Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Fákeppni á Fróni einu? Fákeppni bara slæm?

Fákeppni á Íslandi er mjög til umræðu þessa dagana og er það í sjálfu sér vel. Gallinn er sá að álitsgjafar tala eins og fákeppni sé séríslenskt fyrirbæri og telja sig jafnvel geta fundið rætur hennar í séríslenskri sögu. Þeir gefa sér líka að fákeppni sé ávallt af hinu illa. Ég hyggst nú sýna fram á að fákeppni sé um það bil eins algeng og kvef, þess utan að hún sé ekki alltaf af hinu illa. Auk þess að hún sé stundum af völdum hins opinbera, stundum hins guðdómlega markaðar.

Fákeppni stundum af hinu góða

Á fyrstu árunum eftir stríð var rekin harðsvíruð haftastefna í Noregi og var m.a. bannað að flytja inn bíla. Haftastefnan skóp að sjálfsögðu fákeppni án þess að norskt efnahagslíf yrði fyrir verulegum skakkaföllum. Alltént stóðu Norðmenn sæmilega að vígi efnahagslega um 1960 þegar tekið var að draga úr höftum. En auðvitað kynnu þeir að hafa staðið enn betur að vígi án haftastefnu. Hvað um það, nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz heldur því fram að iðnvæðing landa hafi sem forsendu að ungur, veikburða iðnaður þeirra sé verndaður gegn samkeppni með tollum. Iðnvæðing hefur sem sagt fákeppni að forsendu. Tökum Suður-Kóreu sem dæmi: Landið iðnvæddist bak við himinháa tollmúra og einræðisherran Park Chung-Hee neyddi smáfyrirtæki til að sameinast í risafyrirtæki sem kölluðust „chaebol“. Samsung og Hyundai eru meðal þessara chaebola sem stunduð lengi vel fákeppni innanlands þar til þau urðu nógu öflug til að keppa á alþjóðamarkaði. Fákeppnislandið Suður-Kórea var eitt fátækasta land heimsins um 1955 en er í dag meðal ríkustu landa heims. Skýringin kann að vera tiltölulega lítil spilling. Þótt Park væri harður í horn að taka var hann lítt spilltur og notaði hina gífurlega miklu þróunaraðstoð Bandaríkjamanna með skynsamlegum hætti. Svipað gilti um Noreg. Þótt kratarnir réðu þar lögum og lofum þá voru þeir ekki efnahagslega spilltir. Þeir létu sér valdabrask nægja, stjórnkerfið norska var útibú frá Verkamannaflokknum. Kannski er fákeppni í lagi svo fremi við stjórnvöl sitji framsýnir og efnahagslega óspilltir menn eins og Park í Kóreu og kratafrömuðurinn Gerhardsen í Noregi.

Fákeppnin í Noregi nú á dögum

Er fákeppni horfin í Noregi? Öldungis ekki, fyrir fáeinum árum gerðist skömmu fyrir jól að smjörþurrð varð í landinu. Skýringin var talin hálfgildings einokun mjólkursamsölunnar TINE sem að nafninu til hefur misst einokunarstöðu sína. En i reynd hefur hún töglin og haldirnar í mjólkurbransanum norska. Norska ríkisjárnbrautafyrirtækið NSB er verndað gegn samkeppni, lengi vel var rútufyrirtækjum bannað að aka milli Lillehammers og flugvallarins Gardermoen svo einokun NSB væri tryggð. Að segja að fyrirtækið veiti lélega þjónustu er ekki að taka of djúpt í árinni. Nýlega birtist athyglisverð grein í norska blaðinu Aftenposten um einokun í leigubílabransanum norska. Greinarhöfundur, blaðamaðurinn Joachim Lund, taldi að Uber gæti bjargað málunum, skapað raunverulega samkeppni á leigubílamarkaðnum. Ekki verður séð að kjörbúðakeðjurnar norsku ofreyni sig á því keppa hver við aðra, ég hef á tilfinningunni að eigendurnir skipti markaðnum bróðurlega á mili sín. Því var haldið fram í norsku dagblaði að það væri meira úrval í kjörbúðum á Grænlandi en í Noregi, ekki sel ég það dýrara en ég keypti það. En kjörbúðirnar norsku heilla mig ekki. Fákeppni í landbúnaði veldur miklu um það, rétt eins og íslenskur landbúnaður er sá norski verndaður með niðurgreiðslum og háum tollum.

Ekki er olíubransinn norski ofþjakaður af samkeppni um aðgang að olíulindum. Þær eru flestar í höndum Staoil sem lengi var hreinræktað ríkisfyrirtæki en er nú að 2/3 hlutum í höndum hins opinbera. Yfir öllu olíuapparatinu norska gín ríkisfyrirtækið Petero. Reyndar held ég að þessi ríkisstýrða fákeppni á olíusviðinu sé af hinu góða og tryggi almenningi ágóðann af olíulindum. Hefðu þær verið seldar alþjóðlegum einkafyrirtækjum hefði sjálfsagt orðið hækkun í hafi og ágóðinn lent á Tortóla. Frjálshyggjufrömuðurinn norski, Carl I. Hagen, kom eitt sinn með þá tilögu að einkavæða olíusvæði nokkurt fyrir 10 milljarða norskra króna. Það var blessunarlega látið ógert, síðan hefur olíusvæði þetta skilað Norðmönnum segi og skrifa 1050 (!!) milljörðum norskra króna í arð. Þessar staðreyndir benda til þess að stundum sé fákeppni af hinu góða, þótt hún sé oft af hinu illa. Fákeppni í boði Parks og Statoil er/var af hinu góða, ekki fákeppni í tengslum við TINE, NSB og norsku kjörbúðakóngana.

Meðan ég man: Á bókstaflega öllum listum sem ég hef séð um meint markaðsfrelsi í mismunandi löndum er Ísland talið markaðsfrjálsari en Noregur, t.d. hér. Miklu nánar um þetta í færslu innan tíðar.

Frá markaðsfrelsi til fákeppni

Íslenskir álitsgjafar virðast halda að meint frjáls samkeppni sé allrar businessmeina bót og ríkið hið illa skapi fákeppni. Vissulega skapar ríkið oft fákeppni og einokun en markaðurinn er fullfær um slíkt hið sama. Hafa ber í huga að samkeppnisaðilar á markaði hafa hag af að takmarka samkeppni og reyna yfirleitt að öðlast einokunarvald. Stundum með fulltingi ríkisins, stundum með markaðsklækjum einum. Á gylltu öldinni amerísku tók bandaríska ríkið aðeins til sín 2-3% af þjóðarauðnum, samkeppnin var að heita frjáls, utan þess að tollar voru allháir. Fyrirtæki John Rockerfellers, Standard Oil, náði undir sig 90% af markaðnum með markaðsklækjum einum, sama gilti um stálfyrirtæki Andrew Carnegies. Þessi markaðsstýrða einokun tryggði Rockefeller, Carnegie og öðrum auðkýfingum gífurleg völd en var samt ekki án sinna góðu hliða. Risafyrirtækin voru feiknframleiðin og á efri árum gáfu ríkisbubbarnir margir hverjir miklar fúlgur til velferðamála. Nú fer Billy Gates sömu leið en Microsoft nánast haft einokun á mikilvægum sviðum tölvubransans, þótt eitthvað hafi dregið úr henni síðustu árin. Hálfgildings einokun Microsofts, Facebook, Googles og Amazons virðist eiga sér markaðsrætur. Það kostar feiknmikiað búa til nýja útgáfu af Windows en sama sem ekkert að afrita þær. Norski hagfræðingurinn Bent Sofus Tranøy heldur því fram að við þessar aðstæður sé stórrekstur mjög hagkvæmur, kostnaðurinn dreifist á urmul afrita en um leið sé mjög erfitt fyrir keppinautana að komast inn á markaðinn því ný forrit eru ógnardýr. Í ofan á lag sé þessi einokun eða einsleitni sumpart hagkvæm fyrir neytandann því hann græðir á því að margir noti sömu forrit. Bæði er auðvelt að taka á móti skjölum ef allir nota Word og auðveldara að læra á forritunarkerfin ef velflestir nota sama kerfi. Menn geta þá hjálpað hver öðrum. Gallinn sé sá að Microsoft eigi alls kostar við neytandann, geti látið gömul forritunarkerfi eyðileggjast og þannig neytt neytandann til að taka í notkun nýtt kerfi annað hvert ár. Spurningin sé hvort þekkingariðnaðurinn hafi innibyggða einokunarhneigð sem sýni sig í einokunarstöðu Microsofts.

Lokaorð

Við höfum séð í þessari færslu að bullandi fákeppni hefur löngum verið við lýði víða um lönd, þar á meðal í Suður-Kóreu, guðseiginslandi BNA og hinum ginnhelga Noregi. Ekki nóg með það, í mikilvægasta iðnaði heimsins, þekkingariðnaðnum, ríkir fákeppni, jafnvel einokun stórfyrirtækja. Stundum er fákeppni af völdum ríkisins, stundum markaðarins. Og fákeppni er alls ekki alltaf af hinu illa. Og grasið ekki alltaf grænna handan við lækinn.

PS Þeir sem vilja fræðast meira um kenningar Stiglitz, Tranøy og gylltu öldina amerísku skal bent á véfréttina miklu, skruddu mína Kreddu í kreppu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni