Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Illa leikið og endurtekið efni- tvær stjörnur

Illa leikið og endurtekið efni- tvær stjörnur

Mikið rosalega var vandræðalegt að fylgjast með Bjarna Benediktssyni í sjónvarpinu í gær. Það er eins og hann verði verri í því að fara með ósannindi með hverju árinu sem líður. Berum t.d. saman frammistöðu hans í Kastljósinu 11. febrúar 2015. (Myndband hér).

Helgi Seljan: Hefurðu sjálfur átt viðskipti í gegnum það sem skilgreint er sem skattaskjól, átt þar eignir eða farið með peninga í gegnum svoleiðis apparöt?

Bjarni: Nei, ég hef ekki verið með neinar í skattaskjólum. Ég hef ekki verið með neitt slíkt. Og á engin hlutabréf eða neina slíka hagsmuni í dag.

Helgi Seljan: Þannig að þú hefur aldrei átt eignir eða átt viðskipti í gegnum þessi svokölluðu skattaskjól?

Bjarni: Nei það hef ég ekki gert.

Árið 2015 var Bjarni mjög öruggur í lyginni og horfði beint í augu Helga, án þess að hristast eða líta undan. Að vísu glennti hann augun til að virðast, að því er mér sýnist, aðeins barnslegri og einlægari. (Meira um það síðar, í öllu falli var þetta að mínu mati sem gagnrýnandi trúverðugur leikur).

Núna snemma árs 2017 virðist komin pínu þreyta í flutninginn. Sem leikari hefur Bjarni nokkur stíleinkenni. Hann getur verið sannfærandi þegar hann er brúnaþungur og reiður, margir uppnefna hann reiða Bjarna og leiða Bjarna til skiptis. Það verður þó ekki tekið af manninum að hann túlkar tilfinningar á máta sem er auðlesinn af öllum áhorfendum. Laugardaginn sjöunda janúar kom hann með þessi gamalkunnu trix. Hann vísaði allri gagnrýni á bug (sem er alltaf góður eiginleiki fyrir leikara), fullyrti að skýrsla sem unnin var um skattaundanskot hefði komið til hans eftir þinglok og að hann sæi ekkert í henni sem hefði skipt máli fyrir kosningar.
„Það getur enginn maður vitað,“ sagði Bjarni og þó vissulega sé allt í heimi hér afstætt þá verður að segjast eins og er að það má færa býsna góð rök fyrir því að skýrsla um að skattaundanskot hafi kostað íslenska ríkið um 810 milljarða (hvað eru mörg Icesave í því?) hefði skipt máli. Við gætum sennilega gert heilbrigðisþjónustu gjaldfrjálsa í Kína miðað við hvernig krónan hefur styrkst fyrir þá upphæð. (Nei, ég er ekki hagfræðingur, ég er leikhúsgagnrýnandi, hví spyrðu?) Hvort sem sú hagfræði stenst eða ekki þá greini ég mannlegar tilfinningar nægilega glögglega til að vita að reiði yfir svikum, lygum og óheiðarleika í þessum málum er einmitt eitthvað sem gerði kosningarnar í haust óhjákvæmilegar. Skýrslan skipti máli og það var því ekki tilviljun að Bjarni birti hana ekki.

Annað sem skýrslan segir frá sem skiptir máli er að íslenska ríkið hafi í raun hvatt til skattaundanskota. Að stjórnvöld hafi stuðlað að þessum óheiðarleika með stefnu sinni, og þess vegna hafi stórfyrirtæki og milljarðamæringar á Íslandi hagað sér öðruvísi en þau í Noregi, Danmörku og vestur-evrópu almennt.

Þrátt fyrir að geifla sig á kunnuglegan máta er Bjarni ekki jafnsannfærandi og svo oft áður. Þarna er á ferð letilegur ofleikur. Strax daginn eftir sunnudaginn áttunda janúar var hann kominn í sjónvarpið og virtist ekki kunna línurnar sínar. Hrynjandinn var lélegur, framsögn óskýr og Bjarni leit reglulega til hliðar líkt og hann væri að rifja upp hvað hann átti að segja. Gott ef hann var ekki að spinna þetta upp á staðnum.

Þessu verður að linna!

En skoðið bara sjálf muninn á honum. Hér er hann í fyrstu frétt, laugardaginn sjöunda, reiður og ákveðinn, pirraður á spurningum, vísandi gagnrýni á bug, talandi um að þetta sé allt bara pólitík og þvættingur (alveg rétt). Svo er hann hérna, ráðvilltur og spinnandi daginn eftir. (Einnig fyrsta frétt).

Nú játar hann eftir að búið er að koma upp um augljósan þvætting. Skýrslan kom til hans áður en þingi var slitið og hann ákvað að leyna henni. Er búinn að leyna henni í þrjá mánuði. Þetta er svipað og þegar hann tafði ríkisskattstjóra í því að kaupa gögn um skattaskjól árið 2015, nema flutningurinn miklu bagalegri. Kannski er þetta sami svipurinn, sömu dökku augu sem glenna sig barnslega til að miðla einlægni milli þess sem brúnirnar þyngjast til að gefa til kynna um að maðurinn kæri sig alls ekki um að vera þarna og svara öllum þessum spurningum. Hann játar að þingi hafi alls ekki verið slitið á þessum tímapunkti. (Eins og það skipti höfuðmáli, þarf þing að vera starfandi til að stjórnsýsla sé eins gagnsæ og mögulegt er?) Hann játar að hann hafi verið með pólitík og þvætting deginum áður en segir orðrétt:
„Mér leið eins og þingið væri farið bara heim.“

Það er aldrei hægt að meta hvort leikur sé einlægur og einlægni er ekki eini mælikvarðinn á hvað telst góður leikur. En við getum rætt trúverðugleika, hvort við áhorfendur teljum leikinn trúverðugan. Í þetta skiptið verð ég að gefa falleinkunn. Handritið virðist vera unnið í miklum flýti og inniheldur veigamiklar þversagnir, en í höndum góðs leikara hefði mátt gæða því lífi. Framsögnin er ágæt, Bjarni er afar skýrmæltur, en virðist einungis hafa örfá tól í leikaraboxi sínu. Aðalgallinn er þó að þetta er sami flutningur og við höfum séð oft áður og slík endurtekning er lýjandi.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur fært okkur marga af helstu leikurum þjóðarinnar, og fáir leikflokkar hafa jafn strangar þjálfunarbúðir. Menn fá greinilega góða tilsögn í framsögn, og þrátt fyrir einhæft persónugallerí (svona í alvöru talað er ekki hægt að skrifa nein hlutverk handa leikkonum yfir fertugu?) þá er persónusköpunin skýr. Kökuvídjóið sem birtist um árið var frábært dæmi um slíkt. Þarna var opnað upp á gátt og barnaafmæli meira að segja sviðsett. Hver annar myndi taka upp á slíku? En þrátt fyrir íburðamiklar skreytingar er eitthvað sem vantar.

Kannski er það eins og Sigríður Jónsdóttir á Fréttablaðinu myndi orða það: skortur á tilfinningalegri tengingu. Að þarna sé Bjarni að fara með klassíska rullu landsföðursins en nái ekki að vekja þær mannlegu tilfinningar sem þó hljóti að vera kjarni slíkra sýninga.

Eða eins og Jón Viðar Jónsson kæmist kannski að orði:
Eflaust hugsar leikarinn með sér: Já nú er ég enn eina ferðina sloppinn inn í helgustu vé íslenskrar stjórnsýslu. Forsetinn getur ekki stoppað mig, hann myndi aldrei þora að banna mér neitt. Ég segi bara það sama og alltaf og allir klappa, og ég treð svo Bjartri framtíð í útikamar af því bara, af því ég get það.

Í þessu tilviki gætu bæði haft rétt fyrir sér þó svo ég sé yfirleitt ósammála þeim báðum. Ég held að við flest viljum fá eitthvað annað en þetta vanalega leikhús, æ þetta er nú klunnalega orðað hjá mér, hvað á ég eiginlega við? 

Niðurstaða: Tvær stjörnur. Úr sér gengið handrit og klisjukenndur leikur sem laus er við allar mannlegar tilfinningar nema hreinan pirring og valdhroka. Bjarni er afar ósannfærandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu