Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Heiðar, heiðarleikinn og sannleikurinn

 Kjarninn birti nýlega furðulega ritsmíð eftir Heiðar Guðjónsson, fjárfesti.

Heiðar fer á þeysireið um hugmynda- og hagsögu, afgreiðir kenningu eftir kenningu með fáeinum frösum. Til að gera illt verra  talar hann  í þessum sjálfbirginslega alvitringstóni sem einkennir talsmáta frjálshyggjumanna og kommúnista. Boðskapur Heiðars er sá að stöðugt sé verið að spá dómsdegi og spásagnirnar séu marxískrar ættar. Spárnar  séu fráleitar og byggi á röngum forsendum. Lífskjör manna hafi batnað mjög vegna frjálsra markaðshátta, vistkerfið hafi aldrei verið í betra lagi. Marxistar hafi stöðugt verið að leita að einhverjum sem telja mætti fórnarlamb kerfisins. Á dögum Marx hafi verkalýðurinn verið talinn fórnarlambið, um aldamótinn 1900  neytandinn, þá þriðji heimurinn og nú vistkerfið. Allt séu þetta firrur, ættaðar frá fólki sem ekki skilji  hve frábær hinn frjálsi markaður sé. Meinið er að Heiðari láist yfirleitt að nefna heimildir fyrir máli sínu, hann staðhæfir t.d. án raka að marxistar vorra tíma þjáist af ótta við tæknivæðingu. Um hvaða fólk er hann að tala? Marxistinn Paul Mason fagnar tölvu- og netvæðingu sem hann telur leiðina til samvinnusósíalisma (Mason (2015). Hefur Heiðar heyrt mannsins getið?  Heiðar   raðar saman órökstuddum staðhæfingum en rambar þó einstaka sinnum á sannleikann.

Heiðar,  hagfræðin og Marx 

Hann viðurkennir  að hagfræði sé ónákvæm vísindagrein  en talar samt  eins og kreddur frjálshyggjuhagfræðinga hljóti að vera heilagur sannleikur. Ef hagfræðin er ekki þroskuð og nákvæm vísindagrein má ætla að kenningar hagfræðinga byggi á fremur á veikum stoðum, þ.á.m. kenningin um ágæti markaðarins. Hagfræðin  á við mikinn prófanleikavanda að stríða. Ekki þegar um er að ræða einstakar raunhæfingar heldur  stórar, víðfeðmar, lögmálsskýringar. Margir fræðimenn, þ.á.m. nóbelshagfræðingurinn Paul Krugman, telja að hagfræðingar hafi ofurást á fallegum,  sértækum líkönum sem hvergi snerti veruleikann (t.d. Krugman 2009). Samt er hægt læra ýmislegt af hagfræðingum svo fremi maður taki ekki trú á hátimbraðar kenningar þeirra. Heiðar virðist halda að Marx sé upphafsmaður vinnugildiskenningarinnar en hún var sett fram af Adam Smith og þróuð áfram af Ricardo, frumræturnar má finna hjá heimspekingnum John Locke. Marx bætti við kenningunni um gildisaukann og arðránið. Heiðar talar eins og Ricardo hafi trúað því að frjáls markaður og alþjóðleg verkaskipting væri öllum í hag. En þótt Ricardo hafi mælt með alþjóðlegri verkaskiptingu þá er hann ásamt Thomasi Malthus höfundur kenningarinnar um „öreigavæðingu“ (e.proletarization). Kenningarinnar um að lífskjör almennings gætu lítið eða ekkert batnað þegar til langs tíma væri  litið. Marx þróaði þessa kenningu með sínum hætti. Heiðar staðhæfir að Marx hafi talið að frjáls samkeppni leiddi til samþjöppunar auðs og hruni kapítalismans. En Marx taldi að markaðurinn gæti ekki verið frjáls, allt tal um frjálsan markað væri hugmyndafræðileg yfirbreiðsla sem þjónaði hagsmunum ríkisbubba. Í ofan á lag  segir Heiðar  um Marx að hann hafi ekki getað stutt tilgátur sínar „…með tölulegum staðreyndum eða með raunverulegum forsendum“. Margt má ljótt um Marx segja en það er einfaldlega rangt að hann hafi ekki vitnað í staðtölur og önnur reynslugögn máli sínu til stuðnings.  Lítum hér á enska þýðingu á  klausu úr 23 kafla í fyrsta bindi Auðmagnsins, kaflanum um upphleðslu auðmagnisns: „Let us consider the increase in wealth. As regards this matter, our surest source of information  is the movement of the profits, land-rent etc., that are subject to income tax. Excluding farmers and certain other categories of tgaxpayers, we find that in Great  Britain from 1853 to 1864, the increase in profits liable to income tax amounted 50.47% or, as annual average, 4.58%; the increase in the population during the same eleven-year period  being about 12%“ (Marx (1972), bls 717-718). Neðanmáls á blaðsíðu 717 vitnar Marx í heimild fyrir þessum auknum gróða í Bretlandi, sú er Tenth Report of the Commissioners of H.M. Inland revenue, London 1866, bls. 38.

Auðmagnið er sneisafullt af staðtölum og staðreyndastaðhæfingum, hvort sem þær eiga við rök styðjast eður ei. Hitt er annað að Marx eins og hagfræðingar almennt var hneigður til að setja fram víðtækar tilgátur sem mjög erfitt er að prófa. Það er út af fyrir sig rétt hjá Heiðari að vinnugildiskenning Marx er vafasöm, m.a. vegna þess hve erfitt er að prófa hana. En hún er í formgerð sinni nákvæmlega eins og kenning frjálshyggjuhagfræðinga um að frjáls markaður sé öllum til hagsbóta þegar til lengdar lætur. Marx neitar því alls ekki að framboð og eftirspurn hafi eitthvað að segja þegar verð á vinnuafli er annars vegar en segir að þegar til langs tíma er litið ráði vinnugildið verðinu (laununum). Það er feikna erfitt að sannreyna tilgátur um það sem gerast mun þegar til lengdar lætur. Hvaða tímamörk eru á hinum langa og stranga tíma? Engin og því er næstum ómögulegt að prófa kenninguna, ef þróunin  virðist ekki í samræmi við forsagnir kenningarinnar á tíma T1 má alltaf bjarga kenningunni fyrir horn með því að segja að ekki nógu langur tími hafi liðið.

Frjáls markaður er tálsýn

Hvað sem því líður hef ég litla trú á hvorutveggja, vinnugildiskenningunni og kenningunni um ágæti hins frjálsa markaðar. Eins og ég hef margsagt þá tel ég öll tormerki á að frjálsum markaði verði komið á koppinn. Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz segir réttilega að ósýnilega höndin sé ósynileg vegna þess að hún sé  ekki til. Frjáls markaður krefjist þess að allir gerendur hafi fullkomna yfirsýn yfir alla kosti. En í fyrsta lagi geti menn ekki verið alvitrir, í öðru lagi sé markaðþekking einatt ósamhverf (e. asymmetric), hinir ríku og voldugu búi jafnan yfir meiri þekkingu en pöpullinn. Þess vegna sé markaðsleikurinn ójafn, mestar líkur eru á að hinir ríku og voldugu vinni (Stiglitz (2002), bls 73-74, bls 254). Ég vil bæta við að Milton Friedman segir réttilega að markaðurinn virki ekki vel nema markaðsgerendur láti að jafnaði upplýsta eigingirni ráða gjörðum sínum. En Friedman sá ekki að það sem gerir markaðinn mögulegan ógnar honum um leið: Upplýst eigingirni segir gerandanum að reyna að takmarka samkeppni eins mikið og hann geti, t.d. með því að beita ríkisvaldinu. Þannig grefur markaðurinn undan sjálfum sér og getur tæpast orðið frjáls. Því er engin furða þótt alfrjáls markaðsskipan hafi aldrei orðið að veruleika.

En er ekki þá þjóðráð að reyna að raungera markaðsfrelsi eins mikið og mögulegt er? Mun ekki markaðsskipan sem er næstum „frjáls“ skapa meiri lífs- og hagsæld en skipan sem er síður frjáls? Bandaríkin voru að heita markaðsfrjáls í lok nítjándu aldar, ríkið tók ekki til sín meira en 2-3% af þjóðarframleiðslu, engar reglugerðir og velferðarstefna öngruðu atvinnurekendur. En tollar voru talsvert háir enda segir Joseph Stiglitz að ekkert land hafi iðnvæðst nema með því að ríkið verndi hinn unga iðnað gegn erlendri samkeppni (Stiglitz (2000). Þetta þýðir að meint frjáls samkeppni er ekki alltaf leiðin til hagsældar. Þrátt fyrir eða vegna hins mikla markaðs-„frelsis“ náðu stórfyrirtæki á borð við Standard Oil og Morgan Steel einokunaraðstoð og það með markaðsklækjum einum (t.d. Reed (1980). Ríkið komi hvergi nærri þessu. Ríkisbubbarnir sem áttu þessi fyrirtæki urðu afarvaldamiklir, höfðu stjórnmálamenn og dómara í rassvasanum og höfðu mikil áhrif á forsetakosningar (t..d. Krugman 2007). Vissulega bötnuðu kjör almennings allmikið á þessum árum. En var það bara vegna hins tiltölulega mikla markaðs-„frelsis“ en ekki vegna þess að Bandaríkin höfðu sölsað undir sig mikil landflæmi með vopnavaldi? Ekki bötnuðu kjör Indjánana þegar þeir voru sviptir landi sínu af  bandarískum her, stráfelldir og neyddir í hungurgöngur þar sem fjöldi þeir dó úr hungri, vosbúð og áreynslu. Tiltölulega mikið markaðsfrelsi var í Síle undir einræðisstjórn Pinochets. Samt eða þess vegna varð meiriháttar efnahagshrun þar syðra árið 1982, hagkerfið dróst saman um 13-14% (samkvæmt til dæmis Stiglitz (2002) bls.114). Norski stjörnuhagfræðingurinn Kalle Moene staðhæfir að hagvöxtur á þessu frjálshyggjuskeiði í Síle hafi aðeins verið 2% á ári að jafnaði (Moene (2007). Nýsjálendingar gengu líka hina þyrnum stráðu braut markaðsfrelsis. Hagfræðingurinn John Kay segir að einkavæddar  rafveitur þar syðra  hafi veitt lélega þjónustu. Auk þess urðu þær  þess valdandi að rafmagnslaust var í borginni Auckland um fimm vikna skeið og þurfti herinn að skerast í leikinn. Hagvöxturinn nýsjálenski hafi  ekki verið sérstaklega mikill á þessu frjálshyggjuskeiði, engu meiri eða jafnvel minni en í kratabælunum á Norðurlöndum (Kay 2000, Kay (2004), bls. 44-45). Ef litið er á staðtölur um hags- og lífsæld eru Norðurlöndin yfirleitt í efstu sætum en þau búa við skynsamlega útgáfu af blönduðu hagkerfi. Í Noregi er ríkið mjög umsvifamikið, það á 67% í  Statoil-Hydro og 35% af allri  hlutabréfaeign. Tekjum Norðurlandabúa er tiltölulega jafn skipt sem aftur eykur traust manna hver á öðrum. Norski hagfræðingurinn Alexander Cappelen segir að traust sé mikilvæg auðlind, án síns mikla trausts  hefðu Norðmenn búið við mun lakari kjör en raun ber vitni og aldrei eignast olíusjóð. Bæru Rússar jafnmikið traust til hver annars og Norðmenn þá væru þeir 70-80% ríkari, segir Cappelen En tekjum og eigum er feiknarlega misskipt í Rússland og traustið því lítið. Af þessu má sjá að jöfnuður getur verið hagkvæmur. Suður-Kórea iðnvæddist hraðar en nokkuð land í sögunni á bak við tollmúra og í krafti takmarkaðs áætlunarbúskapar. Þeirra útgáfa af blönduðu hagkerfi svínvirkaði, hið sama gildir um Tævan sem beitti svipuðum hagstjórnartækjum (Cullather (1996) bls 1-26). Niðurstaðan hlýtur að vera sú að ekkert bendi til að hag- og lífsæld aukist í réttu hlutfalli við meint markaðsfrelsi. Viðurkennt skal þó að Hong Kong og Singapúr hefur vegnað vel með allmikið markaðsfrelsi, kannski hæfir það best asískum borgríkum. En ekki endilega annars slags samfélögum. Reynslan verður að skera úr um hvaða hagskipan hæfir hvaða samfélagi og á hvaða tíma. Sértæk hagfræðilíkön hjálpa okkur lítið.

Jöfnuður

Ég minntist á jöfnuð. Heiðar staðhæfir að tekjum hafi aldrei verið jafnar skipt á íslandi en í dag, það sýni gini-stuðullinn. Samkvæmt OECD var tekjum hvergi jafnar skipt en á Íslandi árið 2014. Hann athugar ekki að ginistuðullinn  er umdeildur eins og svo margt annað í heimi hagfræðinnar. Heldur ekki að Panamaskjölin benda til þess að hlutfallslega meira af tekjum og eigum sé stungið undan á íslandi en í nágrannalöndunum. Aðeins tvö hundruð Norðmenn er að finna í Panamaskjölunum en  sex hundruð Íslendingar. Þetta gæti bent til þess að misdreifing tekna á íslandi sé meiri en ginistuðullinn sýnir. Heiðar þegir líka yfir þeirri staðreynd að nýlegar tölur um dreifingu auðs og eigna sýna að þeim  sé  misdreifðar á Íslandi en víðast  á Vesturlöndum, talið er að 10% þjóðarinnar eiga 70%-eigna og auðs. Aðeins tvö Vesturlanda hafa ójafnari dreifingu samkvæmt þessari rannsókn, Sviss og BNA. Skylt er að geta þess að þegar litið er á auð og eignir ríkasta prósentsins þá lendir Ísland „bara“ í 6-7 sæti. Alltént er sennilegt að einhver fylgni sé milli eigna og tekna, því eykur þessi tiltölulega ójafna eignaskipting líkurnar á því að opinberar tölur um tekjudreifingu séu villandi, að tekjum sé ójafnar skipt en ginistuðullinn sýni. En sönnunarbyrðin er þeirra sem trúa því að tekjum sé mun ójafnar skipt á Íslandi en í nágrannalöndunum. Hvað sem því líður þá  gerir þessi frekar ójafna eignadreifing auðkýfinga og stórfyrirtæki  mjög valdamikla og dregur úr trausti. Margir tala um tvær þjóðir á Íslandi og treystir hvorug hinni. Vantraust er dýrt. Heiðar talar eins og  það sé bláköld staðreynd að lífskjör manna í markaðssamfélögum hafi farið stöðugt batnandi. Veit hann ekki að þrátt fyrir vissan hagvöxt á síðustu áratugum ber meðalkaninn minna úr býtum á unna klukkustund en fyrir 40 árum? Á sama tíma hafa hinir ríku orðið miklu ríkari en millistéttin ameríska berst í bökkum, æ fleiri Bandaríkjamenn falla niður úr millistéttí lágstétt. Félagslegur hreyfanleiki er nú talinn minni í Bandaríkjunum en í hinum vondu velferðarríkjum Norðurlanda (t.d. Cawhill og Morton (2008).

 Stöðugt batnandi lífskjör? Ekkert að marka Piketty?

Heiðar staðhæfir að hinn flotti markaður hafi gert „okkur“ kleyft að lifa af 40 stunda vinnuviku. Það gildir kannski um hina ríku vini hans, almenningur á Íslandi, í  Bandaríkjunum og víða annars staðar þarf að vinna ansi miklu lengur en 40 stundir til að hafa í sig og á. Alls staðar í heiminum,  meira að segja í Noregi og Svíþjóð, eykst sá hluti þjóðartekna sem hinir ríku fá í sinn hlut. Um leið eignast  ríkisbubbarnir æ stærra hlutfall auðs og  eigna sem gerir þá enn valdameiri en ella. Valdið geta þeir notað til að kippa marknaðnum úr sambandi sér í vil. Allt þetta er mjög í samræmi við kenningar Karls Marx, þótt auðvitað kunni skýringin á þessari vanþróun að vera af öðrum toga spunnin. Alltént eru staðhæfingar Heiðars um að lífskjör vestrænna manna hafi stöðugt farið batnandi beinlínis ósannar. Thomas Piketty kann að eiga betri skýringu á þessari vanþróun en Karl Marx en Heiðar ímyndar sér að Piketty sé marxisti. Hann hefur lært ýmislegt af Marx en vísar ýmsum af meginkenningum hans á bug, til dæmis kenningunni um fallandi gróðahlutfall (Piketty (2014), bls 52). Hann  hefur safnað ógrynni reynslugagna sem eiga að staðfesta þá tilgátu hans að auðmagnið hafi hneigð til að vaxa meir en sem nemur hagvexti. Hann notar formúluna r>g, „r“ táknar árlegan arð (gróða, vexti o.s.frv) af auðmagni, „g“ árlegan hagvöxt. Táknið“ >“ þýðir að sjálfsögðu „meira en“, auðmagnsarður aukist jafnan meir en sem nemur hagvexti  (t.d. Piketty (2014): 25). Þetta þýði að á þeim tímaskeiðum þegar r eykst mun meira en g þá eykst vægi þess auðmagns sem erfist miðað við það auðmagn sem skapast af athafnamönnum og öðrum. Á nítjándu öldinni jókst r mun hraðar en g enda var það blómaskeið erfingja og annarra  arðþega (e. rentiers). Vissulega hafi tekjur og hlutfall eigna jafnast á tímabili en það hafi verið vegna ytri aðstæðna. Heimsstyrjaldirnar og kreppan mikla hafi eytt miklu auðmangi og þar með  dregið úr mismun auðmagns og launa. Heiðar virðist ekki skilja hvert Piketty er að fara og svarar með nauðaómerkilegri dæmatöku. Hefði Piketty á réttu að standa þá  „væru ættir landnámsmanna gríðarlega ríkar og þrælarnir hefðu aldrei komist til bjargálna“, segir Heiðar. Hann athugar ekki að ekkert fjármagnskerfi var til á þjóðveldisöld. Í ofan lag telur hann það vera afsönnun á kenningu Pikettys að þeir sem ríkastir voru á Íslandi fyrir 15-25 árum séu ekki lengur  ofurríkir og hlutfallslega miklu ríkari en pöpullinn. En Piketty er (rétt eins og Karl Marx) ekki að tala um einstaka auðmenn eða fyrirtæki heldur auðmagnið sem heild. Deila má um hve frjó sú nálgun er en alla vega bendir flest til þess að hlutur auðmagnsins í heimstekjum hafi aukist á síðustu áratugum.  Gallinn við málflutning Pikettys er sá að hann beitir víðfeðmum lögmálskýringum en eins og áður segir hafa þær ekki reynst nema miðlungi vel í hagfræði. Skiptir engu mál hvort þær eru ættaðar frá Marx, Piketty eða Friedman.

Ó græna, væna jörð!

Heiðar staðhæfir að jörðin hafi aldrei verið „grænni“ en nú, vistkerfið aldrei í betra lagi. Rök hans fyrir því eru mestanpart af ad hominem tagi, Freeman Dyson segi það og því sé það satt. Kommúnistar beittu einatt svipuðum „rökum“, Marx sagði það og þá var það satt. Reyndar bendir Heiðar réttilega á að ýmsir öfgamenn í hópi umhverfisverndarsinna hafi á árunum upp úr 1970  sett fram fáránlegar spásagnir um visthrun, spásagnir sem alls ekki rættust. En hann athugar ekki þann möguleika að spásagnir hafi afræst vegna þess að menn tóku tillit til þeirra og stuðluðu að því að þær rættust ekki. Kannski hefði orðið meginvistslys á síðustu öld ef menn eins og Paul Ehrlich hefðu ekki spáð því. Þess utan er fjöldi fræðimanna á annarri skoðun en Freeman Dyson. Nægir að nefna bandaríska vísindamanninn James Hansen sem hefur varað við afleiðingum af hlýnun jarðar.  Af hverju teysta Dyson fremur en Hansen? Eiga menn að hunsa upplýsingar um að villtum dýrum fari ört fækkandi? Eða upplýsingum um að lífræn fjölbreytni  (e. biodiversity) minnki stöðugt? Sé þetta rétt þá má ætla að veröldin sé ekki að verða grænni, öðru nær. Vissulega er vistkerfi jarðar mjög flókið, vel kann að vera að vissir þættir þess batni og „grænki“ á meðan enn stærri þættir verði umhverfiseyðingu að bráð.

Nasisminn eina ferðina enn 

Á ensku er talað um „guilt by association“, sumir  beita þeirri „raka“-brellu að gera menn tortryggilega með því tengja þá við eitthvað sem flestum finnst neikvætt. Heiðar beitir henni þegar hann segir að þýskir „þjóðernissósíalistar“ hafi verið með vistverndartakta rétt eins og vinstrimenn nú til dags. Les: vinstrimenn eru eiginlega nasistar og nasistar sósíalistar. Friedrich Hayek ber mikla ábyrgð á kenningunni um sósíalisma nasistanna. Í bók sinni Leiðin til ánauðar segir hann að þar eð nasistar hafi rekið áætlunarbúskap þá hafi þeir verið sósíalistar. En Hayek fer villur vega: Í fyrsta lagi var áætlunarbúskapur nasista aldrei altækur gagnstætt þeim sovéska, hann var á svipuðum nótum og sá tævanski og suðurkóreska. Engum dettur í hug að segja að Suður-Kórea hafi um 1965 verið sósíalískt land. Eða var hinn  mikli efnahagsárangur landsins sósíalismanum að þakka? Í öðru lagi tóku þýsk einkafyrirtæki þátt í áætlanagerðinni, tveir af hverjum þremur strafsmönnum áætlanabáknsins voru jafnframt starfsmenn einkafyrirtækisins IG Farben (sjá (Kitchen (1976), bls. 55). Í þriðja lagi þjóðnýttu nasistar  ekkert annað en eigur verkalýðsfélaganna (Tingsten (1992), bls.  112).  Einkaframtakið blómstraði á dögum nasista, stórfyrirtækin græddu á stríðsrekstrinum. Þau gátu leigt þrælavinnuafl af SS, fyrir utan Auschwitz getur að líta stóra verksmiðju sem var í eigu I.G. Farben, þrælar strituðu þar kauplaust og eigendurnir stórgræddu. Ofnarnir sem notaðir voru til að brenna líkin í útrýmingarbúðunum voru framleiddir af einkafyrirtækjum, sjálfsagt hafa eigendurnir synt í gróða fyrir vikið. Í fjórða lagi  hófu nasistar valdaferil sinn með einkavæðingu (!)  (Bel (2011), bls 34-55). Í fimmta lagi lofsöng Hitler hinn frjálsa markað og einkaframtakið, t.d. í ræðu í Ríkisþinginu árið 1935 (Hitler (1935: 11). Að kenna nasista við sósíalisma er því hrein öfugmæli þótt þeir hafi í áróðurskyni kennt sig við þjóðernissósíalisma.

Nýlendustefna og þrælasala

Heiðar staðhæfir án raka að lífskjör fólks í nýlendunum hafi batnað á nýlendutímanum. En um þetta er harkalega deilt enda reynslugögn af skornum skammti. Alla vega er borðleggjandi að nýlenduveldin frömdu ýmis óhæfuverk. Í Belgíska Kongó voru innfæddir neyddir til að vinna á gúmmíekrum og hendur skornar af þeim sem ekki framleiddu nóg. Talið er að milljónir Kongóbúa hafi látist fyrir vikið, ekki bötnuðu kjör þeirra vegna nýlendustefnunnar, öðru nær (Osborn (2002).

 

 Sama gildir um þær 10-15 milljóna svartra þræla sem vestrænir menn fluttu til Vesturheims og drápu í hrönnum. Þrælaverslunin breska og bandaríska var að mestu í höndum einkaðila, þrælamarkaðurinn var eins frjáls og markaður getur orðið. Yuval Noah Harari segir beinum orðum: „The slave trade was not controlled by any state or government. It was a purely  economic enterprise, organised and financed by the free market according to the laws of supply and demand“ (Harari  (2014): 169-170). Bætti þetta markaðsfrelsi kjör þrælanna? Jók það frelsi þeirra?

Lokaorð

Markaður er tæki sem stundum getur eflt frelsi manna og bætt kjör þeirra, stundum ekki. Einkagróði getur undir vissum kringumstæðum verið öllum til hagsbóta en ekki alltaf, samanber blóðpeningana sem einkaðilar þénuðu á helförinni og þrælaversluninni. Og minnumst versnandi kjara almennings vestanhafs.

Málflutningur Heiðars er ekki heiðarlegur og yfirleitt fjarri sannleikanum. Þær staðhæfingar hans sem telja ber sannar eru yfirleitt ekki rökstuddar. Að kalla boðskap hans „yfirborðslegan“ er ekki að taka of djúpt í árinni. Hann hlýtur að hafa eitthvað þarfara við tíma sinn að gera en að leika hagspeking.

 

Helstu heimildir (flest utan Nets, vitnað í Netheimildir beint í texta):

 

Germa Bel (2010) „Against the mainstream: Nazi privatization in 1930′s Germany“, Economic History Review, 63 (1), 34-55.

 

Isabell Cawhill og John E. Morton (2008): Economic Mobility: Is the American Dream Alive and Well? http://www.economicmobility.org/ Sótt 10/9 2009.

 

Nick Cullather (1996): „Fuel for the Good Dragon“: The United States and Industrial Policy in Taiwan, 1950-1965“, Diplomatic History, Volume 20, Issue 1, janúar, bls. 1-26.

 

Yuval Noah Harari (2014):Sapiens. A Brief History of Humankind. London Vintage Books.

 

Friedrich von Hayek (1980): Leiðin til ánauðar. (þýðandi Hannes Gissurarson). Reykjavík: AB.

 

Adolf Hitler  (1935): Lighed giver fred (þýðandi  Clara Hammerich): København: Hasselbalch.

 

John Kay (2000): “Downfall of an Economic Experiment”, The Financial Times, 30.ágúst. http://www.johnkay.com/2000/08/30/downfall-of-an-economic-experiment/ Sótt 5/3 2003

 

John Kay (2004): The Truth about Markets. Why some nations are rich but most remain poor. Penguin: Harmondsworth.

 

Martin Kitchen  (1976): Fascism. London: MacMillan Press.

 

Paul Krugman (2007): The Conscience of a Liberal. London og New York: W.W. Norton & Co.

 

Paul Krugman (2009):“How did economists get it so wrong?”, New York Times Magazine, 6 september. http://www.nytimes.com/2009/09/06/magazine/06Economic-t.html).

 

Karl Marx (1972): Capital. Book One   (þýðendur Eden og Cedar Paul).  New York: Everyman‘s Library.

 

Paul Mason, (2015):Post-Capitalism: A Guide to Our Future. New York: Farrar, Straus og Giroux.

 

Kalle Moene (2007): ”Ubrukelige utopier”, Morgenbladet, 5 október.

 Andrew Osborn (2002): "Belgium Confronts its Colonial Demons", The Guardian 18 júlí.

Thomas Piketty (2014): Capital in the Twenty-First Century (þýðandi Arthur Goldhammer). Cambridge, Mass og London: Belknap.

 

Lawrence Reed (1980): „Witch-Hunting for Robber Barons: The Standard Oil Story“, Ideas on Liberty

http://www.dadyer.com/Economic%20Readings/witchhunting%20for%20robber%20barons.htm. Sótt  4/6 2013.

 

 

 

Joseph Stiglitz (2000): "What I learned at the World Economic Crisis. The Insider View", The New Republic, 17. apríl, http://www.mindfully.org/WTO/Joseph-Stiglitz-IMF17apr00.htm. Sótt 1/3 2002.

 

Joseph Stiglitz (2002): Globalization and its Discontents. Harmondsworth: Penguin Books.

 

Herbert Tingsten (1992): Nazismen och fascismens idéer. Den nationella diktaturen. Gautaborg: Ratio.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni