Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Enn um frelsi

 Frjálshyggjumenn segja að frelsi felist í því að gera það sem manni sýnist svo fremi

 maður skaði ekki aðra með því að hefta frelsi þeirra. Frelsi hvers einstaklings takmarkist af frelsi annarra einstaklinga. Sérhver einstaklingur eigi  óskoraðan rétt til að ráðstafa eigum sínum og líkami hans og sál (ef einhver er) teljist hans eign.

Frelsi og fóstureyðingar

Þetta er allt gott og blessað-við fyrstu sýn. Athugum fóstureyðingar. Skaðar kona annan einstakling ef hún lætur eyða fóstri eða nýtir hún einfaldlega frelsi sitt til að ráðstafa eigum sínum, í þessu tilviki líkama sínum? Það er ekki til neitt einfalt, gefið svar við þessari spurningu og frelsisregla frjálshyggjunnar hjálpar okkur ekki.  Svarið krefst vitlegrar skilgreiningar á hugtakinu um líkama einstaklings og velgrundaðs siðferðilegs gildismats. Vel mögulegt er að stór huglægur þáttur sé í þessu gildismati og að þessi þáttur ráði miklu um hvernig hugtakið um líkama enstaklings sé skilgreint. Sé svo þá á spurningin um réttmæti fóstureyðinga sér ekkert gefið svar fremur en spurningin um hvort pylsur bragðist betur en hamborgarar. Það þýðir enn fremur að frelsisregla frjálshyggjunnar er máttlaus þegar um mikilvægt álitamál er að ræða. Þá ræður huglæg upplifun því hvort  telja beri rétt til  fóstureyðinga frelsisrétt  eða hið gagnstæða. „Sínum augum lítur hver silfrið“, segir máltækið.

Hatursorðræða

Skoðum nú á hugtakið um að skaða aðra. Hugsum okkur að haturorðræða sé leyfð í tilteknu samfélagi og fjöldi manns noti sér leyfið til að tala illa um múslima, konur og fatlaða. Í kjölfar þess fremur fjöldi manns sjálfsmorð og skilur eftir sig sjálfsmorðsbréf þar sem stendur eitthvað á borð við „ég vil ekki lifa því mér líður svo illa út af hatursummælum um þann hóp sem ég tilheyri“. Er hægt að segja annað en að þarna hafi hatursumræða skaðað margt fólk mikið? Vandinn er sá að það er engan veginn gefið að það leyfa hatursumræðu leiði til slíkra óskapa. En erfitt er að ákvarða nákvæmlega hvað orðasambandið „skaða aðra“ þýðir. Hve illa þarf þeim hópum sem hatursorðræðan beinist gegn að líða til þess að telja beri að hún skaði þá? Enn og aftur finnum við ekkert gefið svar, frelsisreglan hjálpar okkur ekki. Eins og máltækið segir: "Allt orkar tvímælis þá gert er".

Innflytendur

Frjálshyggjumenn og hægrisinnað fólk almennt fussar og sveiar yfir vinstri-rétthugsendum sem telja hatursorðræðu árás á frelsi manna. Þeir síðarnefndu eru þeirrar hyggju að það að vilja takmarka innflytjenda- og flóttamannastraum sé ófrjálslynd stefna. En það er ekki gefið. Ef sýnt þykir að innflytjendur og flóttamenn vegi að tjáningarfrelsi má telja það í anda frjálslyndis að vilja takmarka þennan straum. Þess vegna geta menn verið frjálshyggjumenn og fylgismenn takmarkanna á innflutningi fóks. Vandinn er enn og aftur sá að erfitt er að sannreyna staðhæfingarnar um að innflytjendur geti ógnað tjáningarfrelsinu. Það þýðir að mjög erfitt er að beita frelsisreglu frálshyggjunnar á innflytjenda- og flóttamannavandann.

Inntakslaust hugtak?

Eigum við þá að telja frelsishugtakið inntakslaust eða líta á aðrar skilgreiningar á frelsi en þær sem frjálshyggjan býður upp á? Ljóst má þykja að til eru skóladæmi um frelsi og ófrelsi: Hugsum okkur mann sem er tekinn höndum blásaklaus og   bundinn  á höndum og fótum í dýflissu. Þessi maður  er örugglega ófrjáls. Hugsum okkur konu sem  er efnahagslega sjálfsstæð, getur valið sína eigin  starfsbraut, er ekki beitt líkamlegu ofbeldi  og hefur ekki innhverft áróður um að konur séu óæðri körlum. Þessi kona  er næstum örugglega frjáls.

Þessi dæmi sýna að frelsishugtakið ekki án inntaks. Besta leiðin er því sú að líta hugtakið um frelsi öðrum augum en frjálshyggjumenn. Dæmin að ofan sýna að ekki er til nein formúla fyrir frelsi, upplýst dómgreind og gildismat manna ræður miklu um hvað teljist frelsi og ófrelsi við hvaða tilteknu aðstæður. Það er ekki hlaupið að því að ákveða hver er frjálslyndur og hver ekki. Og alls ekki hvort rétt sé að efla og hlúa að frelsi. En síðastnefnda spurningin er ögn annars eðlis, spurningin um það hvað beri að gera, ekki það hvernig hlutirnir eru.

Ljóð í lokin

Franska skáldið Paul Éluard var flest annað en frjálshyggjumaður en samt mikill unnandi frelsins. Á stríðsárunum þegar Frakkland var hernumið orti hann frægan brag um frelsi. Honum lýkur svo:

                        "Á endurfengna heilsu

                          Á horfnar hættustundir

                          Á minningalausar vonir

                         Letra ég nafn þitt

 

                         Og með orðsins mætti

                         Endurhef ég líf mitt

                         Ég fæddist til að þekkja

                         Þig og nefna

 

                          Frelsi"

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni