Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þegar stéttaskiptingin kom eins og rýtingur í hjartað

Þegar stéttaskiptingin kom eins og rýtingur í hjartað

Ég hélt alltaf að fátæktin væri versti fylgifiskur efnahagslegrar stéttaskiptingar. Þess vegna leit ég svo á að það væri forgangsmál að bæta efnahag þeirra sem lítið fé eiga, að fólki væri gert kleift að sjá fyrir sér og sínum. Um daginn gerðist atburður í mínu lífi sem fékk mig til að endurskoða þetta. Þó fátækt sé vissulega hræðilegt ástand - og verði ætíð mikilvægt úrlausnarefni - er hún ekki versti fylgifiskur stéttaskiptingarinnar. Ósýnileikinn er sínu verri. Fólk sem á hvorki peninga né völd, verður ósýnilegt. Sem er ekki bara vont fyrir það, heldur hræðilegur skaðvaldur fyrir samfélagið allt.  Og nú ætla ég að segja ykkur af hverju. 

Eins og sum ykkar vita hef ég áhuga á að skrifa bók um langömmu mína, hana Jónínu. Hún dó löngu áður en ég fæddist svo ég kynntist henni aldrei persónulega. Sem er miður því konan sú var sannkölluð hvunndagshetja. Hún var ákveðin, traust eins og klettur og algert heljarmenni til vinnu. Það væru engar ýkjur að segja að ég hafi orðið starstruck við að lesa um hana. Ekki er nóg með að langamma hafi skammað borgarstjóra og önnur yfirvöld þrívegis í dagblöðum á árunum 1913-1930 heldur stofnaði hún fyrirtæki til hjálpar einstæðum, ófrískum konum og öðru "vandalausu" fólki, ein og óstudd. Hún var ekkja sem átti enga peninga en - af einhverri ástæðu -  var samt algjörlega óhrædd við lífið. 

Þó ég sé sjálf oft hrædd við lífið var ég svo sannarlega ekki hrædd við að skrifa þessa bók. Satt best að segja hélt ég að hún myndi skrifa sig sjálf. Léttasta bókmenntaverk Íslandsögunnar. Ég meina, hver hefur heyrt af fátækri ekkju í eigin bisness á því herrans ári 1924, tiltölulega skömmu eftir að konur fengu kosningarétt? Ekkju sem fór á fundi með borgarstjóra, sótti um rekstrarstyrki og skammaði yfirvöld í dagblöðum landsins? Svoleiðis kona hlýtur að hafa verið eftirsótt umtalsefni blaðamanna og sagnfræðinga, ekki satt? 

Glöð í bragði hóf ég að safna heimildum. Ég þræddi fornbókaverslanir og Kolaportið í leit að langömmu minni og nam land á tímarit.is. Ég fann heilan helling af bókum um ábúendur á Álftanesi á Mýrum, þar sem langamma mín fæddist og ólst upp. Einnig voru til bækur um alls konar fólk og staðhætti í öllum héruðum landsins, ljósmæðratal (langamma var yfirsetukona) og margt fleira. Hugfangin settist ég niður við lestur. Frásagnirnar voru svo ítarlegar að ég hefði alveg eins getað verið að horfa á bíómynd. Í sumum bókunum var fjallað um hvert og eitt einasta býli á svæðinu og fólkið sem þar bjó. Bóndi, kona hans, sonur þeirra, o.s.frv. Ég fletti sem óð væri að Leirulæk, bænum sem langamma mín ólst upp á og fann margar fallegar myndir af honum og langar greinargerðir um ábúendur. En hvergi var minnst á Jónínu Jónsdóttur, föður hennar og móður. Bara hvergi.

Þetta fannst mér skrýtið. Hvernig gat svona merkileg manneskja farið framhjá ítarlegustu sagnariturum í heimi? Sem töldu upp alla bændur og afkomendur þeirra?. Af hverju var ekkert fjallað um langömmu mína og hennar fólk? 

Svarið fann ég stuttu seinna í manntalinu 1880. Langamma mín, Jónína Jónsdóttir, var niðursetningur. Takk fyrir. Að sjá þetta orð standa við nafn hennar, þegar hún var aðeins 7 ára gömul, var eins og að fá rýting í hjartað. Ég missti andann, mér féllust hendur og fætur og fékk tár í augun. Og þá skildi ég hvernig í öllu lá. Þá skildi ég af hverju það var hvorki fjallað um hana né foreldra hennar í öllum þessum bókum. Ástæðan var ekki sú að þarna var hún einungis sjö ára gömul. Sannleikurinn var sá að enginn sagnaritari, hvorki þá né nú, hafði áhuga á að fjalla um langömmu mína. 

Þetta áhugaleysi var þó ekki persónulegt. Það var stéttatengt. Bækur, blöð og sagnir fjölluðu um sjálfseignarbændur, fógeta, presta, og aðra embættismenn, ekki leiguliða, vinnuhjú og niðursetninga. Sem hefði svo sem meikað sens ef hinir síðarnefndu hefðu verið undantekningin frá reglunni. En þannig var það nú ekki. Árið 1842 voru sjálfseignarbændur einungis 17% bændastéttarinnar en leiguliðar 83%. Árið 1901, þegar langamma var 28 ára gömul, voru sjálfseignarbændur 28% og leiguliðar 72%.  Þessi minnihluti, þessi 17-28%, eru heimildirnar sem Íslandssagan byggir á. Sem bókmenntasagan byggir á. Hinir voru allir ósýnilegir og því vitum við lítið um þeirra persónulegu reynslu af lífinu.

Vegna bakgrunns síns var langamma alltaf ósýnileg. Hún starfrækti fyrst kvenna heimili fyrir þungaðar konur og ungbarnamæður í borginni, en fékk ekki til þess opinberan stuðning. Hún sótti um styrki til rekstursins en var vísað frá. Konur sem voru í kvenfélögum fengu þó smávegis umfjöllun um sín verk en það var vegna þess að þær voru flestar af góðu fólki komnar. Ekki allar en flestar. Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Ólafía Jóhannsdóttir, Sigþrúður Friðriksdóttir og Katrín Magnússon voru ekki niðursetningar. Þær voru prestsdætur, giftar yfirdómara eða komnar af þingmönnum. Vissulega góðar og merkar konur sem þó lifðu gerólíku lífi en meginþorri íslenskra kvenna á þessum tíma.  

Ef langamma mín hefði sjálf ekki tekið upp pennann í þrígang og skrifað í blöðin, ef tveir af kunningjum hennar hefðu ekki skrifað sína blaðagreinina hvor og þakkað henni dugnaðinn og eljuna, ef engar minningagreinar hefðu birst um hana, hefði ég nákvæmlega engar heimildir um starfsemi hennar í höndunum.  

Almáttugur hvað þetta er skelfilega fátæklegt. Ég spyr: hversu mikið vitum við í raun um bakgrunn okkar, sögu lands og þjóðar? Hverjir eru það sem segja sögurnar? Hverjir eru það sem skrifa skýrslur, greinargerðir, semja lög og úttektir? Vantar ekki nokkrar hliðar á þennan tening? Er þetta ekki bara einblöðungur? Og það sem meira er, hvernig ætlum við að móta strauma og stefnur sem virka til langframa ef einungis er miðað við reynslu fárra? Fyrir mitt leyti myndi ég gjarnan vilja heyra - og sjá - fleiri raddir í samfélaginu. Ef ekki, er ég ansi hrædd um að við hljómum eins og hjáróma fimmtíu manna þjóð í Atlantshafinu. 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni