Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Árangurinn er í höfn

Á dögunum var Stöð2 með frétt um máli sem oft hefur komið inn á borð Neytendasamtakanna.  Ég var viðmælandi hjá Nadine Guðrúnu Yaghi sem hefur sýnt neytendamálum mikinn áhuga í efnistökum sínum.

Fréttin fjallaði um að sumar búðir í miðbænum stilla upp lágmarks-áfengum bjór í öndegi eins og um sé að ræða sterkan bjór. Margir ferðalangar kannast ekki við áfengis-einokunarkerfið okkar og standa í þeirri trú að þegar þeir kaupa kassa af bjór í 10-11, þá sé það áfengur bjórkassi eins og í heimalandinu.  

Fjölmargar kvartanir hafa borist vegna þessa og íbúar í miðbænum kannast margir við að hafa bent glaðhlakkaralegum ferðalöngum á að bjórinn sem þeir eru með í kippu, innihaldi lágmarks áfengismagn.  Viðbrögð ferðalanga eru á einn veg og má lýsa sem undrunarblandinni spælingu.

í fréttinni var fjallað um þetta mál og ég sýndi vandamálið og endaði með að stilla upp heimagerðu upplýsingaskilti sem ég hafði klambrað saman deginum áður. 

Þarna má sjá mig stilla upp heimagerða skiltinu.  Það var reyndar stafsetingarvilla á því en hún skrifast algerlega á mig.  Ég bjóst ekki við að skiltið yrði lengi þarna og að þessu máli myndi ekkert ljúka þarna.  

En viti menn...

Í dag fékk ég senda mynd sem var tekin í búðinni Kvosin, sem var einmitt vettvangur skilta-uppstillingarinnar, og á henni sést að búðareigendurnir þar á bæ hafa tekið á sig rögg og búið sjálf til upplýsingaskilti sem hefur það fram yfir mitt, að það er alveg laust við stafsetningarvillu.

Þetta er frábært og þessu ber að fagna.

Hérna sannast með góðum hætti að þegar fjölmiðlar sýna neytendamálum áhuga, og eru í góðu sambandi við Neytendasamtökin, þá nást fram breytingar. 

Þá getum við hætt að skammast og fagnað þess í stað.

Sigrarnir koma í hænuskrefum en munum að þegar þau eru nógu mörg, þá erum við komin langa leið.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni