Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Að eitra traustið

Stundum veit ég ekki hverju ég á að trúa.

Hvort ég ætti að trúa því sem stendur á pakkanum út í búð: lífrænt, vistvænt, hollt og gott.

Það er svo sannarlega ekki ódýrt, svo mér finnst eins og ég eigi rétt á smá hreinskilni.

En, svo virðist vera sem að framleiðendur deili ekki þeirri skoðun. Og svo framarlega sem eftirlit með þeim er lélegt þá komast brúnu eggin upp með að eitra allt traustið á hinum.

Það er grafalvarlegt mál að MAST neiti fjölmiðlum um upplýsingar sem þeir hafa núna innandyra um dýraníð og önnur framleiðslu„leyndarmál“.

Eftirlit snýst um traust og að sjá til þess að fólk komist ekki upp með svik. Það snýst um ábyrgð.

Stjórnendur MAST ættu að axla ábyrgð og segja upp. Þeir starfsmenn sem börðust fyrir því að neytendur yrðu upplýstir ættu að fá jólabónus og gott ef ekki stöðuhækkun.

Síðan ætti að færa MAST yfir í eitthvað annað ráðuneyti. Landbúnaðarráðherrar hafa sýnt sig vanhæfa til að tryggja neytendavernd. Mögulega gæti stofnunin átt heima undir umhverfisráðherra eða innanríkisráðherra.

En svo sannarlega vona ég að stofnunin fari ekki aftur undir framsóknar eða sjálfstæðisráðherra.

Þessir flokkar hafa kerfisbundið grafið undir öllu eftirliti á Íslandi, af því viðskiptafélagar og flokksmeðlimir eiga að græða á meðan svindlað er á öðrum Íslendingum.

Eitt mikilvægasta verkefni næstu ríkisstjórnar er að endurvekja traust. Það þýðir að alþingi verður að auka gagnsæi í stjórnsýslunni þannig að MAST komist ekki upp með að neita fjölmiðlum um svör, um hvort enn sé verið að leyna dýraníði á Íslandi.

Ég er kominn með nóg af kjötlausum kjötbökum, sykurdrullumjólk og eitruðu iðnaðarsalti.

Það þarf svo sannarlega að Endurræsa Matvælaeftirlit á Íslandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni