Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

Bókarkafli: Snýr heim til Íslands í hrynjandi samfélag

Ei­rík­ur Berg­mann Ein­ars­son send­ir frá sér skáld­sög­una Hryðju­verka­mað­ur snýr heim. Stund­in birt­ir kafla úr bók­inni.

Bókarkafli: Snýr heim til Íslands í hrynjandi samfélag
Eiríkur Bergmann Einarsson Eiríkur, sem er prófessor í stjórnmálafræði og sérfræðingur í Evrópumálum, gaf út fyrstu skáldsögu sína, Glapræði, árið 2005.

Stundin birtir bókarkafla úr nýrri skáldsögu sem Eiríkur Bergmann Einarsson hefur gefið út, Hryðjuverkamaður snýr heim, sem fjallar um miðaldra mann sem snýr aftur til Íslands árið 2008 löngu eftir að hafa þurft að flýja land vegna illskiljanlegs glæps. 

Hryðjuverkamaður snýr heim
Hryðjuverkamaður snýr heim Aðalpersónan snýr aftur inn í stökkbreytt samfélag á Íslandi sem er að hruni komið.

Eiríkur útskýrir hvar komið er við sögu í birtum kafla: „Sagan hefst á heimkomu Vals í ársbyrjun 2008. Í tvo áratugi hafði hann verið í einskonar útlegð erlendis vegna aðildar að meintu hryðjuverki meðan á leiðtogafundinum í Höfða stóð haustið 1986. Ástæða heimkomunar eftir tuttugu ár í útlegð er að dóttir sem hann vissi ekki af mun flækt í viðjar illskeyttrar glæpaklíku. Hér situr hann fyrir henni í von um að ná til hennar.“

Hryðjuverkamaður snýr heim: Fimmti kafli

Einn til. Heima í Berlín var hann vanur að drekka Radeberger en honum þótti þetta íslenska öl einnig prýðilegt. Valur sat við barborðið á ballskákstofunni í Skuggahverfinu í þeirri von að hafa uppi á Kolbrá. Gerður sagðist halda að hún héldi stundum til hérna þegar hann lét hana vita í síma af hvarfinu af sjúkrahúsinu. Í hvert sinn sem einhver mjóslegin, skolhærð táningsstúlka kom inn hjólaði hjartað af stað. En hingað til hafði hann gripið í tómt. Valur vissi svo sem ekki hvað annað hann gat til bragðs tekið, sat því við barinn og skoðaði myndirnar tvær sem hann nú átti af Kolbrá. Svipurinn var áberandi hörkulegri á nýrri myndinni, gáskinn einhvern veginn horfinn úr áður glóandi andlitinu. Hann þorði ekki að sýna þær nokkrum manni eða spyrjast fyrir um hana af ótta við að henni bærist eftirgrennslanin til eyrna.

Hefðu Gerður og Arngrímur rétt fyrir sér um vandræðin væri líklegt að hún léti sig hverfa fengi hún veður af því að miðaldra maður í hermannajakka með úfið hár væri að leita að henni. Valur reyndi því að láta lítið fyrir sér fara og hélt sig við blöðin sem stóðu að því er virtist ósnert í bunka við enda barborðsins. Á síðum þeirra varð vart þverfótað fyrir fyrrverandi félögum hans úr Róttæknifélaginu.

„Vill skima fyrir berklum í innflytjendum,“ var haft eftir Sveinbirni Eyjólfssyni sem virtist hafa skipt um ham og var nú orðinn leiðtogi nýja Frelsisflokksins. Á myndinni sem fylgdi fréttinni mátti sjá að Svenni gamli sossi hafði snarfitnað eftir að hann gekk hægriöflunum á hönd.

Úr sæti sínu fylgdist Valur laumulega með dyrunum, skotraði augunum út um tóftina eins og skilvirkur útsendari öryggissveita Þýska alþýðulýðveldisins. Þungbúnar rauðbrúnar viðarinnréttingarnar höfðu slitnað í tímans rás og hraunaðir dökkgrænir veggirnir dregið í sig svo mikinn reyk að gráleit slikja virtist liggja yfir aldinni málningunni. En brúnt gólfteppið hafði klárlega reynst ansi slitsterkt þó svo að dauf skíman úr grænu lömpunum sem drúptu letilega niður úr loftinu opinberuðu að vísu ummerki áratuganna á helstu álagsblettum.

Í blöðunum mátti líka lesa að Rútur Björns og félagar hans í Íslenska fjárfestingafélaginu hefðu keypt banka í Leipzig. Valur brosti að staðarvalinu. Hann minntist þess að í gamla daga hafði Rútur nánast afbrigðilegan áhuga á Leipzig, sér í lagi Auerbachs Keller, knæpunni sem hann taldi einhverja merkustu stofnun á yfirborði jarðar – þótt hann hefði að vísu aldrei komið þangað.     Auerbachs Keller var í hans huga sjálf andagift andófsins. Þar hafði uppreisnin gegn Þýska alþýðulýðveldinu hafist samfara vorinu í Prag á sjöunda áratugnum og svo einnig verið barin niður. Og þar hófst hún svo aftur á nýjan leik undir lok níunda áratugarins. Valur sá í sjónvarpinu, sem blikkaði á milli vínrekkanna, að Rútur var mættur til að fjalla um kaupin. Enn mátti sjá sama brennandi áhugann í kvikum augunum en ákafinn var augsjáanlega mun betur haminn en áður. Allavega svona á sléttu yfirborðinu.

Rútur var klæddur í fannhvíta skyrtu, dökkblá teinótt jakkaföt og skartaði einkar vel hnýttu mógrænu hálsbindi með gulum skáhallandi röndum. Rauði ljónsmakkinn hafði vikið fyrir snöggri keisaraklippingu. Enn mátti þó greina roðann í rótinni. Valur sá hvernig kunnuglegur kjarnorkusprengjusveppurinn blés út í björtum augunum þegar hann útskýrði mikilvægi kaupanna fyrir uppbyggingu félagsins í Mið-Evrópu, sem og útvíkkuð áhrifin fyrir starfsemina á Norðurlöndunum og á Bretlandseyjum. Enn var það greinilega heildarmyndin sem hann einblíndi á. Eins og í skákinni var hver leikur Rúts liður í heildarsköpunarverkinu, hugsaði Valur með sér.

Klæðaburðurinn líkist Arngríms en fasið og snöggu handahreyfingarnar voru upprunalegar gamla góða Rútís rauða úr Völvufellinu sem greinilega var kominn með nýtt dót í hendurnar. Í þetta sinn var það ekki reiðhjól sem átti að grufla í, heldur þýskur banki. Val þótti það ágætlega við hæfi og skálaði til vinar síns á skjánum.

Valur hafði lítið fylgst með afdrifum fyrrverandi félaga sinna, þótti of sárt að rifja upp horfna tíð. Gat ekki hrist af sér þá tilfinningu að þeir hefðu skilið sig eftir á köldum klaka. En áður en hann sneri aftur til Íslands lét hann sig þó hafa það og sló nafnið inn í leitarvélina í fartölvunni hennar Aldonu: Rutur Bjorn Marinosson.

Fyrst var ekki margt að finna, aðeins gamlar fréttir á einhverjum gagnagrunni frá því Rútur varð skákmeistari á Reykjavíkurmóti tólf ára og yngri. En svo kom í ljós að nafnið hafði eitthvað skolast til. Á vef Íslenska fjárfestingafélagsins, sem hét raunar IS Capital á heimasíðu þess, kom fram að Rútur Björns væri forstjóri fyrirtækisins. Hundruð vísana beindu á vefsíður sem fjölluðu einkum um viðskipti. Fram kom að Rútur hefði lært viðskiptafræði við Háskóla Íslands árin 1987 til 1991 og svo lokið MBA-prófi frá London Business School árið 1995. Í nokkrum eldri greinunum var hann spurður út í veru sína í Róttæknifélaginu en hana afgreiddi hann sem eins konar bernskubrek. Á iscapital.com kom fram símanúmer fyrirtækisins og að það væri til húsa í Borgartúni.

Þetta var í fyrsta sinn sem Valur vætti kverkarnar með löglegu öli á Íslandi. Þegar hann hvarf af landi brott var mjöður sá enn harðbannaður, svo nokkuð reyndi á útsjónarsemi ungra manna. Í þá daga vildi íslenska ríkið heldur að fólk renndi niður rússnesku vodka í amerísku kóla. Eða heimatilbúnum landa ef ekki vildi betur. Allavega ekki áfengu öli. Rútur starfaði um hríð við afleysingar við uppskipun í Sundahöfn en þar var ein helsta öluppspretta landsins. Komst þar í samband við filippseyska áhöfn sem sigldi reglulega til landsins frá Rotterdam.     Á réttum dögum fékk Valur lánaðan bíl móður sinnar og heimsótti vin sinn á kæjann. Eins og þeir ætluðu bara að snæða saman hádegisverð og fara í rólegheitunum yfir helstu álitamál samtímans. Eftir matinn þóttust þeir fara út að reykja og laumuðu sér um borð. Antwan var eini áhafnarmeðlimurinn sem kunni hrafl í ensku. Skaut heitinu Heineken út úr sér eins og það væri sérlega hvasst eggvopn.

Viðskiptin undu fljótt upp á sig og smám saman fóru þeir að kaupa inn fyrir félaga sína í Fellunum. Hugmyndin var að rukka eilítið yfirverð og eiga kannski eins og kippu eða svo af öli afgangs fyrir sjálfa sig. Í einu allsherjarverkfallinu hljóp verulega á snærið – í þá daga voru endalaus verkföll á Íslandi. Ártíðirnar skiptust í vetur, sumar, verkfall, haust.

Þetta gerðist eiginlega alveg óvart. Landið var svo gott sem uppþurrkað. Áfengisverslunin var lokuð og allt búið á börunum, en Rútur sat hins vegar á nánast óþrjótandi brennivínsuppsprettu við Sundahöfnina. Og kunni að nýta sér það. Skildi strax hvernig hægt væri að leggja áfengisveitur á skilvirkan hátt um borgina neðanverða. Nú var það ekki lengur örlítið öl. Ekki aðeins lítill ginpeli. Heldur heilu kassarnir af hvoru tveggja. Líka vodka, rommi og Martini Bianco. Og litli frúarbíllinn sem móðir Vals átti dugði ekki lengur. Nú varð að útvega stórvirkari flutningatæki.

Rútur skipti því á tíu ára gamalli japanskri tvígengisskellinöðru og úr sér gengnum rússajeppa sem var á litinn eins og regnstakkur sovésks sjóliðsforingja í svarthvítri bíómynd. Þegar hann hafði endurskrúfað samanryðgaða Síberíuhraðlestina dugði sá dásemdarskrjóður mun betur við að flytja varninginn og koma á auknu hagræði í dreifikerfinu, eins og það myndi væntanlega heita nú til dags. Og ekki bara í Fellunum, heldur einnig í gjörvöllu Breiðholtinu, áfram niður í Fossvog, inn í Hlíðar, út í Voga og alla leið vestur í bæ.

Þegar verklúnir leiðtogar lýðsins gáfust upp á að krefjast bættra kjara og vindbarðar hendur alþýðunnar hófu sín sligastörf á nýjan leik minnkaði eftirspurnin að vísu nokkuð en Rútur hélt þó dreifingarleiðinni opinni um hríð og hagnaðist ágætlega. Rússajeppinn reyndist líka ansi hentug partíkerra. Röðuðu eldhúskollum aftur í og rúntuðu um bæinn. Að vísu var garmurinn góði sífellt að bila, líkt og hugmyndakerfið sem vélina samdi. Þegar upp var staðið varði Rútur líkast til meiri tíma undir vélarhlífinni en undir stýri. 

Hvað svo sem ytra útliti leið hafði athafnasemi Rúts rauða greinilega lítið breyst, kímdi Valur með sjálfum sér á meðan hann rifjaði upp gömul viðskiptaævintýri félaga síns. Hann las í blaði að úrvalsvísitalan væri farin að hækka á nýjan leik eftir lækkun mánuðina á undan. Í öðru blaði kom fram að nú styttist óðum í stórafmæli Rúts Björns með tilheyrandi glæsiveislu sem eitthvert viðburðafyrirtæki átti að sjá um. Sagt var að viðskiptamógúllinn í IS Capital og fönguleg sjónvarpskona, Hildur Nielsen, hygðu svo jafnvel á brúðkaup með haustinu.

Valur var að skoða myndina af parinu sem fylgdi fréttinni þegar hann tók eftir því út um hornhimnuna að horuð vera í svörtum leðurbuxum og grárri hettupeysu undir grænni mittisúlpu læddist inn. Hún steig hröðum en hljóðum skrefum inn ganginn, skimaði snöggt í kringum sig undan hettunni og stakk sér svo yfir til þriggja pilta sem léku snóker í hálfaflokuðu bakherbergi. Á borðunum í fremra herberginu var leikinn pool og hefðbundinn billjard.

Valur lagði frá sér ölglasið og blöðin og stóð hikandi upp af barstólnum. Fæturnir gáfu sig undan náladofanum svo hann féll við. Hann gerði sitt ýtrasta til að dempa hljóðið þegar barstóllinn féll, rétt náði að grípa hann áður en hann skall á gólfinu með tilheyrandi óheppilegum látum. Hann kraflaði sig á fætur og skjögraði af stað. Stjáklaði óákveðinn um um stund áður en hann fikraði sig nær dyraopinu inn að bakherberginu. Heyrði raddir ræða saman í hálfum hljóðum en greindi illa orðaskil. Hann fikraði sig örlítið nær til að freista þess að vita hvað ungmennunum færi á milli.

„Voru þau með einhverja stæla?“ heyrði hann óvanalega bjarta drengjarödd segja, eins og hann væri ekki enn kominn í mútur.

„Nei, gáfust nú fljótt upp,“ svaraði rám stúlkurödd lágt.

Röddin var svolítið óstyrk, fannst Val, þótt hann greindi illa hvað þeim fór á milli þaðan sem hann lá á hleri. Í henni var einhver ógreinilegur kunnugleiki.

„Ertu þá með peningana?“ var spurt.

„Nei, ég skilaði þeim til Tunglsins áður en ég kom hingað,“ var svarað.

„Ok, gott. Best að hringja í hann og athuga með framhaldið. Þetta fer nú bráðum að verða komið hjá þér,“ sagði drengurinn nánast hughreystandi. „Ef þú klárar þetta mál með honum Sveppa á Skólavörðustígnum jafn vel þá stöndum við á sléttu. Er það ekki að verða tilbúið, þetta vogunarsjóðsdæmi þarna, aur eitthvað eða hvað það nú heitir?“

Valur greindi ekki hverju hún svaraði. Næst heyrðist dempað fótatak innan úr herberginu og svo smellur í kúlum. Valur áræddi að ganga í sjónlínu fyrir dyraopið og sá að hún hafði tekið niður hettuna. Skolleitt, rytjulegt hárið nam við battann um leið og hún mundaði kjuðann. Undir þykkum farða mátti greina bólgið en laglegt andlit. Í sömu andrá og rauða kúlan lak niður í vinstra hornið nær leit hún upp. Örskamma stund horfðust feðgin í augu. Kolsvartur maskari náði ekki að hylja gerðarlegt gulbrúnt glóðarauga og fjólubláar blóðrispur á bólgnum kinnum mátti greina í gegnum áreynsluþrungna sársaukagrettuna á annars reykjargráu og kinnfiskasognu andlitinu. Þótt tekin væri var þetta af myndunum að dæma augljóslega Kolbrá.

Þau horfðust í augu eitt augnablik. Valur taldi sig hafa tíma til að sjá í augum hennar algjöra forundran. Svo leitaði hún skjóls hjá félaga sínum. Valur hörfaði aftur að barborðinu og velti fyrir sér næsta leik í stöðunni. Klöngraðist upp á barstólinn, vildi ekki virðast of ákafur við fyrstu kynni. Þorði ekki að hætta á að hrekja hana frá sér.

Valur var enn að íhuga stöðuna þegar hún, komin með hettuna yfir höfuðið, strigsaði fram úr bakherberginu og hentist út um dyrnar án þess svo mikið sem líta í áttina að Val. Eftir örstutt óvissuhik, þegar hann hafði áttað sig á stöðu mála, tók Valur stökkið út á eftir henni. En dóttirin var horfin sjónum þegar faðirinn loks skakklappaðist út á stéttina.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

„Ég hef að góðu að hverfa aftur“
7
Allt af létta

„Ég hef að góðu að hverfa aft­ur“

Guð­mund­ur Karl Brynj­ars­son, sókn­ar­prest­ur í Linda­kirkju, laut í lægra haldi í bisk­ups­kjöri sem fram fór síðaslið­inn þriðju­dag. Í sam­tali við Heim­ild­ina seg­ist Guð­mund­ur ganga sátt­ur frá borði. Bisk­ups­kjör­ið hafi ver­ið ánægju­leg og lær­dóms­rík reynsla sem hann sé þakk­lát­ur fyr­ir. Hann seg­ist nú snúa sér aft­ur að sókn­ar­starf­inu í Linda­kirkju. Þar bíði hans mörg verk­efni.
Samsæriskenningasmiðir byrjaðir að smíða
10
FréttirForsetakosningar 2024

Sam­særis­kenn­inga­smið­ir byrj­að­ir að smíða

Sam­særis­kenn­ing­ar um fram­bjóð­end­ur til for­seta Ís­lands hafa lát­ið á sér kræla, sér­stak­lega hvað varð­ar tengsl við Al­þjóða­efna­hags­ráð­ið og meint­ar fyr­ir­ætlan­ir þess um heims­yf­ir­ráð. Stjórn­mála­sál­fræð­ing­ur seg­ir kenn­ing­arn­ar ekki eiga við rök að styðj­ast þótt vissu­lega sitji valda­mik­ið fólk í ráð­inu.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Skólastjórinn hættir eftir áralanga óánægju foreldra
1
Fréttir

Skóla­stjór­inn hætt­ir eft­ir ára­langa óánægju for­eldra

Móð­ir á Kirkju­bæj­arklaustri ætl­ar að flytja með börn­in sín úr bæn­um þar sem hún tel­ur ástand­ið í Kirkju­bæj­ar­skóla óvið­un­andi. Son­ur henn­ar hef­ur lít­ið mætt í skól­ann í á ann­að ár eft­ir at­vik í skól­an­um sem for­eldr­arn­ir kærðu til lög­reglu. Mál­ið var lát­ið nið­ur falla. Skóla­stjór­inn er nú á för­um en sveit­ar­stjór­inn seg­ir það „eng­um ein­um að kenna þeg­ar tveir deila“.
Katrín telur sig ekki þurfa að svara spurningum um laxeldisfrumvarp
4
FréttirLaxeldi

Katrín tel­ur sig ekki þurfa að svara spurn­ing­um um lax­eld­is­frum­varp

Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­setafram­bjóð­andi og fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra þar til fyr­ir tæp­um mán­uði síð­an, tel­ur sig ekki þurfa að svara spurn­ing­um um mál sem hún kom að á Al­þingi sem enn eru í vinnslu þar. Í fyrsta skipti er for­setafram­bjóð­andi í þeirri stöðu að þurfa mögu­lega að sam­þykkja eða synja lög­um sem við­kom­andi kom að á þingi sem ráð­herra.
Steinunn Ólína segist ekki bjóða sig fram gegn Katrínu vegna persónulegrar óvildar
6
Fréttir

Stein­unn Ólína seg­ist ekki bjóða sig fram gegn Katrínu vegna per­sónu­legr­ar óvild­ar

Stein­unn Ólína Þor­steins­dótt­ir sagð­ist í Pressu fara fram fyr­ir hönd þeirra sem upp­lifa valda­leysi gagn­vart stjórn­völd­um. Taldi hún for­seta­kosn­ing­arn­ar vera af­ar póli­tísk­ar að þessu sinni. Þrátt fyr­ir gagn­rýni sína á rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur, ít­rek­aði Stein­unn að fram­boð henn­ar væri ekki vegna per­sónu­legra óvild­ar henn­ar í garð Katrínu.

Mest lesið í mánuðinum

Skólastjórinn hættir eftir áralanga óánægju foreldra
1
Fréttir

Skóla­stjór­inn hætt­ir eft­ir ára­langa óánægju for­eldra

Móð­ir á Kirkju­bæj­arklaustri ætl­ar að flytja með börn­in sín úr bæn­um þar sem hún tel­ur ástand­ið í Kirkju­bæj­ar­skóla óvið­un­andi. Son­ur henn­ar hef­ur lít­ið mætt í skól­ann í á ann­að ár eft­ir at­vik í skól­an­um sem for­eldr­arn­ir kærðu til lög­reglu. Mál­ið var lát­ið nið­ur falla. Skóla­stjór­inn er nú á för­um en sveit­ar­stjór­inn seg­ir það „eng­um ein­um að kenna þeg­ar tveir deila“.
Rúlletta Róberts og vitnisburðir starfsfólks: „Þetta er bara rosalega mikið álag“
2
ÚttektRóbert Wessman, Alvogen og Alvotech

Rúll­etta Ró­berts og vitn­is­burð­ir starfs­fólks: „Þetta er bara rosa­lega mik­ið álag“

Starfs­menn Al­votech lýsa vinnu­álag­inu sem ómann­eskju­legu og hafa leit­að til stétt­ar­fé­laga út af ógreiddri yf­ir­vinnu og fleiri mál­um. Vinnu­að­stæð­urn­ar hafa ver­ið svona út af því að Al­votech hef­ur unn­ið að því að fá mark­aðs­leyfi fyr­ir sam­heita­lyf Humira í Banda­ríkj­un­um. Fyr­ir­tæk­ið hef­ur veðj­að öllu á þetta lyf en sala á því hef­ur dreg­ist sam­an og sam­heita­lyfj­um þess hef­ur alls ekki geng­ið eins vel í Banda­ríkj­un­um og reikn­að var með.
Ákveðið að saksækja þrjá í Lindsor-málinu rúmum 15 árum síðar
7
Skýring

Ákveð­ið að sak­sækja þrjá í Lindsor-mál­inu rúm­um 15 ár­um síð­ar

Sama dag og Geir H. Haar­de flutti ræðu til þjóð­ar­inn­ar þar sem hann bað guð um að blessa Ís­land veitti Kaupþing af­l­ands­fé­lagi lán sem not­að var til að kaupa verð­lít­il skulda­bréf af starfs­mönn­um og vild­ar­við­skipta­vini bank­ans. Nú, 15 og hálfu ári eft­ir að lán­ið var veitt, stend­ur til að sak­sækja þrjá ein­stak­linga í Lúx­em­borg vegna þess.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár