Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Virðum sköpunina

Um það bil 20 þúsund störf eru í skapandi greinum. Tuttugu þúsund fást við kvikmyndir, sviðslistir, hönnun, bókaútgáfu, grafík og önnur skapandi störf. Það eru fleiri en starfa í nokkrum iðnaði á Íslandi nema hugsanlega ferðamennsku sem þó er ekki ótengd menningarheiminum. Samt er lítil virðing borin fyrir menningarstarfi og það hefur sérstaklega einkennt þetta kjörtímabil.

Áhugalaus menningarmálaráðherra

Núverandi menntamálaráðherra hefur lítið ráðfært sig við almenning. Þegar hann talar við kennara talar hann í boðhætti og virðist aðallega upptekinn af því að skilja eftir sig arfleifð frekar en að byggja á þeim grunni sem fyrir er. Hann er stjórnmálamaður sem veit betur hvernig krakkar eiga að læra að lesa og hvernig kennarar eiga að kenna.

En þegar kemur að listum er ekki einu sinni talað í boðhætti. Samtal á sér einfaldlega ekki stað. Þrátt fyrir óskir frá listamönnum er opinber tölfræði ekki söfnuð með reglulegum hætti um þátt sköpunar í hagkerfinu. Opinber stuðningur við listgreinar er ekki kortlagður, árangursmældur eða verkefnastyrkir skilgreindir þrátt fyrir óskir listamanna. Það er ekki nóg að bara útdeila fé, það þarf líka að fylgjast með í hvað það fer og hverjar niðurstöðurnar eru. Þess vegna ættu skapandi greinar að vera mældar í þjóðhagsreikningum með sama hætti og aðrar atvinnugreinar eru skráðar.

Vanrækt rannsóknarvinna

Rannsóknir á sviði lista eru kerfisbundið vanræktar. Meðan aðrir háskólar verja nærri þriðjungi af sínu fjármagni til rannsókna er listaháskólinn með það undir 10%. Það skýrist af langvarandi fjársvelti, en starfsfólk þar er með lægstu laun starfsfólks á háskólastigi og vinnur í ótryggu og óviðunandi húsnæði. Þetta kemur niður á skrásetningu og varðveislu. Við erum að glata tónverkum og öðru efni í miklu magni af því að enginn sinnir rannsóknum á þessu sviði.

Ein aðgerð sem gæti strax jafnað stöðuna væri að skapandi greinar hefðu fulltrúa innan Rannís sem kæmu að úthlutun rannsóknarstyrkja. Hingað til hafa umsóknir ekki verið metnar af viðeigandi fagaðilum, t.d. fræðimenn úr hugvísindum fengin til að meta umsóknir sem varða rannsóknir á hönnun í stað hönnuða. Þetta kemur í raun helst niður á nýsköpun í atvinnulífinu, því fáir eru duglegri í að skapa nýjar vörur og upplifanir en hönnuðir eða myndlistarfólk í rannsóknarvinnu.

Vanræktur háskóli

Á engu sviði er listafólki sýnd meiri vanvirðing en þegar kemur að menntun þess. Það var löng barátta fyrir því að stofna listaháskóla, en hann var svo settur upp sem sjálfseignarstofnun aðallega svo hægt væri að rukka himinhá skólagjöld. Þetta kemur niður á jafnrétti til náms. Ef frumvarp menntamálaráðherra um LÍN nær að ganga fram mun það koma hart niður á listamönnum framtíðarinnar, þeir munu þurfa að greiða háar upphæðir til baka í framtíðinni til að eiga fyrir skólagjöldum. Svo er heldur engin skynsemi fólgin í því að listafólk greiði há skólagjöld meðan lögfræðingar og verkfræðingar fá nám sitt ókeypis. Sér í lagi ef menntamálaráðherra hyggst afnema tekjutengingar LÍN þannig að listamenn og leikskólakennarar þurfi að greiða meira á meðan bankastjórar greiða minna tilbaka.

Listaháskólinn hefur verið í langvarandi fjársvelti þrátt fyrir mikilvægi sitt fyrir uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi. Á hverju ári tapar hann í það minnsta 50 milljónum bara fyrir það eitt að vera ekki í sínu eigin húsnæði. Það sem verra er, enginn menntamálaráðherra hefur tekið af skarið og sett fram langtímasýn um hvar hann eigi að vera í framtíðinni.

Margt hefur enn ekki verið framkvæmt sem hefði átt að klára fyrir mörgum kjörtímabilum. Nýjan landspítala, hús íslenskra fræða, og mörg þúsund nýjar íbúðir vantar af því fólk hugsar ekki nema fram að næstu kosningum.

Nokkrir milljarðar hefðu sparast í fjárveitingum ef húsnæði fyrir listaháskólann hefði verið reist samhliða stofnun. Skammsýni verður því að hætta að ráða för. Þess vegna skora ég á næsta menntamálaráðherra að hitta fulltrúa frá Reykjavíkurborg og hollvini Listaháskólans og komast að sameiginlegri niðurstöðu með þeim.

Ekki gera eins og Sigmundur Davíð og mæta með teikninguna eins og þú vilt hafa hana. Hlustaðu á þarfir skólans. Eftir áratugi á vergangi, í hripleku húsnæði sem hefur þurft að kljást við myglusveppi, lélega hitaeinangrun og ekkert hjólastóla-aðgengi í mörgum tilvikum er komið gott. Það er kominn tími á langtímasýn í listmenntun og að hafa skapandi greinar með í ráðum.

Höfundur er rithöfundur og frambjóðandi Pírata í Reykjavík Norður.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu