Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Við þurfum ekki að vera ósammála

Við þurfum ekki að vera ósammála

Það er margt sem við getum verið ósammála um en við þurfum ekki að vera ósammála um að nemendur eigi ekki að verða veikir bara af því einu að mæta í skólann. Það er hins vegar upplifun mörg hundruð háskólanema sem hafa útskrifast í gegnum tíðina frá Listaháskóla Íslands. Myglusveppir eru skæð plága og margir Íslendingar kannast við hann. Hárlos, þunglyndi, útbrot og ógleði, auk ýmis konar fæðuóþols. Þetta fór ekki framhjá mér persónulega, þetta fór ekki framhjá konu minni en bæði lærðum við listir við Sölvhólsgötu. Þá voru liðin tíu ár síðan LHÍ var stofnað og fyrir löngu tímabært að sameina húsnæðin. Hefði LHÍ verið komið með eitt sameiginlegt húsnæði árið 2008 þegar „góðærinu“ lauk endanlega og þynnkan tók við þá hefði það sparað skólann heilan milljarð. Því það hefur reynst skólanum ótrúlega dýrt að vera í aðskildum húsnæðum, og nú lýsi ég svolitlu sem nærri allir á leigumarkaði kannast við, óstöðugleika og ófyrirsjáanleika. Það er dýrt að þurfa að flytja á milli húsa, setja upp skrifstofur, koma upp verkstæðum og æfingaraðstöðu aftur og aftur. Það er dýrt að aðlaga sláturhús að þörfum menntastofnunar, dýrt að geyma tækjabúnað í raka og kulda. Það er dýrt að þurfa að reka fimm mötuneyti í staðinn fyrir eitt, fimm bókasöfn í staðinn fyrir eitt, og það er synd að þurfa að leggja niður mötuneyti, leggja niður bókasöfn, einfaldlega af því háskólinn þarf að skera niður til að geta haldið áfram.

(Þú myndir ekki vilja læra flautuleik eða Brechtíska framandgervingu í þessu rými).

Spáið í því næst þegar þið hlustið á píanókonsert eða farið á sýningu í þjóðleikhúsinu, að fólkið þar gæti hafa orðið fyrir heilsutjóni sökum þess hversu lengi stjórnmálin á Íslandi hafa hunsað grafalvarlegt ástand. Allar lausnir sem áttu að vera tímabundnar hafa reynst varanlegar. Danslist á Íslandi hefur verið kennd út í skúr í tíu ár. Sama gildir um ýmist hljóðfæranám á háskólastigi. Við eigum að hafa metnað til að gera betur. Það myndi líka spara okkur slatta af pening, og ef nemendur í skólanum þjást ekki af höfuðverk, þunglyndi, ógleði eða fæðuóþoli fyrir vikið þá er til mikils unnið.

(Sem betur fer er þessi mynd bara gjörningur ... held ég).

Fyrir utan allar íbúðirnar sem hægt væri að reisa á reitunum sem myndu losna! Hvað erum við að spá, rífum þessa mygluðu kumbalda og byggjum eitthvað almennilegt. Þetta þarf ekki að vera neitt sem við verðum ósammála um, við getum rifist um stjórnarskrá, klukkuna, kvótakerfið og fundarstjórn Alþingis, en enginn ætti að rífast um hvort háskólanemar þurfi að þola kennslu innan um myglusvepp. Það á ekki að vera til umræðu.

E.S. Ég er að biðja þingmenn úr öllum flokkum að styðja þessa þingsályktun. Koma svo, allir með. Gerum Listaháskólann að þjóðarstolti! :)

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni