Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Sársaukinn og þjáningin

Ég þekki sársaukann og þjáninguna. Ég þekki sársaukann og þjáninguna af því að lesa leiðinlega, þunglamalega og torskiljanlega námsgagnatexta. Illa þýdda, hroðvirknislega unna, óstílfærða, klunnalega og andlausa texta. Það er ekki margt hægt að skrifa um menntamálastofnun en það sem Ragnar Þór hefur hripað niður, nema bara að taka undir kröfur um fagmennsku og metnað.
Þetta er nefnilega bara brot af stærra vandamáli, almennu metnaðarleysi gagnvart sjálfstæði landsins. Sjálfstæði landsins er fyrst og fremst menningarlegt verkefni sem felur í sér ábyrgð gagnvart varðveislu sögunnar, tungumálsins og er tilgangslaust nema maður hafi einhvern metnað fyrir því. Heildarmyndin er þessi: Fráfarandi stjórn og menntamálaráðherra hafa verið metnaðarlítil og löt. Illugi setti sér það eitt markmið að bæta lestrarskilning íslenskra ungmenna á ráðherratíð sinni. Hann sólundaði peningum í herferðir sem gengu meira út á að kynna hann sjálfan heldur en nokkuð annað, skrifaði undir innihaldslitlar yfirlýsingar sem styrktu miðstýringu þvert á ráðgjöf fagfólks og drógu úr sköpunarkrafti kennara. 

Arfleifð hans er, þrátt fyrir yfirlýsingar, síversnandi frammistaða á prófum og lestrarskilningur. Þrátt fyrir meiri áherslur á próf, sem fagfólk hefði getað sagt áhugasömum að væri ekki að fara að virka. En það er eins og að reyna að sannfæra einhvern um að gereyðingarvopn séu ekki einhvers staðar.

Vafalaust eru sumir vinir ráðherrans óþreyjufullir í að kenna unga fólkinu um enda allar kynslóðir sem vaxa úr grasi iðjuleysingjar, óöguð og vanþakklát. Aðrir vilja kannski kenna kennurum um, sem ekki síður eru iðjulausir, vanþakklátir og heimtufrekir í þokkabót. Nokkra sjálfstæðismenn hef ég séð halda því fram að kennurum sé of vel greitt miðað við árangur. Svo er þriðji skólinn sem vill meina að þetta sé allt símunum að kenna og að unglingarnir ráði ekkert við sig vegna athyglisbrests.

En getur verið að ráðherra sem leyfir Listaháskólanum að rotna að innan af myglusvepp, holu íslenskra fræða að fyllast af vatni, háskólum að lenda í hættu vegna fjárskorts (#HáskólarÍHættu) og fær gervalla kennarastéttina upp á móti sér eigi mestu sökina?
Voru það kennararnir, voru það börnin? Var það kannski ráðherrann sem var of latur?
Hann var svo sannarlega of latur til að mótmæla því þegar borgaryfirvöld í Feneyjum niðurlægðu Ísland með því að loka framlagi landsins til stærsta myndlistaviðburðar í heimi. Það hefur meira að segja reynst manninum ofviða að kveða á um framtíðarstaðsetningu Listaháskólans.

Er helsta afrek Illuga kynningarferðin sem hann fór fyrir Orka-energy í Kína? (Sem ég ætla rétt að vona að hafi sannfært leigusalann um að fella niður leiguna þann mánuðinn og jafnvel láta rafmagnið fylgja ókeypis með.)

Ekkert verkefni er svo smátt að ráðherrum í fráfarandi ríkisstjórn hafi ekki tekist að klúðra því. Heilbrigðismálin eru í hryllilegu ástandi. Samgönguáætlun ófjármögnuð. Öll atvinnusköpun stöðnuð. Hvað er í alvöru að gerast í ferðamálum? Er gistináttagjald, er komugjald, eru almenningsklósett?

Þessari stjórn tókst meira að segja að taka ríkissjóð sem var hallalaus þegar stjórnin tók við árið 2013 og keyra hann í halla í miðju góðæri. Það er afrek. En vart við öðru að búast þegar manni sem tekst að reka bensínstöð með einokunarstöðu á markaði í þrot (er að tala um Bjarna Ben og N1), og tekst að gera Sjóvá gjaldþrota með turnabraski í Macau (já, líka Icehot1). Í húsnæðismálum var stjórnin verklaus og í samningum við kröfuhafa samdi hún af sér. Hanna Birna, Illugi og Ragnheiður Elín hafa afrekað það að vera verstu ráðherrar Íslandssögunnar ef frá eru taldir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð, sem fá líka þann vafasama titil að vera þeir spilltustu. Sigurður Ingi gæti hins vegar verið sá dýrasti, hann ber ábyrgð á því að enn ríki einokunarverslun á Íslandi og án eftirlits.

Menntamál og heilbrigðismál hafa verið vanrækt og jafnvel vísvitandi eyðilögð á þessu kjörtímabili. Samráð við fagfólk var í lágmarki. Reyndar voru stjórnvöld í stríði við fagfólk í tíma og tíma og tíma. Ömurleg frammistaða Íslands í Pisaprófinu var því bara rúsína í frekar rotnum pylsuenda, smátt verkefni sem lötum ráðherra tókst ekki að leiða til lykta. Ekkert verkefni er því miður of smátt til að ráðherra í stjórn Sigmundar og nú Sigurðar Inga takist ekki að klúðra því. Vonandi ná fimm flokkar samkomulag núna á eftir um að koma duglegra fólki að.

Já, ég þekki líka sársaukann og þjáninguna af því að hafa stjórn sem maður þarf að skammast sín fyrir að hafa á alþjóðavettvangi. En það særir mig mest að hafa haft metnaðarlausan mennta og menningarmálaráðherra, því það er nefnilega arfleifð þeirra sem lifir lengst.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu