Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Skilið húsinu framsókn!

Skilið húsinu framsókn!

Viðgangast mútur á Íslandi?

Ólafur Ólafsson gaf framsókn þetta hús og mánuði síðar fékk hann banka.

Já, þú last rétt. Ólafur gaf hús og fékk mánuði síðar banka. Framsókn fékk hús og Ólafur ókeypis banka. Í raun er ótækt eftir að þessi blekking hefur fengist staðfest, eftir að í ljós kom að Ólafur með tengslum sínum við framsóknarflokkinn náði að ræna banka (maðurinn hefur þegar setið inni núna fyrir svona blekkingarleiki), það er ótækt að framsókn haldi þessu húsi lengur. Og það er margt annað sem má gera við það. Það vantar aðstöðu til að aðstoða heimilislaust fólk í Reykjavík og ný æfingarrými fyrir tónlistarnema.

Skorið á framsókn með því að skrifa undir hér.

En fyrst smá um mútur:

Dómsmálaráðherra vakti athygli um daginn þegar hún taldi enga þörf til að herða reglur um mútur á Íslandi. Hennar eigin ráðuneyti er með tilbúið frumvarp, þar sem tilraunir til að múta stjórnmálafólki verða að broti sem varðar sex ára fangelsisdóm. Þetta fannst henni ekki aðkallandi, en OECD kallaði eftir því og ráðuneytið fór sem betur fer að þeirra tilmælum.

Margir stjórnmálamenn hafa haft orð á því að tilraunir til að múta þeim hafi verið gerðar. Davíð Oddsson sagðist hafa fengið tilboð um 300 milljónir frá Jón Ásgeir, en þriðji aðilinn í því samtali hefur verið þögull sem gröfin þó maður myndi halda að slíkt tilboð væri nægilega eftirminnilegt til að maður gæti fullyrt hvort slíkt boð hefði komið á fundinum. Sigmundur Davíð er annar forsætisráðherra sem gasprar og er yfirleitt lítið að marka, en fullyrðingar hans um að reynt hafi verið að múta sér hljóta að kalla á rannsóknir. Jafnvel þótt fyrrum forsætisráðherra sé sennilega ekki alveg jarðtengdur (vægast sagt) þá er málið þess eðlis. Þegar fyrrum forsætisráðherra segir að kröfuhafar hafi reynt að múta sér þá þarf rannsókn. Svo kom Össur Skarphéðinsson með facebook-status um mann sem gerði tilraun til að múta honum með 300 þúsund krónum.

Það er ekki sama Samfylking og sjálfstæðisflokkur, ekki sama 300 þúsund eða 300 milljónir. Eða jú, kannski. Kannski bara stigsmunur og bæði jafnglæpsamlegt. Flott hjá Össurri að henda manninum út af skrifstofunni eins og hann segir í sama status, en af hverju kærði hann ekki manninn?

Alls kyns mútur hafa tíðkast í íslensku samfélagi. En við köllum þær styrki. Eða heldur fólk kannski að sjávarútvegsfyrirtæki hendi milljónum í prófkjör sjálfstæðismanna upp á djókið? Þessi sömu fyrirtæki og tíma ekki að borga fiskverkunarfólki mannsæmandi laun hljóta að sjá margföld mánaðarlaun fiskverkunarfólks sem arðbæra fjárfestingu. Enda er hún það. Þingmenn sjálfstæðisflokks eru fyrir vikið að berjast fyrir lækkun veiðigjalda og reisa mannvirki fyrir almannafé sem sömu fiskveiðifyrirtæki nýta sér.

Við erum full naív en þó hefur ýmislegt áunnist. Það þykir ekki lengur við hæfi að flokkar eins og framsókn og sjálfstæðisflokkur þiggi himinháar peningagjafir frá bönkum og fjárfestingahópum. Bjarni hefur lofað að greiða aftur 50 milljón króna FL-group gjöfina sem Guðlaugur (núverandi utanríkisráðherra skaffaði), það er ágætt loforð þó enn sé það óefnt.

En þetta eru ekki alltaf peningagjafir. Eða hvað köllum við framsóknarhúsið við Hverfisgötu, fasteign sem er tugmilljón króna virði og Ólafur Ólafsson framsóknarmaður og kaupfélagsstjóra-sonur gaf sínum flokki mánuði áður en flokkurinn gaf honum banka.

Framsókn fékk hús. Ólafur fékk banka. Þessi gjöf var mun meira virði en þessar 50 milljónir sem sjálfstæðisflokkurinn þáði af FL-group. 

(frá visir.is, þessi mynd sýnir það sem pabbi Sigmundar kallar snilldarfléttu)

En líkt og peningagjöfin hjá FL-group þá er þetta illa fengið. Og svona þýfi á að skila. Ekki til Ólafs. Nei hann á nóg af fasteignum og lóðum, og hefur ekkert við enn eitt húsið að gera.

Framsókn gæti gefið húsið. Það vantar nýja miðstöð fyrir heimilislaust fólk í Reykjavík. Svo er mygla á þriðju hæð listaháskólans og tónlistarnemendum vantar nýja kennsluaðstöðu, framsóknarhúsið myndi henta fínt enda í göngufjarlægð frá skólanum.

Það mætti líka gefa félagi íslenskra múslima húsið með afsökunarbeiðni fyrir hvernig framsókn magnaði upp hatursorðræðu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.

Já, margt gott mætti gera. En það er ótækt að halda húsinu, nema manni finnist í lagi að þiggja mútur. En þá verða menn kannski að breyta lögunum, í augnablikinu varðar það fjögurra ára fangavist að þiggja mútur og það er hreinlega ekki pláss í fangelsum landsins fyrir alla framsóknarmenn.

E.S.
Þarf ég að minna á undirskriftasöfnunina? Geri það samt:

https://www.petitions24.com/skilið húsinu framsókn

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni