Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

1991

Ég man eftir einu.  Ég man þegar ég var ungur maður einhversstaðar í Berlín meðan veggurinn umlukti borgina eins og risastórt piparkökumót.  Ég man veðrið og skrýtnu lyktina ofan í neðanjarðarlestastöðvunum.  Ég man techno, Tresor og lykilinn sem ég bar um hálsinn.

Ég man líka samtal sem ég átti við konu einhversstaðar á bekk sem stóð á harðnarðri mold og fuglar tístu og flugu.  Ég man meir að segja hvað hún hét.  Hún hét Gudrun Fidler eða Friedler.  

Hún var sennilega aðeins eldri en ég er núna þótt hún hafi virkað á mig eins og gamalmenni þar sem hún sat á bekknum með mér og fuglunum í loftinu.  Hún var áhugasöm um Ísland og ég reyndi að svara spurningum hennar eftir bestu getu en ég hafði áhuga á yfirmúruðum skotgötunum sem voru óvenju greinileg þarna í þessum garði.  Með bakaðri moldinni undir okkur. 

"Já. Ég var hér þegar þegar Rússarnir tóku borgina sagði hún.  "Við földum okkur undir braki í 3 daga og loksins þegar fallbyssuskothríðin hætti þá komum við út".  Hún lýsti þessu fyrir mér en ég spurði hana ekki hver "við" vorum og hvað varð svo um þau.   Helmingurinn dó skyldist mér.

En ég man alveg skýrt hvernig hún lýsti því að koma undan brakinu og sjá nýjan ónýtan heim blasa við sér.  Þar sem áður var torg var gígur. Þar sem áður voru gatanmót voru rústir. Þar sem aður var líf, er bara minning. Hún talaði samt um bláan himinn.

Ég man það.

Ég hugsa oft um þetta samtal við Gudrun Fiedler eða Friedler.  

Ég skil ekki 2016 og finn bara lyktina af brenndu plasti.  Blái himininn er einhverstaðar fyrir ofan rigninguna.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni