Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Ferfætllingaflokkurinn

Ferfætllingaflokkurinn

Stjúphvolpurinn og Stjúpkötturinn: Stjúpi, við ætlum að stofna flokk.

Ég: Nú, hvað á hann að heita?

Stjúpkötturinn: Ferfætlingaflokkurinn.

Ég: Uhh, ég held að það séu til a.m.k. tveir ef ekki þrír slíkir flokkar á Íslandi, Viðreisn og Björt framtíð skríða á fjórum fótum fyrir íhaldinu. Og Framsókn hefur löngum sýnt því hundslega undirgefni.

Stjúphvolpurinn (urrar reiðilega): Þetta eru  hundfjandsamleg ummæli! Það ætti banna slíkt!

Ég: Ókei, ókei, fyrirgefðu, segjum bara að Framsókn hafi oft flatmagað fyrir  Íhaldinu.

Stjúphvolpurinn: Allt í lagi, gleymum þessu.

Ég: En segið mér meira um flokkinn, hver eru helstu baráttumál hans?

Stjúpkötturinn: Sko, okkur finnst að réttindi okkar ferfætlinga séu fyrir borð borin, þess utan krefjumst við betra fóðurs. Gæsalifur á sunnudögum, takk!

Ég: Hvað heldurðu að gæsirnar segi við því?

Stjúpkötturinn: Þær eru ekki ferfætlingar.

Ég: Ég þóttist nú vita það. En hvernig á að stjórna flokknum ykkar?

Stjúpkötturinn: Ég verð náttúrulega formaður, ég meina forferfætlingur…

Stjúphvolpurinn: Grrr, alltaf sama frekjan í þér,  fitubollan þín!

Stjúpkötturinn: Grrr, ég er ekkert feitur, ég er bara með þy…

Ég: …kkan feld.

Stjúpkötturinn: Grr, ég skal lúskra á þér, vondi hvolpur (þeir fara að slást).

Ég (tek í hnakkadrambið á báðum): Tekið hef ég hér hvelpi tvö, úps ég meina hvolp og kött. Ef þið hættið ekki að slást þá fáiði engan kvöldmat!

Stjúpköttur og –hvolpur (bljúgir): Við skulum lofa að vera þægir!

Stjúpkötturinn  (með lygaramerki á loppunni): Elsku voffi!

Stjúphvolpurinn (líka með lygaramerki): Elsku kisa!

Ég: Gjöriði svo vel! Dýrindis dýrafóður!

Stjúphvolpurinn og –kötturinn: Húrra fyrir fóðrinu, húrra fyrir stjúpa!

Hinir baráttuglöðu stjórnmála-ferfætlingar hámuðu í sig fóðrið, lögðust svo hlið við hlið og sváfu svefni hinna réttlátu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni