Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Selkópur og ljón og menn

Dýravernd hefur verið mér svolítið hugleikin undanfarna daga.

Það kom ljót saga í fréttirnar nú á dögunum um bandarískan efnamann sem tókst með brögðum, miklum tilkostnaði og fyrirhöfn að bana afrísku ljóni. Ljónið var vinsælt hjá ferðamönnum og var kallað Cecil. Efnamaðurinn, sem mun vera tannlæknir, fékk heimamenn til að lokka ljónið úr griðlandi sínu og skaut það svo á færi með boga sínum, hljóðlausu verkfæri. Örin banaði ljóninu ekki og við tók 40 klukkustunda eltingarleikur vel útbúins efnamannsins og aðstoðarmanna hans við sært ljónið, sem ef til vill hefur verið með örina fasta í sér allan tímann.

Maður var enn að lesa fréttir af þessum atburðum nokkrum dögum síðar þegar frásagnir komu af því að nú væri búið að drepa annað ljón úr þessum sama ljónahópi. Bróður Cecils, ljón sem var kallað Jericho. Talið hafði verið að Jericho myndi taka við foringjatigninni af bróður sínum. (Síðar kom reyndar í ljós að ljónið Jericho hafði ekki verið drepið.) 

Það var eitthvað ónotalegt við þessa frétt. Það er eitthvað ónotalegt við það að auðugt fólk eyði stórfé og mikilli fyrirhöfn í það uppátæki að drepa dýr sem aldrei hefur angrað það, það hefur aldrei áður séð, og á heima hinum megin á jörðinni.

Svo kemur náttúruverndin inn í.

Það munu vera til um 3000 ljón í Afríku, sýndist mér einhvers staðar, en ljón eru það sem kallað er "vulnerable species" á ensku, eða "viðkvæm tegund" á íslensku. Það merkir að ljón teljast líkleg til að verða útdauða ef aðstæður breytast ekki þeim í hag. Ljónin geta eiginlega hvergi lifað nema innan afmarkaðra friðlanda og í þjóðgörðum. Þau lifa nú sunnan við Sahara eyðimörkina í friðlöndum hér og þar,  og líka einhvers staðar í Asíu. Til forna áttu ljón líka heima í Evrópu, í Balkanlöndum, á Ítalíuskaganum, í Suður Frakklandi og á Spáni, en veiðimenn gengu af stofninum dauðum um hundrað árum fyrir Krists burð.

                           *                             *                              *

Ég ólst að nokkru upp í sveit, meira að segja tveimur sveitum.

Í annarri sveitinni var örninn ógnvaldur þar sem hann sveif hátt á lofti. Hægfara dökkur depill langt uppi í himni á sveimi undir sólinni. Það var fyrir vestan. Og örninn var ógnvekjandi, alla vega í huga barnsins sem stóð á jörðu niðri og sagði "vá!" Hann var líka ógnvaldur ef marka mátti fullorðna fólkið. Það sagði að hann gæti rænt lömbum og líka litlum börnum. Örninn var auðvitað friðaður.

Seinna átti ég heima fyrir austan og þar var refurinn ógn við bændur. Ég þekkti þar indæla kalla sem voru refaskyttur og kunnu margar skemmtilegar sögur af klækjum refsins og glímunni við hann. Þeir báru mikla virðingu fyrir refnum og vitsmunum hans. Refaskytturnar höfðu smávegis aukatekjur af refaveiðunum og maður vissi að þær komu í góðar þarfir.

                          *                              *                              *

Nú um daginn kom svo upp það furðulega atvik hér í Reykjavík að selkópur strauk úr haldi. Hann strauk raunar úr Húsdýragarðinum. Þar hafði hann lifað sumarlangt og horft á lítil börn og foreldra þeirra gegnum glervegg og svamlað um í litlu selatjörninni. Þessi selkópur virðist hafa verið furðulega öflugur. Hann skreið í gegnum þykkan grjótgarð líkt og refirnir sem ég kynntist í æsku, en alls ólíkt því sem maður ímyndar sér um seli. Svo fór hann í langt ferðalag og stefndi til hafs. Hann var að flýja. Það er eins og hann hafi vitað að starfsfólk húsdýragarðsins væri búið að ákveða að koma honum fyrir kattarnef. Þetta reyndist sannarlega ekki  vera nein ímyndun hjá honum. Þegar hann kom við á  Tjaldstæðinu í Laugardal var hann svo óheppinn að ferðamenn fönguðu hann og kölluðu lögregluna til. Og ekki tók betra við hjá lögreglunni. Því lögreglan fór ekki með hann niður á strönd heldur beinustu leið í Húsdýragarðinn aftur. Og þar tók á móti honum starfsfólk Húsdýragarðsins sem hann auðvitað þekkti. Ekki verður betur séð en að starfsfólkið hafi þá þegar verið farið að brýna búrhnífana. 

Það var strax stofnaður hópur á facebook sem hét "Þyrmið lífi sprettharða selkópsins!" Ég setti læk á það. Að sjálfsögðu á ekki að trufla hugdjarfan selkóp á leið til sjávar þar sem hann átti alltaf að eiga heima. Að drepa selkópinn á miðri leið, ef svo má segja, er sérkennileg hugmynd um dýravernd. Vissulega mátti búast við að selkópurinn kynni að eiga erfiða daga í vændum þegar hann væri loksins sloppinn út í sjóinn. En það var hvorki vandamál ferðamannanna í Laugardal, lögreglunnar í Reykjavík, né starfsmanna húsdýragarðsins, þessara með beittu búrhnífana.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu