Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Að láta sér nægja álver

Að láta sér nægja álver

Fyrir um það bil 200 árum síðan var ákveðið að færa allar stofnanir til Reykjavíkur. Þá var mörkuð byggðastefna sem virðist því miður ekki hafa breyst mikið síðan, kannski í orði, en tæplega á borði.

Nú ætla ég ekki að halda því fram að landsbyggðirnar séu arðrændar af höfuðborgarsvæðinu. Læt öðrum eftir að deila um það. En ég ætla að halda því fram að í krafti fólksfjölda, yfirburða aðgangs að stjórnsýslu og annarri þjónustu séum við fyrir löngu lent í vítahring þar sem höfuðborgarsvæðið virkar eins og svelgur sem sogar til sín meir og meir af auðlindum landsbyggðanna. Þar á ég ekki síst við mannauðinn.

Nú vil ég setja þann fyrirvara að ég er ekki halda því fram að fólk á höfuðborgarsvæðinu hafi það markmið í lífinu að sjúga kraftana úr landsbyggðunum. Ég held að ástandið í byggðamálum í dag sé miklu frekar afleiðing þess að ekki hefur markvisst verið horfið frá áðurnefndri byggðastefnu.

Nú hafa Húnvetningar fengið þá hugmynd, jah ekki kannski íbúarnir allir en einhverjir þeirra, að reisa álver til að efla atvinnulífið. Það er ekki svo vitlaus hugmynd. Það að reisa álver er nefnilega að mörgu leyti miklu betri og einfaldari hugmynd en að gera þetta margumtalaða “eitthvað annað”. Það er nefnilega þannig að ríkisstjórnin er ekkert líkleg til að gera ívilnanasamning um “eitthvað annað”. Bankar eru heldur ekkert sérstaklega ginnkeyptir fyrir að lána í “eitthvað annað”. Nei, þetta “eitthvað annað” virðist bara ekki vera nógu stórt og einfalt.

Mörgum höfuðborgarbúum finnst álver ekki góð hugmynd. Jafnvel ekki heldur mörgu landsbyggðarfólki. Jafnvel einhverjum á Norðvesturlandi. Jafnvel sumum Húnvetningum. En það er ekki auðvelt að rökræða þetta við fólk sem er í byggðakrísu og upplifir störfin á staðnum verða fábreyttari og lengra frá áhugasviði unga fólksins með hverjum deginum sem líður. Í álver þarf fólk með allskonar menntun. Stjórnendur og sérfræðinga meðal annars.

Þetta krefst auðvitað fórna. Álver er ekkert fallegt. Það þarf fáránlega mikla orku þrátt fyrir að skapa tiltölulega fá störf ef deilt er niður á megavött. Það er ólíklegt að Blönduvirkjun muni fullnægja þörfinni fyrir rafmagn í álverið. Líklega neyðumst við til að fórna í það minnsta annarri Jökulsá þeirra Skagfirðinga.

Það er heldur ekki víst að marga húnvetnska unglinga dreymi um að vinna í álveri. Kannski er það meira hugsun foreldra þeirra að þeir séu betur settir í álveri en á skrifstofu í Reykjavík og heimahagarnir farnir í eyði. Það er einhversstaðar skiljanleg afstaða.

En svo er hægt að hugsa þetta út frá öðru sjónarhorni: Ætla Húnvetningar að láta sér þetta nægja? Hvað varð um loforð ríkisstjórnarinnar um að dreifa störfum?

Sem dæmi má nefna að nú er verið að setja af stað nýtt verkefni hjá Menntamálaráðuneytinu sem snýr að því að efla læsi. Þar hefur verið auglýst eftir 10 sérfræðingum og einum teymisstjóra. Í auglýsingunni var tekið fram að störfin yrðu staðsett á höfuðborgarsvæðinu en að unnið yrði með skólastjórnendum, kennurum og nemendum um allt land. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hluti sérfræðinganna staðsettur annarsstaðar á landinu?

Þann 12. maí 2014 samþykkti Alþingi stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014-2017. Þar segir meðal annars um dreifingu opinberra starfa: „Stefnt verði að því að á gildistíma áætlunarinnar snúist fækkun opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins í fjölgun með nýjum verkefnum eða tilflutningi verkefna.“

Hvers vegna láta Húnvetningar sér nægja að sættast á hugmyndir um álver þegar búið er að lofa þeim fjölbreytilegum störfum sem henta menntuðu fólki? Þetta er eitthvað sem við náttúruverndarsinnar, um allt land, ættum að hugsa um. Kannski er jafn mikilvægt, eða jafnvel mikilvægara, að þrýsta á stjórnvöld um að samþykkja og fylgja eftir byggðastefnu sem skiptir máli eins og að beina spjótum að fólki sem grípur eina tækifærið sem boðið er upp á?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu