Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Það sem við segjum ekki

Það sem við segjum ekki

Meðvirkni. Gesturinn sem fer ekki. Og allt það sem við segjum ekki, en vitum, vitum, vitum og dílum ekki við.

Þetta er klassískt þema í ansi mörgum leikritum. Sér í lagi leikritum þar sem tvö pör eru í heimsókn hjá hvort öðru, eða öllu heldur eins og í Stertabendu. Upp að vissu leyti sameinar leikrit Marius Von Mayenburg hádramatískt stofuleikrit og farsa, þar sem allir sofa hjá öllum eða eltast við að sofa hjá hvort öðru.

Þýðingin á Perplex yfir í „Stertabendu“ er vel gerð, og þá sér í lagi titillinn sem vísar í tvö hross sem eru bundin saman í tagl. Titillinn vísar í óreiðu og sýningin er vissulega óreiðukennd, þó aldrei svo að maður nái ekki auðveldlega að fylgjast með. En maður er allan tímann meðvitaður um að maður er í leikhúsi, leikarar nota sín eigin nöfn líkt og í upprunalegri uppfærslu og maður hefur á tilfinningu að maður sé að horfa á spuna. (Það er viss hrár ferskleiki í öllu, galgopi sem kemur bæði frá handriti og því hvernig Gréta Kristín leikstýrir þessu.) Stertabenda er leiksýning sem veit að hún er leiksýning, sem veit að pörin tvö hljóta að hafa eitthvað óuppgert og þurfa því að vera á sviðinu þennan klukkutíma.

Þegar ég sá þessa velheppnuðu sýningu varð mér hugsað til tveggja annarra leiksýninga sem voru frumsýndar fyrr í vor. Það er að segja Old Bessastaðir og Illska, sem eru um margt líkar og ólíkar Stertabendu, en snerta á svipuðu þema, þ.e.a.s. þjóðernishyggjunni. Miðað við tímasetningu Stertabendu sem var útskriftarverkefni í vor mætti kannski tala um bylgju leiksýninga sem velta upp þjóðernishyggju og þjóðarímynd.

Undir öllu í Stertabendu, líkt og myglusveppur innan spítalaveggja (eða listaháskóla) hvílir Helförin. Það sem ekki má tala um, það sem fólk forðast að nefna í grímubúningapartýinu. Augljóslega er þetta ekki eins djúsí tabú á Íslandi og það er í Þýskalandi, en tilfinningaleg viðbrögð áhorfenda voru engu að síður sterk.

Mögulega smituðust leikarar, leikstjóri og hljómsveit af stemningunni í samfélaginu þegar þau unnu að verkinu. Þegar óhreini skíturinn vall upp úr ræsinu, sprungurnar í vegginum gáfu undan og úldin fúkkalykt dreifðist út um allt. Þegar það kom í ljós að formaður og varaformaður, skattamálaráðherra og dómsmálaráðherra áttu eignir í skattaskjóli. 

Æ, við skulum bara gleyma því og baka kökur. Skipta svo um grímu, um hlutverk og láta eins og það sem við vitum sé eitthvað sem við vitum alls ekki, og að í raun sé ekki hægt að vita neitt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni