Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Að brýna hnífa

Svo söng Örn Bjarnason forðum tíð:

 

„Ég spyr af löngun, ég vildi vita

hvort veltir þú aldrei fyrir þér,

að brýna hnífa og byssur fága,

Það brýst svo oft um í sjálfum mér.“

Ég spyr af löngun, ég vildi  vita hvers vegna  sum íslensk fyrirtæki  virðast nánast meðhöndla  erlenda verkamenn eins og þræla.

Ég spyr af löngun, ég vildi vita hvers vegna Síldarvinnslan greiðir meira í arð á árinu en sem nemur útgjöldum til launa.

Ég spyr af löngun, ég vildi vita hvers vegna hlutur gróða af þjóðarframleiðslunni hefur á síðustu áratugum aukist mun meir en hlutur launa.

Ég spyr af löngun ég vildi vita hvers vegna útgerðarmenn hirða svona rosalega stóran hluta af rentunni.

Ég spyr af löngun, ég vildi vita hvers vegna Borgun var seld fyrir slikk.

Ég spyr af löngun,  ég vildi vita hvers vegna fjármálafyrirtæki veita nánast einvörðungu lán með okurvöxtum.  

Ég spyr af löngun,  ég vildi vita af hverju auðkýfingar leggja undir sig fjölmiðla og meðhöndla blaðamenn eins og skít.

Ég svara af löngun: Brýnum raka-hnífa, ekki rakhnífa, fágum byssur góðra kennda, ekki skammbyssur.  Mér er ofbeldi eitur í beinum.

En svo virðist sem auðstétt Íslands sé í stéttarstríði við almenning. Menn hafa rétt til að verja hendur sínar.  Blessunarlega eru til varnarleiðir af friðartagi.

Beita ber skipulegu  sniðgengi við svínfyrirtæki, sniðgengi sem skipuleggja má á netinu.

Mikilvægt er líka að stunda mótmælastöður fyrir framan íverustaði þessara ólánsfyrirtækja og hamast gegn þeim í ræðu og ritu. Auk þess má beita verkfallsvopninu gegn þessum fyrirtækjum.

Mikilvægast er þó að kjósa rétt í næstu kosningum og stuðla að myndun stjórnar sem þjónar hagsmunum alþýðu manna. Stjórnar  sem hefur að markmiði að auka jöfnuð,  koma á uppboðskerfi fyrir aflaheimildir, stuðla að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi og endurskoða samninga álfyrirtækja við Landsvirkjun. Stjórnar sem athugar möguleikann á að afnema verðtryggingu lána. Stjórnar sem gerir skurk í stjórnarskrámálum. Stjórnar  sem sýnir siðuðum einkafyrirtækjum  fyllstu kurteisi en flatmagar ekki fyrir auðmönnum og stórfyrirtækjum. Stjórnar sem er öldungis óspillt. Stjórnar sem leitar markaðslausna þar sem þær eiga við, eflir ríkisþátttöku þar sem það á við.

Til þess að svo megi verða verður að senda tvíflokkinn í langa, langa útlegð frá stjórnarráðinu.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu