Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Kjósum strax í vor

Nú á fyrsta starfsdegi nýrrar ríkisstjórnar er rétt að rökstyðja þá kröfu, að boðað verði strax til kosninga.

Hér eru færð fram einföld rök fyrir þessu.

Nú er búið að afhjúpa forvígismenn þessarar nýju ríkisstjórnar og þeirrar gömlu meðal annars með lævíslegum brögðum íslenskra og sænskra sjónvarpsmanna. Þessir stjórnmálamenn standa því höllum fæti. Það hefur verið sagt frá því úti um alla veröldina að íslenskir stjórnmálamenn ýmist eiga núna eða hafa nýlega átt eignir í erlendum skattaskjólum.

Sumir þessara stjórnmálamanna hafa lagt sig fram um að lofsyngja hina verðtryggðu íslensku krónu sem besta og heppilegasta gjaldmiðilinn fyrir íslenska alþýðu.

Afhjúpun hinna hrekkjóttu sjónvarpsmanna er mjög vandræðaleg fyrir stjórnmálamennina. Afhjúpunin er ef til vill ekki síður óþægileg fyrir alþýðu manna sem þarf að notast við verðtryggðu krónuna þegar hún borgar skuldir sínar á hverjum útborgunardegi í hinum glæstu og stórauðugu bönkum þjóðarinnar.

Af þessum sökum hlýtur forystan í ríkisstjórn að vera með óvenju slæma samvisku. Þetta má meðal annars ráða af því að hún hefur nú þegar boðað kosningar í haust.

En það er ef til vill miklu heppilegra að kjósa bara strax.

Verði kosið í haust, munu ríkisstjórnarflokkarnir verða fyrir ómótstæðilegum freistingum. Þeir munu þá hafa svigrúm til þess að reyna að bæta orðspor sitt gagnvart kjósendum með fljótvirkum aðgerðum. Tilefnið er ærið því orðsporið er auðvitað verulega laskað.

Meðan hneykslismálin halda áfram að skella á landsmönnum á næstu vikum, þegar þess má vænta að æ fleiri Panamaskjöl verði lesin og birt – munu ríkisstjórnarflokkarnir hugsa sinn gang og velta fyrir sér hvernig þeir geti tryggt sér sæmilegt gengi í næstu kosningum. Rétt er að hafa í huga að ekki er búið að birta gögn nema um svo sem 4 – 5 stjórnmálamenn til þessa, en að sögn er eftir að birta gögn um tæplega 600 Íslendinga. Víst er um það að Íslendingar sem eiga fjármuni í skattaskjólum eru ekki í hópi hinna fátæku og smáu í landinu: þetta er efnafólk og líklega áhrifafólk í samfélaginu.

Hafi stjórnarflokkarnir nægilegt ráðrúm til þess verður freistingin mikil að lofa kjósendum margvíslegum misjafnlega nauðsynlegum og misjafnlega úthugsuðum framkvæmdum í kjördæmum hér og þar um landið. Í staðinn munu þeir auðvitað fá atkvæði. Þetta verður dýrt. Í framhaldi má búast við að lagt verði út í alls kyns jarðgangagerð og hafnargerð og hver veit hvað.

Verði hins vegar kosið strax nú á vordögum, myndast þessi freisting ekki. Þá verður það ný ríkisstjórn sem semur fjárlagafrumvarp að afloknum kosningum.

Þetta getur sparað ríkissjóði verulegt fé. Stjórnmálaforystan sem situr í ríkisstjórn mætti líka hugsa til þess, hvað það er miklu heppilegra að hafa ekki fallið í svona freistni, heldur en hitt, að hafa fallið í hana. Þeir munu geta borið höfuðið miklu hærra í framtíðinni ef þeir sleppa við þau ósköp að hafa freistast, sjálfum sér til ævarandi skammar og háðungar, til þess að lofa enn einum Vaðlaheiðargöngunum eða Landeyjarhöfninni í kjördæmum sínum.

Ef ekki verður kosið fyrr en í haust er hætt við freistingin verði ómótstæðileg. Það verður kostnaðarsamt fyrir orðspor þessara stjórnmálamanna og æru – og ekki síður kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð.

Spörum okkur því vitleysuna og kjósum strax í vor.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni