Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Upp úr skotgröfunum - og upp á borðið með þetta

Upp úr skotgröfunum - og upp á borðið með þetta

Síðastliðinn laugardag var hringt í mig frá Fréttablaðinu. Tilefnið var að samkvæmt gögnum Hagstofunnar þá hafði verð á fötum og skóm lækkað um 4.5% en búist hafði verið við meiri lækkun vegna þess að tollar lækkuðu um 15% á þessum vörum. Fréttin kom svo daginn eftir.

Þetta er auðvitað ákveðið áfall og auðvelt að álykta að þessi myndarlega tollalækkun hafi ekki skilað sér til neytenda og runnið þess í stað í vasa kaupmannanna.  

Þetta er staða sem oft hefur komið upp áður og hún er alltaf jafn leiðinleg.  Ég tjáði mig um þessa frétt og um kvöldið var hringt í mig frá Harmageddon og ég beðinn að mæta í viðtal á mánudeginum.

Hérna má heyra viðtalið

Þetta mál er ekki eins svart/hvítt og ætla mætti af hinum kaldhörmuðu niðurstöðum Hagstofunnar. Margir kaupmenn eru miður sín vegna þessa og hafa bent á og fært rök fyrir máli sínu að þeir hafi sannarlega lækkað verð á vörunum sínum.  

Hvað er þá eftir?  Eru kaupmenn að taka til sín þessa flottu aðgerð ríkisstjórnarinnar?  Standast þau ekki freistinguna og skara eld að sinni köku?  

Eða eru útreikingar Hagstofunnar eitthvað skrýtnir?  Má það vera?  Getur verið að fata og skókarfan sem Hagstofan notar til að reikna út breytingar á verði milli tímabila, sé of lítil eða of einsleit?  

Ég held að áður en við stökkvum upp á nef okkar með fingurinn á lofti, skyldum við fá úr því skorið hvort útskýringar kaupmanna séu gildar eða ekki.  

Ef satt reynist að skór, sem voru ekki í neinum toll-flokki, séu notaðir  til að reikna út breytingar á verði vegna tollalækkunar, er ekki furða að lækkunin vegna niðurfellingar tolla, sé ekki að skila sér.

Ég veit að þessi afstaða mín er svolítið á skjön við hefðbunda skotgrafaafstöðu sem oft kemur upp þegar neytendamál bera á góma, en þessi afstaða er samt betri hvernig sem á málið er litið.

Ruglandi og skakkar niðurstöður mega aldrei vera ráðandi breyta þegar kemur að umræðum um neytendamál.  Það er sannarlega engum til framdráttar.

Næsta skref í þessu máli er að fá upp á borðið reikniforsendur Hagstofunnar.  

Þegar þær koma og málið skýrist - er hægt að bregðast við.  

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni