Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Það er toppurinn að vera með einhverfu

Það er toppurinn að vera með einhverfu

Við köllum þau fólk með sérþarfir. Í almennri umræðu er einhverfa, ADHD, geðsjúkdómar og líkamleg fötlun í flokki lítt skilgreindra sérþarfa sem við hin reynum að lifa með. Í fljótu bragði mætti halda að tími einstaklingshyggjunnar hefði ekki runnið upp, svo mikið böslum við til að umbera sérþarfirnar. 

Sannleikurinn er hins vegar sá að það erum við hin sem erum með sérþarfir. Fólk með einhverfu og ADHD vill bara lifa lífinu en þarf þess í stað að taka tillit til heimsmyndar okkar hinna. Þau reyna að læra að umgangast okkur en í ljósi þess hversu lítt gefandi það er gengur það stundum brösuglega. 

Í samfélagi heilbrigðra er erfitt að vera með frávik. Sérstaklega þar sem við erum ekki spurð álits á eigin heilsu. Það er mafía úti í bæ sem ákveður hver er heilbrigður og hver ekki. Samkvæmt henni er fötlun, taugaþroskaraskanir og önnur óværa ólæknandi ástand, burtséð frá getu einstaklingins, hamingju og velsæld. Íþróttamaður sem er með bæklun á öðrum fæti og tekur þátt í ólympíuleikunum af miklum móð er áfram talinn fatlaður, þó svo hann hlaupi hraðar en ég. Kona með takmarkaða hreyfigetu fer í framboð og sest á þing. Þrátt fyrir að vera matvinnungur og þátttakandi í pólitískri ákvarðanatöku er hún samt sem áður alltaf fötluð. Einhverft barn með ágæta námsgetu, mætir í partý, og hlær með félögum sínum borðar ekki grænan mat. Hvor er þá skrýtnari, hann eða við hin sem tökum eftir því að hann borðar ekki grænan mat? 

Skilaboðin sem dynja á okkur alla daga eru svo geld og ömurleg að það mætti halda að við byggjum enn í samfélagi veiðimanna og safnara. Þar sem fólk þarf að geta hlaupið, veitt, fætt börn og gætt dýra. Sem er sérstakt í ljósi þess að í dag nýtur fólk ekki velgengni nema það geti setið á rassinum klukkustundum saman og leyst verkefni sem eru búin til í hugum fólks en ekki á túndrunni. 

Að mínu mati er engin fötlun til. Hún er hugarburður í heimi þeirra sem teljast heilbrigðir og öll völd hafa. Það erum við sem sköpum skilin á milli lífs og dauða, heilbrigði og óheilbrigði. Við fögnum fæðingu hvers barns en muldrum huggunarorð til þeirra sem eignast fötluð börn. Án þess að þekkja nokkuð til. Sjálf hef ég enga persónulega reynslu af fötlun, mér hefur bara alltaf verið sagt að hún sé skelfileg.

Af hverju er ég vöruð við fötlun þegar helsta ógnin sem að okkur stafar er mannvonska, svik og fals? Af hverju er ég stungin í kviðinn í mæðraskoðun þegar allir vita að kærleikur og mennska finnst ekki þannig? Af hverju þurfa börnin okkar að alast upp í ótta við fötlun og frávik þegar sköpunargáfa og velgengni hefur ekkert með frávik að gera? Er það furða að fólk kvíði þunglyndi þegar það hefur alist upp við kröfuna um að vera glatt og hresst? Þegar því er sagt að þunglyndi sé ekki bara sárt heldur einnig afskaplega óheilbrigt? 

Bæði vísindin og fjölmiðlar halda þessum hræðsluáróðri á lofti líkt og fötlun og veikindi séu stærsta ógn samtímans. Í hnotskurn eru skilaboðin sem við sendum fólki með fötlun og/eða önnur frávik þessi: 

1. Þú ert byrði 

Þess vegna viljum við vita hvað þú kostar. Sem er hellingur. Við básúnum í  fjölmiðlum að,,einstaklingar með ADHD kosta samfélagið mikið," og ,,sérþarfir [einhverfa] eru skólakerfinu dýrar."  Á hinn bóginn hefur enginn áhuga á að reikna út hvað fólk eins og ég kosta þó ég ímyndi mér að ég sé tiltölulega dýr í rekstri. Grunnskóli, tómstundir, menntaskóli, háskóli, skólagjöld erlendis, barnsfæðingar og barnabætur hljóta að kosta skildinginn. 

2. Einhverfa er vond 

Hún veldur óhamingju og erfiðleikum hjá börnum jafnt sem foreldrum. Þess vegna hafa verið skrifaðar fleiri hundruðir BA og MS ritgerða um vandann. Flestar fjalla þær um erfiðleika og óhamingju fólks með frávik og stríðið sem foreldrarnir heyja öllum stundum til að glíma við börnin sín. Fáir tala um hamingju foreldranna, því eins og aðrir foreldrar gleðjast þeir einnig yfir prakkaskap og gleðinni í börnum sínum.

Finnst ykkur þetta ekki falleg fyrirsögn að sjá í fjölmiðlum: 

"Einhverf börn drukkna frekar" (dv.is)

"Er einhverfutilfellum að fjölga" (nokkrir miðlar)"

3. ADHD er faraldur sem þarf að stemma stigu við. Sumir tala um sjúkdómavæðingu, líkt og þessi fyrirsögn: 

"Sjúkdómavæðing og skólastarf " (skemman.is)

"240 börn bíða greiningar...og bíða í tvö ár" (mbl.is)

"ADHD: ekki bara erfið hegðun" (hafnarfjordur.is)

4. Læknadópisti. 

Ef þú notar lyf eru læknadópari í leit að skjótri lausn. Börn og unglingar sem nota lyf til að líða betur vita að þau eru annars flokks manneskjur. Þetta vita þau vegna þess að enginn ráðherra, enginn læknir og enginn blaðamaður veltir því fyrir sér hvort lyfjanotkun þeirra sé tilkomin vegna þess að annars líði þeim illa. Hvorki á alþingi né í fjölmiðlum er rætt af samúð um fólk sem neytir tauga- og geðlyfja. Nei nei. Fólki er frekar lýst sem gráðugum fíklum sem kunna sér ekki hóf:  

"Íslendingar háma í sig þunglyndislyfin" (visir.is)

"Sprautufíklarnir skipta hundruðum...Mis­notk­un á rítalíni er ekki ný á nál­inni og þekkt um all­an heim en svo mik­il mis­notk­un líkt og er hér á landi er ein­stakt og um leið óút­skýrt fyr­ir­bæri" (mbl.is)

"Notkun á lyfjum sem innihalda methylfenidat (við ofvirkni og athyglisbrest) er tvöfalt meiri á Íslandi en í nágrannalöndunum" (visir.is)

"Stóraukin notkun á rítalíni!" (allir miðlar)

"Það er eitthvað að í þessu landi. Íslendingar eiga heimsmet í notkun rítalíns" (dv.is)

"Notendum rítalíns fjölgar þrátt fyrir að EFTIRLIT LANDLÆKNIS með ávísunum ávanabindandi lyfja HAFI AUKIST MIKIÐ" (visir.is)

Hvert sem litið er sjáum við neikvæða umfjöllun um frávikshegðun.  Það mætti halda að við værum markvisst að reyna að berja á fólki sem er öðruvísi en fjöldinn. Kannski erum við sjálf með svo lágt sjálfsmat að við þörfnumst fötlunar í umhverfinu. Við sem dúxum ekki í skóla né skörum framúr á annan hátt þurfum að vera betri en einhver annar. Er þá ekki tilvalið að tefla fram til samanburðar fólki með 'greiningar'? Eða líkamlega bæklun? 

Svona erum við nú gott og frábært samfélag. 

 
 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni