Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

A+C+V, stjórn sem meikar sens

A+C+V, stjórn sem meikar sens.

Skoðum stefnumál flokkana á blaði. Viðreisn og Björt Framtíð eru nánast eins. Björt Framtíð er fyrir fólk sem vill kjósa frjálslyndan miðjuflokk og getur hugsað sér að kjósa mann í karrígulum jakkafötum, Viðreisn er fyrir fólk sem vill kjósa frjálslyndan miðju-hægriflokk, helst í gráum jakkafötum og fyrrum sjálfstæðismann.

Þessir flokkar eru borgarflokkar, skilja ágætlega vægi skapandi greina, þekkingariðnaðar, eru ekki fjandsamlegir gagnvart konum eða almannasamgöngum. Á blaði eiga þeir fátt sameiginlegt með sjálfstæðisflokkinum. Þeir boða kerfisbreytingar í landbúnaðarmálum (formenn atvinnunefnda hjá þeim eru ekki framkvæmdastjórar MS samtímis), kerfisbreytingar í sjávarútvegi og stjórnarskrárbreytingar. (Þótt þeir vilji ganga mislangt).

Til að ná áherslum sínum í gegn þurfa þeir samstarfsaðila. Geta þeir fengið Sjálfstæðisflokkinn til að skera upp herör í launajafnrétti, að skilja að hagsmunir sjávarútvegsins vegi ekki alltaf ofar öðrum atvinnugreinum, eða fengið hann til að klára aðildarviðræður við ESB? (Af því þannig færi þjóðaratkvæðagreiðslan, fyrri).

Sennilega ekki.

Á hinn bóginn er VG nokkuð opin í þessum efnum. Myndi styðja hugmyndir viðreisnar um jafnlaunavottun, svo sannarlega ekki standa í vegi fyrir stuðningi við nýsköpun eða nútímalegan iðnað, gæti alveg gefið eftir í tollamálum og er til í þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Það er ekki pólitískur ómöguleiki.

Svo væri það bónus að fá óumdeildan forsætisráðherra í Katrínu Jakobsdóttur sem flestir landsmenn gætu sætt sig við. Líka sjálfstæðismenn.

Undir lok kjörtímabils væri stjórnin búin að gera hófsamar breytingar á stjórnarskránni (líkt og Viðreisn talar fyrir, en sjálfstæðisflokkur lokar á), stjórnin væri búin að leiða erfitt mál til lykta (við gætum hætt að rífast um ESB og einfaldlega séð innihaldið í samningnum) og þingið myndi læra að vinna saman með minnihlutastjórn.

Þessi stjórn er alveg möguleiki, hún er miklu betri möguleiki en hitt. Sjálfstæðisflokkurinn er óhagganlegur í sínum málum, enda kominn út í hugmyndafræðilegar villigötur með inngöngu sinni í AECR. (Sömu evrópusamtök og pólskir og tyrkneskir öfgahægrimenn velja sér). Forsætisráðherra-efni hans er ekki óumdeilt, og þótt sumir sjái mann sem baki kökur þá myndi það vera skelfilegt fyrir okkur að fá annan Panama-forsætisráðherra. Hrunið á ímynd Íslands út á við væri ekki einu sinni það versta.

Mér hrís hugur við hversu gallsúr stemningin yrði í þjóðfélaginu við næsta lekamál. (Þau voru tvö á þessu kjörtímabili, og það er ekki hægt að útiloka að við fáum á næstu árum upplýsingar um hvað hefur gengið á í hinum bönkunum líka ... þetta er allt bara toppurinn á ísjakanum). Þessi hækkun kjararáðs á launum embættismanna og alþingismanna er bara byrjunin á þeirri blautu tusku sem reglulega verður sleginn fram í andlit Íslendinga út þetta kjörtímabil ef fólk er nógu vitlaust til að leiða sjálfstæðismenn til valda.

Við getum forðast það ef við sýnum ábyrgð og sveigjanleika. Það eru til þingmenn utan þessara flokka sem eru til í að verja þá stjórn falli, svoleiðis hlutir gerast líka í siðuðum löndum eins og skandínavíu (menn semja í stað þess að hreinn meirihluti valti yfir alla). 
Vonandi sjá menn í gráum og karrýgulum jakkafötum hag í því að fremja ekki pólitískt sjálfsmorð.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu