Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Áskorun: Uppfærum Listaháskólann!

 

Maður var varla kominn út úr RÚV eftir upptökur hjá Víðsjá þegar uppáhaldsalþingiskona mín Valgerður Bjarnadóttir bauð mér far. Ég sagðist vera á leið í Hafnarfjörð með strætó en þakkaði gott boð. Við höfðum verið saman fjögur, hún frá Samfylkingu, Ásta Bryndís Schram og svo auðvitað Þorvaldur, Albaníu-Valdi eins og hann er stundum kallaður og milli okkar fjögurra var fín stemning. Ég spurði Valda hvað honum þætti um sósíal-realisma og hvort alþýðufylkingin væri búin að taka abstrakt list í sátt, off the record, en annars skaut enginn á neinn.

 

 

Tíminn hins vegar var of stuttur. Það eru mörg framboð og þau munu öll þurfa að eiga nokkur orð um menningu og menningarmál. Flestir munu segja að það þurfi að hlúa að menningu, styðja við hana, efla starfsemi listaháskólans og söfn.

 

 

Við í Pírötum höfum ekki hripað niður nein falleg orð. Við höfum menntastefnu sem talar um að gera ekki upp á milli iðnnáms, bóknáms og lista. Það verður að segjast eins og er, að á háskólastigi er nemendum í listnámi gróflega mismunað. Þeir þurfa að greiða af meiri námslánum því þeir borga hærri skólagjöld fyrir verri aðstöðu en aðrir nemendur á háskólastigi.

 

 

Ég skora hér með á næsta menntamálaráðherra að komast að niðurstöðu um staðsetningu Listaháskólans. Þetta er ekki eitthvað til að þræta um fram og til baka um ókomin ár. Auðvitað eru menn skotnir í ýmsum staðsetningum og ég sé góð rök fyrir því að staðsetja LHÍ í Vatnsmýri nærri HR eða HÍ, (stutt í bókhlöðu og mætti samnýta mötuneyti), ég sé fín rök fyrir Miðbæ og fín rök fyrir nýrri byggingu í Lauganesi. Byrjum á því að ákveða, síðan getum við farið að úthluta peningum í byggingu.

 

 

Hvert sem ég hef farið á síðustu dögum er fólk ósátt. Mygluð húsnæði, léleg laun, skortur á fjármagni og virðingu frá stjórnvöldum. Ég vona að þetta sé martröð sem fari bráðum að enda. LHÍ ætti að vera í forgangi í menningar og menntamálum, á undan ýmsum söfnum (sem þó ætti að vera löngu búið að reisa). Þegar ég hóf nám í LHÍ árið 2005 var mér tjáð að húsnæðið væri til bráðabirgða. Á Íslandi er til bráðabirgða því miður teygjanlegt hugtak, okkar stjórnarskrá sem samþykkt var 1944 af alþingi er líka til bráðabirgða. Sennilega ætti þjóðsöngur Íslands að vera: Íslands þúsund ár, eitt bráðabirða smáblóm með titrandi tár.
Að þessu sögðu er óréttlát að stöðugt sé níðst á listamönnum alveg frá upphafi ferils síns fram á grafarbakka. Listnám á háskólastigi verðskuldar líka hús og ég skora hér með á aðra frambjóðendur í svipaðri stöðu og ég, úr Bjartri Framtíð, Samfylkingu og VG, þið hafið öll flott orð í stefnu ykkar en þið hafið líka símann hjá Óttarr Proppé, Katrínu Jakobs og Oddnýju, ég skal hringja í Birgittu, Smára og Einar, þið tæklið hin. (Og svo skulum við öll tækla spillingu í leiðinni). Listamenn björguðu okkur úr kreppunni og við þurfum að bjarga listaháskólanum, bjarga honum svo næsta kynslóð listamanna geti reddað okkur fyrir horn í næstu kreppu.

 

 

Eða hvað, haldið þið að ég sé að ýkja, væri einhver ferðaþjónustu-uppgangur ef ekki væri fyrir okkar stærstu listamenn, rithöfunda tónlistamenn, hönnuði og svo Björk og Eyjafjallajökul?

LHÍ í deiliskipulag og þaðan inn í framtíðar sóknaráætlun Íslands í atvinnumálum. Þetta er þjóðaröryggismál.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu