Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Eftirhrunsmóður- og vænisýkin

 Hvernig birtist eftirhrunsmóður- og vænisýki (e.m.ov.s.)?

Í skrifum og tali manna sem flytja eða rita reiðilestra um hve allt sé vonlaust á Íslandi, spilling mikil, misskipting ógurleg, stjórnmálamenn hryllilegir o.s.frv. Töluvert til í þessum staðhæfingum en ofsi e.m.o.v.s-liðsins blindar það. Það gerir alltof mikið úr vandanum, rökstyður ekki mál  sitt heldur  bölsótast, talar í sleggjudómum, klisjum og frösum. Stíllinn er móðursýkiskenndur  og stöðugt er verið að væna hinn og þennan um hitt og þetta, hina og þessa um hvaðeina. Svo virðist vera sem standpínukeppni sé í gangi meðal e.m.o.v.s.-liðsins. Sá sem fordæmir ástandið með sem gressilegustum hætti vinnur keppnina.

Eru þeir sem eru hinum megin í pólitíska litrófinu skárri? Varla, þar vaða uppi auðvaldsbullur og hægrirasistar (a.b.o.h.r.). Reyndar eru auðvaldsbullurnar ekki endilega rasistar og rasistarnir ekki endilega auðvaldsbullur. Auðvaldsbullurnar LÍÚfróðu eru t.d. sjaldan hægrifroðu rasistar. Annars nenni ég ekki að ræða um a.b.o.h.r., margir hafa gert þeim góð skil og hakkað bull þeirra niður, t.d. hinir vösku blaðamenn Stundarinnar.

Dæmi um e.m.o.v.s.

Víkjum aftur að e.m.o.v.s, vilji menn ofskammt af því gætu menn reynt að lesa vanstillingarskrifin á jonas.is.  Eða litið á lesendabréf í Kjarnanum frá því í fyrrasumar  þar sem raðað var saman reiðifrösum um ástandið á Íslandi  og Sigmundur Davíð og Vigdís Hauksdóttir beðin um að éta sk…Ég hef vægast sagt lítið álit á þessum tveimur stjórnmálamönnum en svona dónaskapur á ekki heima í málefnalegu blaði eins og Kjarnanum. Stundar-greinin eftir  Hallgrím Helgason, sem ég gerði að umtalsefni nýskeð, er í e.mo.v.s. stíl. Greinin er einn allsherjar reiðilestur, engin staðhæfing rökstudd og ekki vitnað í heimildir. Reyndar er hún  skemmtileg aflestrar og sannleikskjarninn stór í boðskap hennar en  e.m.o.v.s.-inn  eyðileggur hana. Annað sorglegt dæmi um e.m.o.v.s. er pistill  Ólafs Arnarsonar „Ísland, spilltasta land í heimi?“ Vissulega mælist Ólafi vel um margt sem miður fer á Fróni   en  gerir meira en að gefa í skyn að hann gjaldi jáyrði við spurningunni. Sé svo þá veit hann ekki mikið um spillingu. Veit hann að í Úkraníu þurfa foreldrar að múta kennurum svo börn þeirra fái sæmilega einkunn, læknum á ríkisspítölum til að fá læknisþjónustu? Veit hann að þýski stjórnmálamaðurinn Franz-Josef Strauß þáði  mútur frá stórfyrirtækjum árum saman? Veit hann að íslensk blaðakona afhjúpaði  hrikalega spillingu á Írlandi?   Er honum kunnugt um pólitíska frændhygli Krata á Norðurlöndum og hrikaspillingu vestanhafs þar sem auðfyrirtæki  fá auðlindir á gjafaverði? Stundarlesendur þekkja ágæta grein um spillingu á Spáni.

Ísland er tvímælalaust spilltast Norðurlanda nú orðið því valdabrask og frændhygli skandínavískra krata  er að mestu horfið. En landið kemur samt þokkalega vel út úr rannsókn  Transparency International, er talið 13 til 14 síst spillta land heimsins, af 187 löndum. Hér er margs að gæta, staðtölur eru ekki heilagar og spillingarvísindi eðli sínu samkvæmt ónákvæm fræði. Hvað sem öðru líður eigum við ekki að sætta okkur við neina spillingu og hana nú! Trúi menn (eins og e.m.o.v.s.-arnir) því að Ísland sé gegnsýrt af spillingu gæti  þeim fallist hendur,  þeir gætu talið  baráttu gegn spillingunni dæmda til að misheppnast. Eða þeir gerist spilltir sjálfir, þeir hugsi sem svo að allir séu hvort eð er spilltir, af hverju megi þeir þá ekki vera það? Þannig er e.m.o.v.s.hjalið um spillingu ekki gott baráttutæki gegn henni, öðru nær.  Betra tæki eru yfirvegaðar og skynsamlegar greinar manna eins og Jóns Ólafssonar. Hann er ávallt málefnalegur  og hófstilltur í skrifum en um leið þrælgagnrýninn, ekki síst á íslenska spillingu.

 Hvað e.m.o.v.s.liðið varðar þá gæti það afkristnað heilt sólkerfi, það eyðileggur fyrir góðum málstað með reiðiöskrum og rökleysum. Sama hvað gerist þá vill það trúa því allt sé grábölvað á Íslandi. En af hverju telur hið virta læknisfræðitímarit Lancet á Íslandi sé heilbrigðisástandið betra en annars staðar á jarðarkringlunni? Mér vitanlega hefur enginn e.m.o.v.s.i nefnt þessa rannsókn aukateknu orði, hvað þá rannsóknir sem sýna eiga að staða kvenna sé betri á Íslandi en annars staðar, farsæld óvíða meiri o.s.frv. E.m.o.v.s.arnir sjá það sem þeir vilja sjá.

E.m.o.v.s. og kötturinn Garfield

Þeir  eru eins og teiknimyndakötturinn Garfield. Einhverju sinni var kisa í þunglyndskasti og hugsaði „engum líkar við mig, enginn elskar mig“. Eigandinn kemur aðvífandi og vill vera góður við kisu en hún bara hvæsir. Svo fannst Garfield sem þunglyndið væri  að hverfa og flýtti sér út í rigninguna til að viðhalda vanlíðaninni. Sjá menn hliðstæðuna hjá e.m.o.v.s.liðinu?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu