Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Fyrsta kosningaloforð Sigmundar Davíðs

Fyrsta kosningaloforð Sigmundar Davíðs

Er ekki kjörið tækifæri að rifja upp fyrsta kosningaloforð Sigmundar nú þegar hann hefur misst formannsembættið? Ákvað að uppfæra aðeins fyrstu auglýsinguna hans:
Fyrir rúmum eitt þúsund árum settu Íslendingar á laggirnar þjóðþing.
Alþingi.* Á hátíðis og tyllidögum erum við stolt af sögu þessarar æðstu og elstu sameiginlegu stofnunar landsmanna.

       Nú er svo komið að Alþingi er máttlaust, ráðherrar ráða of miklu á kostnað hins þjóðkjörna þings. Framsóknarflokkurinn telur Píratar telja brýnt að samin verði ný og nútímaleg stjórnarskrá** sem tryggir styrk og sjálfstæði alþingis. Stjórnarskráin þarf að setja ráðherrum skorður, tryggja öflugt lýðræði, réttlæti, gagnsæi og skilvirkni í samfélaginu. Framsóknarflokkurinn hefur Stjórnarskrárfélagið og fólk úr ýmsum flokkum, þ.m.t. Pírötum hafa barist fyrir því að ný og framsækin stjórnarskrá verði samin af sérstöku stjórnlagaþingi þar sem eigi sæti þjóðkjörnir fulltrúar almennings í landinu.***

Aðskilnað löggjafar og framkvæmdavalds þarf að skerpa til muna og ráðherrar, fulltrúar framkvæmdavaldsins eiga ekki að gegna þingmennsku. [Innskot: Píratar eru með þá kröfu í stjórnarsamstarfi að ráðherrar gegni ekki samhliða þingmennsku, þeir taka því heilshugar undir þetta loforð Framsóknar árið 2009].

Við viljum að valdið verði fært meira í hendur almenningi. Þess vegna þarf að auka heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu. Við kosningar til Alþingis og sveitastjórna þarf að búa svo um hnúta, að kjósendur geti í auknum mæli valið persónur en ekki flokka, jafnframt þarf að jafna vægi atkvæða á landsvísu [Innskot greinahöfundar: Hallelúja, tek heilshugar undir.]
Stór hluti þess að lýðræði virki er að fagleg og málefnaleg vinnubrögð séu í heiðri höfð. Við viljum að stjórnvöld hlusti á gagnrýni, beri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og leiti faglegra lausna í álitamálum á grundvelli samvinnu og ráðgjafar, innlendrar sem erlendrar.
Fjölmiðlar, fjórða valdið, þurfi að vera fjölbreytilegir og ritstjórnir þeirra þurfi að vera sjálfstæðar og eignarhald á fjölmiðlum gagnsætt.
Framsóknarflokkurinn er lýðræðisflokkur. Kosningarnar 25 Apríl eru haldnar að frumkvæði framsóknarflokksins eftir ríka og skiljanlega kröfu almennings þar um í búsáhaldabyltingunni. Við kunnum að hlusta, við kunnum að bregðast við. Þjóðin þarf lýðræðis-umbætur. Framsóknarflokkurinn vill aðgerðir núna.

Kosningarnar 29 október eru haldnar eftir ríka og skiljanlega kröfu almennings þar um í fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar til að koma í veg fyrir þessar kosningar hefur verið látið undan þessari kröfu. Ríkisstjórnin hefur svikið loforð um þjóðaratkvæðagreiðslur og grafið undan grunnstoðum samfélagsins, eins og t.d. heilbrigðis og menntakerfi með algeru stefnuleysi. Kornið sem fyllti mælinn var svo þegar upp komst um verulegar og vafasamar eigur í skattaskjólum hjá báðum aðilum. Það var alger trúnaðarbrestur, skattamálaráðherra með eigur í skattaskjóli og forsætisráðherra að semja við kröfuhafa (en á sama með verulegar kröfur í íslensku bankanna).

Nú er komið gott. Það er kominn tími á öðruvísi stjórnmálafólk, sem meinar það sem það segir þegar það lofar nýrri stjórnarskrá, aðskilnaði framkvæmdavalds og öðrum umbótum. Kjósendur ættu að fara varlega í að trúa tali Sigmundar um afnám verðtryggingar eða lánavaxta. Hann var formaður Framsóknarflokksins þegar sami flokkur lofaði nýrri stjórnarskrá og hefur síðan þá verið aðalbaráttumaðurinn gegn kerfisbreytingum. Kröfuhafar íslensku bankanna gengu sáttir frá borði eftir samningaviðræður, greiddu sínu fólki háa bónusa og tóku tilboði ríkisstjórnarinnar án þess að hugsa sig tvisvar um.


*Textinn er pírataður úr kosninga-auglýsingu Framsóknar frá árinu 2009. Staðreyndin er auðvitað sú að Alþingi var alls kyns hlutir en ekki beint þing í þeim skilningi sem við leggjum í orðið í dag og mér leiðist frasinn „oldest parliament in the world“ sem ég heyri stundum leiðsögumenn nota. Inn á „parliament“ eru vissulega stunduð hrossakaup, en ekki bókstaflega hrossakaup, hjónavígslur, hólmgöngur og annars konar viðskipti.
** Það ferli hefur að mestu verið klárað, vantar bara eitt þing upp á að staðfesta.
***það var gert.

P.S. Er ekki nokkuð ljóst af þumlinum sem Jón Sigurðsson gefur okkur að hann myndi kjósa Pírata?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu