Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ritskoðun listaverka

Ritskoðun listaverka

Um daginn las ég orðaskipti erlendra rithöfunda um hvort rétt sé að ritskoða bókmenntir og listir og hreinsa burt niðrandi orð sem til dæmis bera með sér kynþáttafordóma. Orðaskiptin áttu sér stað á vefmiðli Guardian dagblaðsins í desember síðastliðnum, undir fyrirsögn sem spurði hvort eðlilegt væri að ritskoða listaverk og bækur með hliðsjón af tíðarandanum. Spurningin hljóðaði svo: “Should we censor art and books to fit our times?”(1) 

Mér fannst þetta fróðleg orðaskipti og deildi þeim í rælni á facebook og lét örfá orð flakka með. Kunningjar mínir skrifuðu fáeinar athugasemdir við færsluna. En ég tók eftir því að þeir skildu mig eins og ég væri hlynntur slíkri ritskoðun, eða með öðrum orðum hlynntur því að safnafólk eða annað umsjónarfólk hvers kyns listaverka hefði leyfi til að breyta listaverkunum sem það á að passa. Ég er hins vegar alls ekki hlynntur slíku.

Þessi orðaskipti sem vöktu athygli mína á dagblaðinu Guardian snerust um einskonar málhreinsunarátak á Rijksmuseum, helsta listasafni Hollendinga.

Þau snerust líka um breytingar á bókmenntaverkum, til dæmis Stikilsberja-Finni Marks Twains, en nýlega var sú bók gefin út ritskoðuð í Bandaríkjunum. Það þótti tíðindum sæta að í hinni nýju útgáfu hafði orðið „nigger“ verið þurrkað út í bókinni og önnur orð sett í staðinn, vegna þeirra kynþáttafordóma sem orðið „nigger“ þykir bera með sér. Stikilsberja-Finnur er sem kunnugt er merkileg bók sem fjallar ekki hvað síst um kynþáttafordóma í Bandaríkjunum á 19du öld. Orðið „nigger“ kemur mjög oft fyrir í þessari frægu bók og nú er sem sagt svo komið að Ameríkumenn eru farnir að ritskoða hana út af því.

Í þessum litla pistli ætla ég aðeins að ræða svolítið um þetta málhreinsunarátak í Rijksmuseum. Ég ætla að stilla mig um að ræða um það þegar orðalagi eldri bókmennta er breytt til að fella bókmenntirnar að smekk nútímamanna, til dæmis af tillitssemi við minnihlutahópa. Kannski á ég eftir að ræða það mál seinna.

----

Rijksmuseum er helsta listasafn Hollendinga og varðveitir og sýnir marga dýrmætustu og fegurstu listgripi veraldarinnar á veggjum sínum. Fyrir nokkru áttaði safnafólkið sem starfar á Rijksmuseum sig á því að sum listaverkin á veggjunum og í geymslunum hétu niðrandi nöfnum. Þessi niðrandi nöfn endurspegluðu jafnvel kynþáttafordóma frá þeim tímum þegar Holland var nýlenduveldi. Í sumum tilvikum voru skýringartextar sem fylgja listaverkum, til dæmis á bréfspjöldum undir málverkunum, gallaðir á sama hátt.

Því var ákveðið að efna til málhreinsunar á listasafninu og finna betri nöfn í stað þessara gölluðu nafna og umorða skýringartextana. Þetta málhreinsunarátak er kallað „adjustment of colonial terminology“ upp á ensku. Það mætti kalla það „lagfæring á hugtakanotkun frá nýlendutímanum“ eða eitthvað þess háttar á íslensku. Átakið leiddi til þess að safnafólkið hefur nú til dæmis skírt upp á nýtt málverk eftir hollenska málarann Simon Willem Maris (1873 - 1935).

Hægt er að skoða þetta laglega málverk af hinni fallegu ungu konu með því að fara í Rijksmuseum og leita uppi sýningarherbergi nr. 1.18. Þar á það að vera til sýnis uppi á vegg.(2) Listasafnið sýnir raunar ekki nema lítið brot af verkum sínum hverju sinni, sagt er að það eigi ríflega milljón verk í geymslum sínum og í sýningarsölunum. En í sýningarsölunum munu vera sýnd um átta þúsund verk hverju sinni.(3) 

Þetta málverk var sennilega málað um 1900 en saga þess er um margt á huldu. Sagt er að til séu fleiri málverk eftir þennan sama málara af þessari ungu konu, en samt veit enginn lengur hvað hún hét. Það stendur því ekkert eftir til vitnis um hver þessi kona var nema málverkin sem Simon Maris málaði af henni.

(Ljósmyndin sem fylgir greininni sýnir hluta af málverkinu. Myndin er fengin af wikimedia commons, sjá: https://commons.wikimedia.org/wiki/Simon_Maris#/media/File:Simon_Maris_001.jpg .)

Á hinum frábæra vef listasafnsins, www.rijksmuseum.nl, má sjá ljósmynd af þessu málverki í mjög góðri upplausn. Þar er líka sagt frá því að málverkið hafi til þessa gengið undir að minnsta kosti þremur nöfnum. Verkið hafi verið kallað „De negerin“, „Het negerinntje“ og líka „Portret van en mulattin“ á þeim tíma sem safnið hefur átt verkið, en safnið eignaðist það árið 1922. Þessi nöfn séu nú talin niðrandi. Því hafi verið tekin ákvörðun um að meðan ekki sé vitað hvað konan hét skuli málverkið bera hlutlaust nafn. Því hefur safnafólkið nú gefið málverkinu nafnið „Jonge vrouw met waaier“ sem merkir „Ung kona með blævæng“ á íslensku.

Sagt er að starfsmenn listasafnsins hafi breytt nöfnum eða lýsingum á um 200 listaverkum til þessa. Einn starfsmaður listasafnsins útskýrði þetta málhreinsunarátak listasafnsins á þessa lund fyrir breskum blaðamönnum:

„Við Hollendingar erum stundum kallaðir kaas kops, eða ostahausar, og við yrðum ekki hrifnir af því ef við færum í safn í útlöndum og sæjum myndir af okkur með nöfnunum „ostahausakona“ og „ostahausabarn“ og það er nákvæmlega það sem er á ferðinni í þessu máli.“(4)

Gömlu nöfnin sem nú þykja úrelt og niðrandi eins og þessi orð sem listasafnið vill afleggja merkja eitthvað á borð við „Negrakona“, „Ung negrakona“ eða „Portrett af múlattakonu.“

Nú kann ég ekki hollensku og hlýt líka að treysta starfsfólki hins frábæra listasafns fyrir meðferð á móðurmáli sínu. Auk þess er ekki vitað hvað listmálarinn, sem ítrekað málaði myndir af þessari ungu konu, kallaði málverkið sitt sjálfur. Svo ég vil nú fara varlega í að dæma um hversu viðeigandi var að skipta um nafn á þessu tilteknu málverki.

Það er líka alveg áreiðanlegt að ég hefði líklega orðið fokvondur, ef ég hefði átt leið um Rijksmuseum og tekið eftir þessu laglega málverki, gleymt mér andartak, og rekið svo augun í einhver niðrandi og rasísk ummæli um ungu konuna sem málverkið sýnir á bréfmiða undir verkinu.

Ég vil því helst standa með safnafólkinu í því að vernda hina ungu blökkukonu, sem þetta indæla málverk sýnir, fyrir kynþáttafordómum sem kynnu að vakna hjá sumum safngestum ef þeir sæju eitthvert af þessum gömlu nöfnum á bréfmiðanum undir málverkinu. Það er líka engin ástæða til að hvekkja safngesti með því að bera á borð fyrir þá úrelt og niðrandi hugtök að óþörfu. Við aðstæður sem þessar hlýtur að vera freistandi að gefa málverkum ný og sómasamleg nöfn.

En það er eftirtektarvert að í að minnsta kosti þessu einstaka tilviki felst málhreinsunin ekki aðeins í að fjarlægja niðrandi orð um húðlit eða kynþátt úr nafni listaverksins, heldur er valið nýtt nafn fyrir verkið sem veitir bókstaflega engar upplýsingar um húðlit fyrirsætunnar eða kynþátt hennar. Fram til þess að málhreinsunarátakið hófst, hét verkið ýmsum nöfnum sem vísuðu fyrst og fremst til kynþáttar fyrirmyndarinnar. En þegar safnafólkið er búið að hreinsa til á bréfmiða og í skýringartexta um málverkið stendur eftir nafn sem gefur bókstaflega engar upplýsingar um þá hlið á verkinu sem áður var þó aðalatriðið í nafni þess. Í nýja nafninu stendur aðeins eftir blævængur og ung kona. Nafn hins litríka málverks er orðið eins og litblint.

Það getur verið erfitt að átta sig á því hvenær orð eru niðrandi og smánandi og hvenær ekki. Um þetta má nefna nærtækt dæmi. Þau orð sem við eigum og eru af sömu rót sprottin og hin bannfærðu hollensku nöfn eru orðin negri og múlatti.

Ef við hugum aðeins betur að orðinu negri þá er það að því er virðist óaðfinnanlega myndað orð í íslensku. Það minnir á fuglsheitið fallega, hegri, og beygist auðvitað alveg eins og það. Það minnir um leið á örnefnið fagra Hegranes. Orðið er ættað úr latínu eins og ýmis önnur rammíslensk orð. En orðið stendur líka fyrir allar þjáningar hörundsdökkra manna á síðustu öldum sem hafa m.a. mátt þola þrældóm og kúgun og hefur því miður tekið keim af því böli öllu.

Íslensku orðin negri og múlatti eru samt ekki talin vera niðrandi orð í Íslenskri orðabók, 3ðju útgáfu, sem kom út árið 2002.(5) Þau eru ekki heldur talin vera niðrandi eða gróft orðalag í „Snöru“, rafrænni orðabók sem m.a. hefur að geyma sérstaka útgáfu Íslensku orðabókarinnar.

En orðabækur segja auðvitað ekki allt. Ég held að nú á tímum þyki flestum Íslendingum orðið negri vera vont orð sem fólk eigi helst ekki að taka sér í munn vegna þess að það feli í sér niðrandi afstöðu til blökkumanna.

Það er sjálfsögð almenn krafa að fólk meiði ekki annað fólk með orðum sínum, rétt eins og það er sjálfsögð almenn krafa að fólk meiði ekki aðra með bareflum eða eggvopnum. Eins og allir vita getur tungumálið verið gríðarlega öflugt vopn. Fólk á það til að beita orðum sínum þannig að þau verða „hvöss sem byssustingur“ og særandi eftir því.(6)

Nú kann einhverjum að finnast litlu máli skipta hvað málverk heita. En þá ber að gæta að því að það eru gjarna sjálfir málararnir sem gefa málverkunum nöfn, að minnsta kosti á síðari tímum. Ekki er útilokað það geti reynst þeim jafn flókið úrlausnarefni að velja nafn á verk sitt, eins og að leysa ýmis listræn eða tæknileg vandamál á sjálfum myndfletinum. Það má líka spyrja hver eigi að ráða nafni listaverks annar en listamaðurinn sem bjó verkið til. Kannski má bera þá spurningu saman við spurninguna um það, hverjir eigi að ráða því hvað nýfætt barn skuli heita, aðrir en nýbakaðir foreldrarnir.

Nöfn manna geta verið afdrifarík, en nöfn á listaverkum geta líka verið þýðingarmikil og eru stundum mikilvægur lykill að verkinu sjálfu. Það er því eitthvað skrítið á ferðinni, ef einhver tekur sig til og breytir nafni á listaverki, til dæmis málverki, löngu eftir að málarinn sem málaði það og fyrirsætan sem brosti glaðlega til hans meðan hann málaði hana eru bæði dáin. Þetta virðist skrítið jafnvel þó að sá sem þetta gerir hafi keypt verkið, sé því eigandi þess og sé jafnvel virðulegt listasafn.

Það er auðvitað sjálfsagt og bráðnauðsynlegt að laga skýringartexta við listaverk á listasöfnum ef skýringartextarnir eru mengaðir af rasisma og öðrum óþrifnaði. Þegar um það er að ræða að síðari tíma menn hafi sett niðrandi eða rasísk nöfn á listaverk sem listamaðurinn lét nafnlaus frá sér virðist líka eðlilegt að endurskoða nafngiftirnar. Slíkar nafngiftir frá síðari tíma fólki eru hvort sem er ekki hluti af listaverkinu.

En hvað á þá að gera ef listamennirnir sjálfir hafa nefnt verk sín nöfnum sem nú virðast rasísk eða niðrandi? Þá virðist öðru máli gegna en þegar misviturt safnafólk hefur gefið verkunum slík nöfn. Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að rasisminn eða hin niðrandi afstaða sjálf kunni að vera hluti af verkinu í einhverjum skilningi, viðfangsefni þess eða umfjöllunarefni, líkt og í dæminu af skáldverkinu Stikilsberja-Finni sem áður var nefnt.

Þegar þannig háttar til er ekki hægt að hreinsa verkin með því að afmá orð sem merkja kynþætti fólks nema hætta á að eyðileggja þau um leið. Ég held að þessi almenna regla sé líklega best: Sé listaverk ekki talið þola dagsljósið með sínu rétta nafni, vegna hins rasíska eða niðrandi blæs sem nafnið hefur á sér, sé listaverkið sennilega best geymt fjarri dagsljósinu, ofan í geymslukjöllurum listasafnsins.

 

Heimildir.

(1) Joseph Harker and Stephen Moss: “Should we censor art and books to fit our times?” The Guardian.  Vefslóð: http://www.theguardian.com/commentisfree/2015/dec/16/censor-art-books-times-rijksmuseum?CMP=share_btn_fb. 16. desember 2015.

(2) Málverkið er sýnt í sýningarherbergi Rijksmuseum nr. 1.18 samkvæmt upplýsingum á heimasíðu safnsins þann 1. mars 2016. 

(3) Þessar upplýsingar eru fengnar af wikipediu-grein um safnið, sem skoðuð var þann 2. mars 2016. https://en.wikipedia.org/wiki/Rijksmuseum .

(4) Á vef Independent er fjallað um þetta átak Rijksmuseum, í fréttinni:

“Museum to rename any artworks with offensive titles. References to 'negros', 'Indians' and 'dwarves' are all going”

Sjá: http://www.independent.co.uk/arts-entertainment/art/news/museum-to-rename-any-artworks-with-offensive-titles-a6772616.html

Þar er haft eftir Martine Gosselink, yfirmanni sagnfræðideildar Listasafnsins að fundist hafi 132 lýsingar listaverka með orðinu “negro”. Auðvelt sé að breyta slíku. Orðrétt segir í fréttinni:

“Until now we’ve found 132 descriptions with the word ‘negro’ in them, and it’s quite easy to change that. But there are other words like Hottentot — it’s a name given by Dutch people to the Khoi people in South Africa, and a Dutch word that means ‘stutterer.’ It’s very insulting, and it’s really important to change that as soon as possible.’’

(5) Íslensk orðabók, þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Mörður Árnason, Árni Böðvarsson. Edda útgáfa. Reykjavík 2002. Eftir að þessi útgáfa Íslensku orðabókarinnar kom út, hefur komið ein ný útgáfa, 4ða útgáfa, árið 2007, með allnokkrum lagfæringum. Sú útgáfa er uppseld. 

(6) Þessi orð eru úr hinni alkunnu vísu Andrésar Björnssonar sem hljóðar svo: Ferskeytlan er Frónbúans / fyrsta barnaglingur / en verður seinna í höndum hans / hvöss sem byssustingur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu