Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Heimskan er smitandi

Hann Gunnar Smári var að nefna það á facebooksíðu sinni, að heimskan sé smitandi. Hann sagði orðrétt: „Auðvitað er fólk misjafnlega af guði gert, en heimska er fyrst og fremst félagslegur smitsjúkdómur.“ Ég hef einmitt verið að hugsa alveg það sama líka. Tilefnin eru dapurleg. Ég held að ég sé ekki alveg samstíga Gunnari Smára í stjórnmálum, og þau tilefni sem vekja mínar vangaveltur um þessi efni eru kannski önnur en hans, nefnilega tíðindi frá útlöndum.

            Ég hef fylgst með stjórnmálum í Bandaríkjunum af mikilli athygli undanfarin ár. Eins og allir vita hafa Bandaríkin verið mjög valdamikil í veröldinni allt frá því að þau veittu Bretum ómetanlegt liðsinni við að sigrast á nasistum í Seinni heimsstyrjöldinni. Og margt gott hefur komið frá Bandaríkjunum allar götur síðan - og auðvitað áður líka. Við getum nefnt vísindi og fræði, og tónlist, kvikmyndir, skáldskap. Síðustu 70 - 80 ár mættu vel heita Bandaríska öldin á íslensku.*) Nú virðist þessi bandaríska öld vera að líða undir lok, líklega vegna hinnar smitandi heimsku sem náð hefur undirtökunum í þessu mikla ríki.

            Um daginn átti ég samtal við góða vinkonu um ástandið í heiminum eftir að kórónuveiran fór á kreik. Hún sagði mér frá því á að hún hefði verið að horfa á blaðamannafund í sjónvarpinu með Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York fylkis. **) Andrew Cuomo kom vel út, sagði hún, en spurningarnar sem hann fékk frá blaðamönnunum voru furðu heimskulegar. „Og það er svosem ekki hægt að kenna Trump um það, er það?“ bætti hún við. Mig renndi strax í grun að hún hefði sagt þetta vegna þess að hún hefur undir niðri vissa samúð með forsetanum en veit að ég hef mikla skömm á honum. En ég svaraði henni strax, „jú reyndar!“ Ég heyrði vinkonu mína taka andann á lofti í símanum. Hvernig gat það verið! En ég hélt ótrauður áfram og benti henni á, að Bandaríkjaforseti hefði gert lítið úr ógninni af þessum veirusjúkdómi frá upphafi allt þar til fyrir örfáum dögum, þegar hann sneri við blaðinu og fór að þykjast hafa áttað sig á öllu strax í upphafi. En þessi afstaða forsetans hefði slegið tóninn og margir Bandaríkjamenn hefðu trúað forseta sínum eins og vonlegt er, og ekki kynnt sér málin og mótað sér afstöðu til þessa veirusjúkdóms út frá heimskulegum yfirlýsingum hans, en ekki vönduðum og ígrunduðum yfirlýsingum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, sem þeir hefðu líklega aldrei heyrt neitt um. Yfirlýsingar forsetans villtu um fyrir blaðamönnunum, þannig að þeir settu sig ekki inn í ógnir þessa heimsfaraldurs, heldur hugsuðu um annað.

            Heimskan er nefnilega ekki nema í sumum tilvikum líffræðilegt vandamál. Hún þarf alls ekki að stafa af einhverri missmíð í heilabúinu á fólki heldur stafar hún oft af allt öðru, nefnilega vondum félagsskap, vondum siðum, slæmu uppeldi og menntun.

            Og staðreyndin er sú að þó að heimskan smitist ekki með sama hætti og til dæmis mislingar, sem smitast með veirum, getur hún verið bráðsmitandi fyrir því.

            Það hefur lengi verið vitað að heimska sé smitandi. En lengi vel var það kannski ekki eins mikið vandamál og það er orðið núna: lengi vel á tuttugustu öld höfðu flestir aðgang að tiltölulega traustum fjölmiðlum og fengu engar fréttir utan úr heimi aðrar en fréttir sem höfðu verið matreiddar af fagmönnum sem störfuðu á þessum fjölmiðlum. Og þetta fréttafólk, sem hafði kannski ólíka heimssýn, dreifði samt kannski sjaldan tómri þvælu. Þess vegna smitaðist heimskan miklu minna um heimsbyggðina en nú gerist, þegar fljótfært áhugafólk dreifir fréttum af miklu kappi á félagsmiðlum.

            Ég fór fyrst að taka vel eftir því hinni smitandi heimsku í aðdraganda síðustu forsetakosninga í Bandaríkjunum. Þó að flestir kunningja minna hafi haft skömm á raunveruleikastjörnunni og milljónaerfingjanum sem bauð sig fram fyrir hönd repúblikana, voru samt sumir sem höfðu furðu sterkar skoðanir á frambjóðanda demókrata, kvenskörungnum Hillary Clinton. Þetta fólk hafði margt að viðkvæði „en Hillary!“ og lét fyrirlitningu sína í ljós með áherslum sínum. Þá var meiningin gjarna sú að auðvitað ætti að kjósa Bernie Sanders eða Jill Stein sem forseta Bandaríkjanna, nú eða jafnvel Donald Trump, en bara alls ekki hina gerspilltu Hillary Clinton. Og ábendingum um fáfræði Trumps var mætt með fullyrðingum um að Bandaríkjaforsetar væru alltaf umkringdir svo hæfum aðstoðarmönnum og hjálparhellum, að það yrði ekki vandamál.

            Sú smitandi heimska sem fékk Bandaríkjamenn til að kjósa Donald Trump til forseta mun ef til vill fá þá til að kjósa hann aftur í næstu kosningum. Smitleið þessarar heimsku var um facebook og twitter. Og hvað er til ráða? Félagsmiðlar hafa marga kosti, en hvernig er hægt að stöðva heimskuna sem streymir um þessa miðla?

            Eitt mikilvægasta mótvægið við heimskuna í þessum miðlum eru vandaðir fjölmiðlar á borð við Ríkisútvarpið hér á landi og auðvitað að sínu leyti fréttamiðilinn Stundin. Þess vegna ber okkur  að standa vörð um vandaða fjölmiðla. Ef eitthvað er eru vandaðir fjölmiðlar jafnvel mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr.

                                   -           -           -           -           -           -                                  

*) Á ensku er Bandaríska öldin gjarna kölluð Ameríska öldin. Það fer ekki vel á þeirri nafngift á ensku vegna þess að Ameríka er blessunarlega meira en Bandaríkin. Hvers eiga Kanadamenn og Mexíkóbúar að gjalda? Og öll Suður-Ameríka? Það fer enn síður vel á þessari nafngift á íslensku.

**) Leiðrétting 29. mars. Í upphaflegri gerð þessarar greinar var Andrew Cuomo kallaður borgarstjóri í New York. En hann er ríkisstjóri New York fylkis, ekki borgarstjóri, og textinn er því leiðréttur í samræmi við það.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu