í samstarfi við þann miðil. Í gagnagrunni, sem öllum er opinn um Panamaskjölin, kemur nafn Eliano Management Corp fyrir en þar eru engar hluthafaupplýsingar eða aðrar efnislegar upplýsingar um starfsemi þessa fyrirtækis. 

Notkun á félögum í skattaskjólum er ekki ólögleg svo framarlega sem eigendur slíkra fyrirtækja greiða af þeim lögbundna skatta og upplýsa skattayfirvöld í heimalöndum eigenda þeirra um tilvist þessara félaga ef ástæða er til vegna skattgreiðslna. Engar upplýsingar eða vísbendingar eru í Panamaskjölunum um hvernig skattgreiðslum Eliano Management Corp var háttað en hið sama gildir um langflest slík félög sem er að finna í skjölunum.

Einn þekktasti kaffiframleiðandi landsins
Einn þekktasti kaffiframleiðandi landsins Fjölskyldufyrirtækið Ó Johnson og Kaaber hefur verið einna þekktast fyrir framleiðslu sína á kaffi og rak meðal annars kaffibrennslu í Reykjavík. Fyrirtækið framleiddi meðal annars Ríó-kaffi, Kaaber-kaffi, Rúbín-kaffi og Bragakaffi, Heildverslunin er ennþá blómlegt fyrirtæki og er með um 50 starfsmenn og tæplega þriggja milljarða króna tekjur.

110 ára heildverslun með nærri þriggja milljarða tekjur

Ólafur Johnson var sonur Ólafs Þ. Johnson, sem stofnaði Ó. Johnson og Kaaber árið 1906 ásamt Ludvig Kaaber. Hann stýrði félaginu sem forstjóri á árunum 1955 til 1991. Ó. Johnsson og Kaaber var fyrst og fremst þekkt á Íslandi fyrir framleiðslu á kaffi á árum áður og seldi meðal annars Rúbín-kaffi auk Bragakaffis og Kaaber-kaffis. Fyrirtækið var einnig í alls kyns innflutningi og eins útflutningi líka fyrstu áratugina eftir að fyrirtækið tók til starfa.

Fyrirtækið er enn þá starfandi sem heildsala og sinnir innflutningi á mörgum þekktum vörumerkjum og er með um 50 starfsmenn í dag.  Ekki er ofmælt þegar sagt er að Ó. Johnson og Kaaber hafi verið ein þekktasta heildverslun landsins á síðustu öld og er fyrirtækið enn þá nokkuð umsvifamikið. Heildverslunin hefur verið vel rekin á liðnum árum og hefur verið á lista Lánstrausts yfir „framúrskarandi fyrirtæki“ vegna góðs rekstrar.

Fyrirtækið var með nærri þriggja milljarða króna tekjur árið 2014 og hagnaðist þá um rúmlega 97 milljónir króna. Arðgreiðsla til eina hluthafa fyrirtækisins, Esjubergs ehf., nam 75 milljónum króna og 95 milljónum króna árið á undan. Esjuberg er eitt af þeim fyrirtækjum sem Tortólafélagið Eliano keypti hlut í af Johnson ehf. árið 2002. Ljóst er því að Johnson-fjölskyldan fær enn ágætis arð af starfsemi heildverslunarinnar.

Tekið skal fram að engar heimildir eru um það í Panamaskjölunum að Johnson-fjölskyldan hafi notast við félög í skattaskjólum fyrr en eftir að Ólafur Johnson féll frá árið 2001.

„Ég veit það ekki; ég átti ekki félagið“

„Ég hef bara ekkert um þetta að segja“

Friðþjófur Johnson var einn prókúruhafanna sem skrifaði undir lánasamninga fyrir hönd Eliano árið 2007. Þá fékk félagið 2,1 milljón dollara lán frá Landsbankanum í Lúxemborg og bættist sú upphæð við tæplega 2,2 milljóna dollara lánveitingu sem fyrirtækið var þá búið að fá. Friðþjófur neitar hins vegar að tjá sig um starfsemi félagsins  sem hann hafi ekki átt og að hann hafi einungis verið að vinna í umboði eiganda þess eða eigenda. Hann neitar að gefa upp hver þessi eigandi var.

Friðþjófur: Ég var ekki eigandi félagsins og hef ekkert með það að gera.

Blaðamaður: En þú varst með prókúru fyrir félagið?

Friðþjófur: Þetta var bara hlutur sem þurfti að gera á sínum tíma, undir ákveðnum ástæðum, og er löngu dautt og búið.

Blaðamaður: Það eru þarna samningar …

Friðþjófur: Ég hef bara ekkert um þetta að segja því ég á ekki félagið og hef ekkert með það að gera.

Blaðamaður: Hver átti félagið þá?

Friðþjófur: Ég held að þú verðir bara að finna út úr því. 

Blaðamaður: Það er yfirleitt þannig að þeir sem eru prókúruhafar félags eru eigendur þess?

Friðjófur: Ég er ekki eigandi félagsins.

Blaðamaður: En þú undirritar lánasamninga og annað slíkt fyrir hönd þess?

Friðþjófur: Ég er ekki eigandi félagsins og var bara að vinna í umboði fólks sem átti þetta félag og ég hef ekki meira um málið að segja.

Blaðamaður: En þið eruð öll með prókúrumboð þarna, systkinin?

Friðþjófur: Er eitthvað fleira sem ég get gert fyrir þig?

Blaðamaður: Viltu segja mér hvað þetta fyrirtæki gerði?

Friðþjófur: Ég veit það ekki; ég átti ekki félagið.

Blaðamaður: En þú skuldbindur það samt; þú skrifar undir viðskipti fyrir hönd félagsins.

Friðþjófur: Reyndu bara að komast að því hvað fyrirtækið gerði.

Blaðamaður: Það eru meðal annars þarna kaup félagsins á eignum Johnson ehf. á Íslandi?

Friðþjófur: Skoðaðu hver átti félagið.

Blaðamaður: Það kaupir eignir á meira en 300 milljónir.

Friðþjófur: Skoðaðu hver átti félagið.

Blaðamaður: Þú veist greinilega talsvert um félagið.

Friðþjófur: Ég veit ekkert um félagið; ég veit bara hver átti félagið. 

Blaðamaður: Og þú skrifar undir lánasamninga fyrir þess hönd.

Friðþjófur: Í umboði eigenda; það er skýring á því. Ef þú finnur út hverjir eigendurnir eru og hvaða skýringar eru á þessu. En ég hef enga heimild til að gefa upp hver á félagið.

Systir Friðþjófs, Helga Guðrún Johnson, vill heldur ekki ræða um félagið Eliano Management Corp þegar Stundin hringir í hana. Helga Guðrún sagðist vera í önnum þegar Stundin hringdi í hana og sagðist ætla að hringja til baka en hún gerði það svo ekki. Hún svaraði ekki frekari símtölum frá blaðamanni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Tekið skal fram að Helga Guðrún starfaði sjálf lengi sem blaða- og fréttamaður á Stöð 2. Í september árið 2001, í sama mánuði og hún fékk prókúruumboð yfir Tortólafélagi fjölskyldunnar, sagði DV frá því að Helga Guðrún væri hætt störfum á Stöð 2 og að hún ætlaði að setjast á skólabekk og einbeita sér að ræktun svína ásamt eiginmanni sínum. Hún hætti því að starfa sem blaðamaður um það leyti sem hún fékk yfirráð yfir umræddu Tortólafélagi.

170 milljóna króna hlutur í Eimskipum
170 milljóna króna hlutur í Eimskipum Meðal eigna sem Johnson ehf. seldi til Tortólafélagsins var tæplega 170 milljóna króna hlutur í skipafélaginu Eimskipum. Hér sést Goðafoss, eitt af flutningaskiptum félagsins.

Keypti hlutabréf fjölskyldufyrirtækisins

Helsti tilgangur Tortólafélagsins virðist hafa verið sá að kaupa hlutabréf sem voru í eigu fyrirtækisins Johnson ehf. sem stofnað var í ársbyrjun árið 2002. Inni í þessu félagi voru hlutabréf að verðmæti 329 milljónir króna í desember árið 2002.

Um var að ræða bréf í Eimskipafélagi Íslands upp á tæplega 173 milljónir, tæplega 81 milljón króna í Flugleiðum, 44 milljónir í Esjubergi hf. – fjölskyldufyrirtæki í eigu Johnson-fjölskyldunnar sem áður hefur verið minnst á – auk bréfa í Sjóvá, Hampiðjunni og Tryggingamiðstöðinni. Öll þessi bréf voru seld inn í Tortólafélagið í lok árs 2002.

Greiðslan á kaupverðinu fór fram með reiðufé samkvæmt kaupsamningi og var lögð inn á reikning Johnson ehf. í Búnaðarbankanum. Með þessu móti var búið að koma þessum hlutabréfum fjölskyldunnar á Íslandi í eigu félags í skattaskjóli.

Samningurinn um kaupin á hlutabréfunum var undirritaður þann 6. desember árið 2002. Undir samninginn skrifuðu Guðrún Gunnlaugsdóttir Johnson og öll börnin hennar fjögur – Ólafur Örn, Friðþjófur, Helga Guðrún og Gunnlaugur.

Í ársreikningi Johnson ehf. fyrir árið 2002 kemur fram rúmlega 8 milljóna króna tap og er ekkert í ársreikningum sem gefur tilefni til að ætla að félagið hafi selt hlutabréf fyrir á fjórða hundrað milljónir króna á því ári. 

Hlutur í móðurfélaginu Ó. Johnson og Kaaber
Hlutur í móðurfélaginu Ó. Johnson og Kaaber Johnson ehf. seldi meðal annars hlut í Esjubergi, móðurfélagi Ó. Johnson og Kaaber. til Tortólafélagsins Eliano Management Corp. Hér sést samningurinn um söluna á hlutabréfum fjölskyldunnar til Tortólafélagsins en hann er meðal þeirra gagna sem er að finna í Panamaskjölunum.

Guðrún lánaði félaginu 335 milljónir

Þótt Eliano Management Corp hafi síðar fengið lán frá bæði Landsbankanum í Lúxemborg og Búnaðarbankanum þá var félagið ekki búið að fá neitt lánað frá þessum fyrirtækjum á þessum tíma.

Eðlilega vakna því spurningar um hvernig kaupverðið var greitt. Þetta kemur ekki fram í Panamaskjölunum. 

Í þinglýstum gögnum frá embætti ríkisskattstjóra kemur fram að sama dag og Tortólafélagið keypti hlutabréfin af Johnson ehf. þann 6. desember árið 2002 hafi Guðrún Johnson breytt tveimur skuldabréfum sem hún átti á hendur félaginu upp á rúmlega 335 milljónir króna í hlutafé í Johnson ehf. upp á fimm milljónir króna að nafnverði.

Guðrún Johnson sjálf virðist því, með einhverjum hætti, hafa fjármagnað þau viðskipti sem Eliano stundaði með hlutabréf Johnson ehf. í desember árið 2001.

Um þetta segir í þinglýstri sérfræðiskýrslu frá Deloitte & Touche hf. sem aðgengileg er í gegnum vefsvæði Lánstrausts: „Í tengslum við hlutafjárhækkun í einkahlutafélaginu Johnson ehf. […] er ákveðin var á hluthafafundi sem haldinn var hinn 6. desember 2002, var framlag fyrir allri hlutafjáraukningunni greidd með öðru heldur en reiðufé. Lagði Guðrún G. Johnson […] fram sem endurgjald fyrir hlutafé kröfur sínar er hún á á hendur félaginu samtals að fjárhæð kr. 335.444.902 samkvæm tveimur skuldabréfum með breytirétti.“

Miðað við þessar upplýsingar er því alls ekki víst að nokkrir fjármunir hafi skipt um hendur í þessum viðskiptum þar sem viðskiptin voru líka á milli tengdra aðila. Eftir stóð hins vegar að Tortólafélag var orðið eigandi verðmætra hlutabréfa á Íslandi. 

Ekki er hins vegar minnst á Tortólafélagið í neinum opinberum gögnum á Íslandi sem blaðamaður hefur séð. Þannig voru engar vísbendingar um að félagið væri til og væri í eigu einstaklinga í Johnson-fjölskyldunni fyrr en Panamagögnin komu fram.

Eliano byrjar að fá lán  

Eftir að samningurinn um kaupin á hlutabréfunum af Johnson ehf. var undirritaður fékk Eliano Management Corp lán frá Landsbankanum í Lúxemborg upp á tæplega tvær milljónir dollara þann 19. desember 2002. Landsbankinn veitti svo frekari lán til félagsins árið 2004, 2005 og 2007 þannig að heildarlánveitingin fór upp í 4,2 milljónir evra, eða rúmlega 370 milljónir króna. 

Undir lánveitinguna í febrúar árið 2007 skrifuðu öll systkinin fjögur – Ólafur, Friðþjófur, Helga Guðrún og Gunnlaugur – fyrir hönd Eliano.  Í Panamaskjölunum er ekki að finna neinar heimildir fyrir því hvað varð um þessi lán eftir að þau voru veitt til Eliano. Ekki liggur því fyrir út frá gögnunum hvort þau voru greidd til baka eða ekki. 

Fyrir liggur hins vegar að fyrirtækið Johnson ehf. fékk fjármuni frá Eliano Management Corp fyrir viðkomandi hlutabréf. Hlutabréfin urðu hins vegar áfram í höndum félags sem var stýrt af sömu aðilum og stýrðu Johnson ehf. þar sem sömu einstaklingar og skrifuðu undir sölu eignanna fyrir hönd Johnson ehf. voru líka prókúruhafar í Eliano Management Corp. Hluthafar Johnson ehf. voru við stofnun félagsins þau Guðrún Gunnlaugsdóttir Johnson  með 80 prósenta hlut og börnin hennar skiptu með sér 20 prósenta hlut. 

Seldi svo hlutabréf í Morgunblaðinu

Félagið Johnson ehf. var hins vegar áfram virkt á íslenska hlutabréfamarkaðinum þótt búið væri að selja stóran hluta af eignum þess til umrædds Tortólafélags. Johnson ehf. átti um tíu prósenta hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, sem félagið seldi til fjárfestisins Kristins Björnssonar árið 2005 en hann var þá einn ráðandi hluthafa fjárfestingarbankans Straums. Straumur eignaðist svo hlutinn í Árvakri. Viðskiptin fóru þannig fram að félagið Johnson ehf. var selt í heilu lagi með hlutabréfunum í Árvakri og breytti félagið svo um nafn í kjölfarið og varð að MGM eignarhaldsfélagi. Í ársreikningi þess félags fyrir árið 2005 eru hlutabréfin í Árvakri sem félagið á sögð vera tæplega 626 milljóna króna virði en kaupverð þeirra er sagt hafa verið tæplega 284 milljónir króna. 

Hlutabréfin í Árvakri höfðu verið lengi í eigu Johnson-fjölskyldunnar og sat Friðþjófur Johnson meðal annars í stjórn útgáfufélagsins á grundvelli þessarar hlutabréfaeignar. Sala þeirra á bréfunum vakti talsverða athygli í fjölmiðlum á Íslandi og var fjallað um hana í dagblöðum.

Johnson-fjölskyldan átti því í umtalsverðum frekari hlutabréfaviðskiptum í gegnum Johnson ehf. eftir að félag þeirra seldi hlutabréf sín til Eliano Management Corp.

„Ég hef því ekkert við svar Friðþjófs að bæta.“

Tortólafélagið keypti í móðurfélagi Ó. Johnson & Kaaber

Ólafur Örn Johnson, einn af systkinunum sem var með prókúruumboð fyrir Eliano Management Corp og núverandi framkvæmdastjóri Ó. Johnson & Kaaber, hefur ekki svarað spurningum Stundarinnar sem honum hafa verið sendar í tölvupósti. Í tölvubréfi til Stundarinnar segir Ólafur Örn að hann hafi ekkert við svar Friðþjófs að bæta: „Ég biðst forláts að hafa ekki haft tíma til að svara þér. Mér skilst að þú hafir rætt við bróður minn Friðþjóf  ég hef ekki frekari upplýsingar til að gefa þér. Ég hef því ekkert við svar Friðþjófs að bæta.“ Ólafur svaraði svo ekki tölvupósti þar sem hann var beðinn um viðtal vegna málsins.

Systkinin virðast því ekki vilja ræða um Tortólafélagið Eliano Management Corp og þar af leiðandi er ekki hægt að fullyrða neitt um tilgang félagsins og skattskil þess. Móðir þeirra, Guðrún Gunnlaugsdóttir Johnson, féll frá í ársbyrjun árið 2013.

Eitt af fyrirtækjunum sem Tortólafélagið Eliano Managment Corp var látið kaupa hlutabréf í var félagið Esjuberg, sem er með kennitölu frá árinu 1969, sem er móðurfélag Ó. Johnson og Kaaber ehf. í dag eins og áður segir. Í kaupsamningnum segir að Tortólafélagið hafi keypt hluti í Esjubergi fyrir rúmlega 44 milljónir króna. Í ársreikningum Esjubergs fyrir árin 2003 og 2004 er hins vegar ekkert minnst á hlutabréfaeign Eliano Management Corp í félaginu og kemur í raun ekkert fram um hverjir það eru sem áttu Esjuberg á þessum tíma. Hvenær Eliano Management Corp hætti að eiga hlutabréf í Esjubergi liggur því ekki fyrir.

Það sem liggur hins vegar fyrir er að Eliano Management Corp var afskráð á Tortóla í september árið 2012, samkvæmt upplýsingum úr Panamagögnunum og finnast ekki nýrri gögn um félagið en það. Hvað fyrirtækið gerði annað en hér segir á tímabilinu frá stofnun þess eftir síðustu aldamót og fram að afskráningu þess liggur ekki fyrir þar sem prókúruhafar félagsins vilja ekki ræða við Stundina.

Möguleiki á margs konar skattahagræði

Sérfræðingur í skattamálum segir við Stundina að margs konar skattalegt hagræði kunni að hafa verið af þeim viðskiptum sem stunduð voru í gegnum félagið á Tortóla. Sérfræðingurinn, sem vill ekki láta nafns síns getið, segir hins vegar að eðlilega geti hann ekki fullyrt neitt um málið þar sem allar upplýsingar liggja ekki fyrir.

Hann bendir hins vegar á nokkra möguleika: „Það er möguleiki á margs konar skattahagræði þarna. Söluhagnaðurinn af hlutabréfunum hefði verið skattskyldur á Íslandi nema ef félagið sem seldi bréfin hefði fjárfest í öðrum hlutabréfum. Þá hefði verið hægt að fresta skattlagningunni. Önnur spurning snýr að því hversu hátt verð var greitt fyrir hlutabréfin. Ef hlutabréfin hafa verið seld á lágu verði þannig að söluhagnaðurinn af hlutabréfunum hafi verið lítill eða enginn þá myndast engin skattskylda fyrir félagið. Þetta er svokölluð fölsk milliverðlagning: Að selja hlutabréfin á lágu verði til Tortólafélagsins þannig að söluhagnaðurinn verði lítill sem enginn. Þetta snýst þá um að koma eignunum inn í Tortólafélagið og greiða af því eins lítinn skatt og mögulegt er. Ef menn hafa séð fram á að hlutabréfin hefðu hækkað í verði þá gátu þeir látið hagnaðinn myndast í Tortólafélaginu og þá hefðu þeir losað sig undan framtíðarskattlagningu. Þannig að það eru fjölmörg skattaleg mótív sem geta legið þarna á bak við,“ segir skattasérfræðingurinn. 

Eins og áður segir liggur svo ekki fyrir hvað varð á endanum um hlutabréfin sem seld voru inn í Eliano Management Corp.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Panamaskjölin

Hvernig peningaslóð stjórnenda Kaupþings og maka þeirra liggur til Tortólu
Skýring

Hvernig pen­inga­slóð stjórn­enda Kaupþings og maka þeirra ligg­ur til Tor­tólu

Notk­un eig­in­kvenna fyrr­ver­andi stjórn­enda Kaupþings­banka á fé­lög­um á af­l­ands­svæð­inu Kyp­ur er enn eitt dæm­ið um það að þess­ir að­il­ar hafi not­ast við slík fé­lög í við­skipt­um sín­um eft­ir efna­hags­hrun­ið 2008. Hreið­ar Már Sig­urðs­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings, og eig­in­konu hans tengd­ust til dæm­is fé­lög­um í Pana­maskjöl­un­um og ár­ið 2019 var sagt frá Tor­tóla­fé­lagi sem not­að var til að halda ut­an um eign­ir á Ís­landi sem tengd­ust þeim.
Panamaskjölin: Seldi húsið sitt mánuði fyrir kyrrsetningu í skattamáli
FréttirPanamaskjölin

Pana­maskjöl­in: Seldi hús­ið sitt mán­uði fyr­ir kyrr­setn­ingu í skatta­máli

Sig­urð­ur Gísli Björns­son, at­hafna­mað­ur og fyrr­ver­andi eig­andi fisk­sölu­fy­ir­tæk­is­ins Sæ­marks, seldi hús­ið fyr­ir 185 millj­ón­ir mán­uði áð­ur en eign­ir hans voru kyrr­sett­ar. Rann­sókn­in hef­ur und­ið upp á sig og eru upp­hæð­irn­ar sem tengj­ast meint­um skatta­laga­brot­um í gegn­um Panama hærri en tal­ið var.
Fengu fjölskyldumálverk í hendurnar eftir umfjöllun Stundarinnar
FréttirPanamaskjölin

Fengu fjöl­skyldu­mál­verk í hend­urn­ar eft­ir um­fjöll­un Stund­ar­inn­ar

Skosk­ar mæðg­ur sem komu til Ís­lands í byrj­un árs í leit að svör­um við spurn­ing­um sem leit­að hafa á fjöl­skyldu þeirra eru þakk­lát­ar Ís­lend­ingi sem sendi þeim mál­verk sem var í eigu ömmu þeirra og lang­ömmu á Ís­landi. Gunn­ar Eggert Guð­munds­son taldi rétt­ast að fjöl­skyld­an fengi mál­verk­ið þar sem þau fengu lít­ið sem ekk­ert úr búi Áslaug­ar.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár