Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Bjarni Ben, tískurökin og heilbrigðiskerfið

Bjarni Benediktsson sagði nýlega að það væri gamaldags að vera á móti arðgreiðslum í heilbrigðiskerfinu. Kalla má þetta «tískurök» þar eð forsætisráðherra talar eins og það sé gefið að hið  nýjasta nýja sé það besta. Þannig hugsar tískuhyskið. Beiti maður slíkum tískurökum mætti afgreiða frjálshyggjuna sem gamaldags, hún er jú ættuð frá sautjándhundruðogsúrkál. Þess utan er hún ekki lengur í tísku og hlýtur því að vera afleit.

Gamalt vín á nýju belgjum

Að gamni slepptu má nefna að kenningar í gallhörðum raunvísindum,  sem taldar voru afsannaðar,  gera stundum  «kommbakk» með stæl. Eðlisfræðingar töldu lengi að kenning Newtons um að ljósið samanstæði af eindum væri afsönnuð. En viti menn! Hinn íturklári Einstein dustaði rykið af henni og betrumbætti  hressilega. Í ljósi þessa ætti ekkert að vera neitt gegn því að gamlar samfélagskenningar komi aftur í nýjum og betri búningi. Frjálshyggjan var af mörgum talin gamaldags og úr sér gengin en reis úr öskustónni  á árunum upp úr 1970. Af hverju skyldi andóf gegn gróðahyggju ekki geta gengið í endurnýjun lífdaga líka? Reyndar hafa slíkar vinstrihugmyndir öðlast nýtt líf eftir fjármálakreppuna 2008. Nægir að nefna kenningar hins vaska Pikettys og hugmyndir þeirra Rifkinds og Masons um stafrænan sósíalisma.

Heilbrigðiskerfið og jafnvægisleysið

Forsætisráðherra segist ekki skilja af hverju menn séu á móti einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Hann virðist ekki vita að margir þeirra eru fremur á móti einkavinavæðingu í heilbrigðiskerfinu en einkarekstri sem slíkum. Sporin hræða. Þess utan hníga veigamikil rök að því að einkarekstur virki ekki sem skyldi á heilbrigðissviðinu. Ein ástæðan er tvíþætt ójafnvægi á heilbrigðismarkaðnum: Annars vegar er ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu hefur engin gefin mörk, teygni eftirspurnar er firnamikið. Kannski finnst ríkisbubbanum hann vera sjúkur ef honum leiðist og borgar lækni fúlgu fyrir leiðalækningu. Teygni framboðs aftur á móti er lítið, það er flókið, dýrt og tekur langan tíma að mennta starfsfólk í heilbrigðisstéttum. Hins vegar er ójafnvægi milli þekkingar markaðaðila: Læknar og aðrir sem veita heilbrigðisþjónustu hafa að jafnaði miklu meiri heilbrigðis-þekkingu en sjúklingarnir. Þekking þessara aðila er því ósamhverf (e. asymmetric). Ekki þýðir að beita Friedmansrökum um að lausnin sé að láta hvaða Gunnu og Sigga sem vera skal geta kallað sig „lækni“. Það myndi þýða að það að leita að hæfum læknum yrði mjög erfitt og kostnaðarsamt, sjúklingurinn kannski dauður áður en hann finnur hæfan lækni.

Ástandið vestanhafs

Lítum á ástandið vestan hafs eins og það var fyrir daga Obamacares (það sem hér segir að neðan er ættað úr bók minni Kredda í kreppu, bls. 317-321). Að sögn bandarísku hagsstofunnar var um 15% bandarísku þjóðarinnar án sjúkratrygginga árið 2007, rúmur fjórðungur naut opinberra sjúkratrygginga, restin var tryggður hjá einkaaðilum. Athyglisverð er sú staðreynd að Bandaríkjamenn verja stærri hluta af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála en Vesturevrópumenn, næstum tvöfalt meira árið 2007, ef trúa má upplýsingum OECD. Samt taldi Alþjóða heilbrigðisstofnunin bandaríska heilbrigðiskerfið ekki nema hið þrítugastaogsjöunda besta í heimi árið 2000, verra en heilbrigðiskerfið í þriðjaheimsríkinu Marokkó. Heilsufar virðist almennt lakara í BNA en í velferðarríkjunum, til dæmis er ungbarnadauði  mun meiri vestur þar. Ekki er óalgengt  að útigangsfólk deyi drottni sínum þar, annaðhvort vegna þess að það fær enga læknismeðferð eða þá hrekkur það hreinlega upp af ófeiti. Stór hluti þessara útilegumanna eru sagðir  geðsjúklingar sem ekki hafa ráð á geðsjúkrahúsvist. Rannsókn sem gerð var árið 1996 sýndi að yfir helmingur amerískra útigangsmanna væri geðveikur. Paul Krugman var  (og er)  ómyrkur á máli um ástand heilbrigðismála vestanhafs og  sagði (árið 2007)  að lausnin væri  almannatryggingar að vesturevrópskri fyrirmynd. Nóbelshagfræðingurinn  segir að gagnstætt því sem margir halda sé ekki skemmri bið eftir skurðlækningum vestanhafs en í velferðarríkjum eins og Þýskalandi og Frakklandi. Hann bætir við að ekki þýði heldur að beita “en-við-étum-meiri-draslfæðu“-rökunum því rannsóknir sýni að munur á sjúkdómamynstri í BNA og öðrum vestrænum ríkjum hafi mjög lítið að segja um heilsugæslukostnað. Hið meira eða minna einkarekna ameríska heilbrigðiskerfi sé einfaldlega ekki skilvirkt og almenningi skaðvænlegt, segir Krugman. Tryggingafélögin reyni að draga úr kostnaði með því að neita að selja heilsuveilu  fólki tryggingar eða láta það borga himinhá iðgjöld. Þeir sem mesta þörf hafi fyrir tryggingar séu síst líklegir til að fá þær! Ekki þýði að reyna að fá tryggingafélögin til að breyta um stíl. “Góða” tryggingafélagið sem ekki reyni að losa sig við að borga fyrir dýra læknisþjónustu myndi fá hina heilsulausu í hausinn og fara á hausinn (!) þess vegna. Almannatryggingar eigi ekki við slíkan vanda að etja og séu því líklegri til að þjóna hagsmunum þeirra sem mesta þörf hafi fyrir heilsugæslu. Auk þess sé rekstrarkostnaður og skrifræði minna hjá ríkisheilsugæslu en einkafyrirtækjum. Gífurlegur tími og fé fari í togstreitu milli einkaaðila innan heilbrigðiskerfisins um það hverjum beri að borga. Auk þess noti fyrirtækin mikinn tíma, orku og peninga í að berjast gegn því að þurfa að borga fyrir læknisþjónustu. Um 15% af fjármagni þeirra fari í stjórnun og annað slíkt, aðeins 2% hjá hinu ríkisrekna Medicare. Ef litið sé til Kanada með sitt almannatryggingakerfi þá fari aðeins um 17% af heilbrigðisútgjöldunum í stjórnun, 31% af útgjöldum hins meira eða minna einkarekna ameríska kerfis. Til að bæta gráu ofan á svart þá hafi tryggingaraðilar í BNA lítinn hvata til að borga fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir. Þessir aðilar þurfi nefnilega að bera allan kostnaðinn af þessum aðgerðum en eigi á hættu að uppskera ekki af því sem þeir sá. Fólk skipti jú einatt um tryggingafélög og sé tryggt í ellinni hjá Medicare. Samt hafi bandaríska heilsugæslan sínar góðu hliðar, ekki síst vegna þess að ríkið borgar stóran hluta af brúsanum. Til dæmis borgaði ríkið 44% af heilbrigðiskostnaðnum vestra árið 2004, sagði Krugman.

 

Hvað sem því líður þá er einkaframtak í heilbrigðisgeiranum ekki án sinna kosta. Kannski virkar einkatryggingarkerfið betur í Sviss en í BNA. Og ekki má gleyma því að  á bandarískum einkaspítölum starfa bestu læknar heims. Meinið er að hinir fátæku njóta ekki þjónustu þeirra nema í undantekningartilvikum.

Lokaorð

Við höfum séð í þessari færslu að ekkert er gegn því að beita "gamaldags" rökum enda gera kenningar einatt "kommbakk".  Einkaframtak á heilbrigðissviðinu er ekki almenningi til hagsbóta nema í smáum skömmtum. Ástæðan er m.a. sú að vegna séreðlis þeirrar vöru sem verslað er með á heilbrigðismarkaði hefur framboðshliðin mun sterkari stöðu en eftirspurnarhliðin. Einnig er mikil hætta á einkavinavæðingu á heilbrigðissviðinu. Blandað heilsuhagkerfi er illskásti kosturinn en blanda ber vel, ekki má blanda einkavinum í þennan viðkvæma geira efnahagslífsins.

Drengirnir frá Engey mega svo eiga sín tískurök í friði.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu