Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Nútíminn er furðulegur

Nútíminn er furðulegur

Í þessari viku framkvæmdu óprúttnir aðilar rafrænar peningafærslur að  andvirði c.a. 1 milljón króna í gegnum Bitcoin (samtals um 33 BTC), en upphæð hverrar greiðslu var tæplega 0.09 krónur. Færslurnar voru því tugmilljónir talsins, og þurfti gríðarlegt reikniafl til að staðfesta hverja greiðslu. Þetta hægði verulega á öllum réttmætum viðskiptum. Að jafnaði tekur um 10 mínútur að staðfesta færslu, en vegna þessarar "árásar" hefur tekið allt upp í 14 tíma að fá staðfestingu. Ekki er vitað hver gerði þetta, eða hvers vegna, en margir eru reiðir.

(Margir fjárfestar og frumkvöðlar í Bitcoin-hagkerfinu hittust á ráðstefnu á einkaeyju Richards Bransons í Karabíuhafi fyrir nokkrum vikum. Ekki er ljóst hvaða umræður áttu sér stað þar, en í kjölfarið hafa töluvert mörg fyrirtæki í Bitcoin-bransanum fengið frekar stórar fjárfestingar. Meðan allir voru að bíða eftir að evran félli um daginn hrökk verðið á Bitcoin upp um 10%.)

Ekki er vitað hver stóð fyrir þessari árás, en það er vitað að viðtakendur færslanna eru samtökin Wikileaks og Voat. Voat er samfélagsmiðill sem spannst út frá Reddit, vegna óánægju með þær takmarkanir á tjáningarfrelsi sem eiga sér stað þar. Wikileaks eru alþekkt fyrir að miðla gögnum frá afhjúpendum, meðal annars nýlegar upplýsingar um að bandaríska leyniþjónustan hafi njósnað um Frakkland, Þýskaland og Brasilíu í mun meira mæli en áður var vitað.

(Umræður hafa verið uppi meðal dulmálsfræðinga og annarra undanfarna viku um hvort það sé ekki hægt að byggja nýjan samfélagsmiðil í anda Reddit eða gamla góða Usenet, sem væri þeim eiginleikum búinn að vera lýðræðislegur og óritskoðanlegur. Það er frekar óheppilegt að örfá fyrirtæki stjórni flestöllum samskiptum á heimsvísu, hvort sem þau heita Facebook, Google, Twitter eða hvað... þessi fyrirtæki hafa á vissan hátt meiri völd en flest ríki, en ólíkt flestum ríkjum lúta þau ekki lýðræðislegri stjórn.)
 
Á síðasta kjörtímabili náði David Cameron ekki að koma í gegn lögum sem myndu banna öll dulkóðuð samskipti í Bretlandi, vegna andstöðu meðstjórnarflokks síns. En eftir kosningasigur í vor er hann byrjaður að berja á þá trumbu aftur, á þeim grundvelli að eingöngu hryðjuverkamenn gætu viljað tryggja öryggi sinna samskipta. Af furðulegum sökum hefur ekkert heyrst í bönkum, 
kreditkortafyrirtækjum, og öðrum sem eiga allt sitt undir því að leynilegar
upplýsingar fari dulkóðaðar um netið. Líklegast vilja þau ekki benda á hversu fáranlegt það er að banna fólki að eiga örugg samskipti af ótta við að fá á sig hryðjuverkastimpilinn -- enda vita líka allir að ef bannið er sett á mun því bara vera framfylgt gagnvart þeim sem fara í taugarnar á bresku 
ríkisstjórninni.

(Einn helsti sérfræðingur Evrópu um friðhelgi einkalífsins, Caspar Bowden, lést í vikunni eftir vonda glímu við krabbamein. Hann var einn 
 þeirra sem barðist gegn því á sínum tíma að fjarskiptatæki yrðu útbúin með sérstökum bakdyrum sem leyniþjónustur gætu notað til að njósna um fólk. Ég man eftir honum sem rosalega erfiðum og pirrandi manni, sem stóð alltaf fast á sínu, lét aldrei undan, og barðist alla tíð fyrir mannréttindum.)

Wikileaks hefur verið að vinna marga stórsigra undanfarið, meðal annars með því að afhjúpa TISA alþjóðasamninginn sem verið er að semja um í leyni, en nú er orðið ljóst að í þeim samningi eru ákvæði sem gefa fyrirtækjum heimild til að fara í mál við ríki, ef ríkið veldur þeim fjárhagslegu tjóni með ákvörðunum sínum. Til að mynda gæti fyrirtæki óskað eftir að fá að byggja upp þrælabúðir þar sem framleiddar væru jarðsprengjur, og ef ríkisstjórn myndi segja "nei-hei!" af eðlilegum siðferðislegum ástæðum, þá gæti fyrirtækið farið með málið fyrir
dóm og mögulega fengið skaðabætur greiddar vegna taps á áætluðum tekjum.

(Fyrir nokkrum dögum sagði kunningi minn mér að hann hafði neitað að leyfa dóttur sinni að fara í vettvangsferð með skólanum sínum, vegna þess að kollegar hans í stríðinu höfðu komið fyrir jarðsprengjum í dalnum þar sem vettvangsferðin átti að eiga sér stað. Hann sagði að fyrir hverja jarðsprengju sem var sett niður var logið upp allaveganna þrjátíu sprengjum í viðbót, en það borgaði sig ekki að taka áhættu.)

Síðastliðinn mánudag láku um 400GB af gögnum frá ítalska fyrirtækinu Hacking Team, sem framleiðir njósnahugbúnað sem seldur er til ýmissa aðila. Þar á meðal eru ríkisstjórnir eða leyniþjónustustofnanir landa á borð við Súdan, Rússland, Sádí-Arabía, Ungverjaland og Uzbekistan. Leyniþjónusta Azerbaijans keypti hugbúnaðinn fyrir um 46 milljón krónur, en fólkið í leyniþjónustunni þar kunnu ekki að nota hann. Það er kannski auðvelt að hlæja að svona vanhæfni, en þegar Ágúst Eðvald Ólafsson, lögreglufulltrúi í Tölvurannsókna- og rafeindadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var í samskiptum við Hacking Team um möguleg kaup á hugbúnaðinum féllu samskiptin niður, að því er virðist, eftir að ítalski sölumaðurinn stakk upp á því að frekari samskipti yrðu dulrituð til að gæta öryggis.

(Rússland virðist aldrei ætla að hætta að toppa sig í vitleysunni, þegar það
 kemur að mannréttindamálum. Á laugardaginn verða 20 ár liðin frá fjöldamorðunum í Srebrenica. Í tilefni þeirra var tillaga borin upp hjá Sameinuðu Þjóðunum um að lýsa því yfir að um þjóðarmorð hafi verið að ræða. Rússland notaði neitunarvald sitt, því það er víst ekki leyfilegt að kalla hlutina réttum nöfnum.)

Í öðrum fréttum: Tímaritið Vox stakk upp á því að nú væri rétti tíminn til að jafna Rússland við jörðu, því eldflaugavarnarkerfið þeirra er víst bilað. Donald Trump er í fyrsta sæti í kosningabaráttunni um tilnefningu bandaríska Republikanaflokksins til að verða næsti handhafi lyklavaldsins að einu stærsta kjarnorkueldfaugakerfi heims. Lögfræðiskrifstofa er starfandi í Bandaríkjunum þar sem aðeins einn lögfræðingur starfar, en honum til aðstoðar eru tvær stórtölvur. Mannkynið veit um rúmlega 2000 plánetur núna, en af þeim býr mannkynið á einni þeirra, og vélmenni á tveimur.

(Ég er búinn að vera undanfarna viku á landamærum Moldóvu og Transnistríu, að garfa í ýmiskonar gögnum sem snúa að spillingu innan moldóvska ríkisins. Þegar fólk hugsar um Moldóvu og Transnistríu, þá hugsar fólk um fátækt. Það er eðlilegt, enda mikil fátækt hér. Það hefur því verið svolítið absúrd að gista í tréskála úti í skógi og vinna við sundlaugarbakka  í glampandi sólskini, vitandi að handan nærliggjandi hóls er 14. herdeild rússneska hersins að bíða betri tíðar, en þau eru svo gott sem föst þarna í þessu skrýtna hálf-landi eftir að úkraínska þingið rauf samninga við aðstoð við hergagnaflutninga sem voru í gildi við Rússland.)
 
Kannski var heimurinn alltaf svona furðulegur.

(Kannski er ég eitthvað að misskilja?)

Það er allaveganna farið að votta fyrir rofi milli skynjunar og veruleika hjá mér, eða allaveganna ætla ég að vona það. Heimurinn er orðinn svo skrýtinn að ég er alveg hættur að ná að skilja þetta. 

(Þessi óraunveruleikatilfinning lifir innra með okkur öllum. Það veit enginn hvað gerist næst. Heimurinn er orðinn svo steiktur að það er orðið erfitt að trúa jafnvel hversdagslegum hlutum. En vonandi verður þetta allt í lagi.)

Sturlun heimsins er ekki lokið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu