Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Íslandistan?

Fyrir nokkrum dögum fór ég út að borða með nokkrum vinnufélögum mínum, sem vinna með mér að því að rannsaka og upplýsa um skipulagða glæpastarfsemi og spillingu út um allan heim. Ég ákvað að leggja fyrir þau þraut: þau ættu að giska á um hvaða land væri talað. Svo lýsti ég atburðarrásinni á Íslandi í kringum fjárkúgunartilraunina, um meint fjárhagstengsl Björns Inga og Sigmundar Davíðs, um fjandsamlegu yfirtökuna á DV, um samsetningu núverandi ríkisstjórnar, um einkavæðingu Kögunar á sínum tíma, og öðrum ýmiskonar staðreyndum sem lá beint við að flétta inn í reyfarann. Reyndi samt að hafa þetta eins hlutlaust og almennt og mögulegt var.

Þau voru strax fljót að byrja að reyna að útiloka staði. "Þetta hljómar eins og eitthvað sem gæti gerst í Austur-Evrópu, en ég hefði sennilega heyrt um það," sagði ein. "En þetta gæti svosem verið Moldóva, eða hugsanlega Hvíta-Rússland", bætti hún við. En nei, það gat ekki staðist: engar fjandsamlegar yfirtökur á fjölmiðlum, og þöggunartilburðirnir með allt öðrum hætti. Einn giskaði út í loftið á Singapúr, og fór svo að spyrja um ýmis Afríkulönd. Ekkert passaði. Önnur var sannfærð um að þetta hlyti að vera ófyrirsjáanlegt land, kannski í Vestur-Evrópu, því annars væri ég ekki að spyrja. "Portúgal? Nei, varla..."

Þetta gekk svona í nokkurn tíma. Eftir að hafa útilokað mestalla Austur-Evrópu, Mið-Asíu, Grikkland, Makedóníu og Úkraínu, og nokkur Miðausturlönd, gáfust þau upp.

Þau ætluðu sko ekki að trúa mér þegar ég sagði þeim að um væri að ræða Ísland. Ein sagði að hún hefði frekar giskað á Svíþjóð en Ísland, og þó væri Svíþjóð frekar fráleitur möguleiki -- sem er sérstakt, í ljósi þess að við afhjúpuðum stærsta spillingarmálið í sögu Svíþjóðar í síðustu viku.

En svona lagað gerist bara ekki í þróuðum lýðræðisríkjum. Eða hvað?

Ísland hefur á undraverðan hátt áunnið sér ímynd úti í heimi sem friðsælt og óspillt land þar sem lýðræðið er öflugt og virkt, valdaklíkur eru ekki til staðar, og samfélagið er almennt svo þroskað að vandamál eru leyst skynsamlega í samvinnu.

Ég er á því að við eigum ekki að leiðrétta ímyndina, heldur eigum við að leiðrétta það að ímyndin sé röng. Ísland gæti orðið þetta land, en fyrst þarf að hreinsa til.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu