Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hvar er kjarkurinn?

Hvar er kjarkurinn?

Það er hægt að horfa á verkfall hjúkrunarfræðinga og háskólamanna með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerði, að þar væri á ferðinni fólk sem lagði niður störf af einhverri eiginhagsmunasinnaðri grimmd og gerði óeðlilegar heimtingar á laun og aðstöðu. Það er alveg hægt, vilji maður það.

En það er líka hægt að horfa á þetta öðruvísi. Það er hægt að horfa á hjúkrunarfræðinga sem stétt sem hefur lagt á sig langt nám til að sérhæfa sig í umönnun fólks, vitandi það að þetta væri ekki hálaunastétt. Fólk sem kaus af hreinni manngæsku að tileinka sig því að þjónusta fólk í samfélaginu sem þarfnast hjálpar. Fólk sem tekur trekk í trekk hagsmuni almennings fram yfir sína hagsmuni -- vinnur löngum stundum, mjög oft á vöktum sem raska félags- og fjölskyldulífinu, og það allt fyrir smánarleg laun.

Þegar fólk hefur unnið áratugum saman að því að aðstoða fólk, og bíður alltaf með sína hagsmuni, þá er manni alveg óhætt að trúa að það gangi ekki fram af mannvonnsku eða frekju þegar það biður um aðeins meiri stuðning við sig.

Þetta gildir ekki bara um hjúkrunarfræðinga, heldur fjölmargar aðrar stéttir sem unnu áfram í gegnum hrunið þrátt fyrir miklar þrengingar, hertu bara beltið og héldu áfram að puða. Þótt einhverjir hafi leitað á betri mið -- og það skiljanlega -- þá tóku flestir íslendingar saman þungann af því að reisa landið upp úr feninu. Þeirri viðreisn er ekki lokið, en það sér til sólar og alveg eðlilegt að fólk fari nú að biðja um smá grið.

Að setja lög sem banna verkföll er grimmileg aðgerð. Þegar fólk hefur ekki verkfallsrétt, þá er verið að neyða það til að taka þá ákvörðun að hætta að vinna sína vinnu (sem mun koma sér mun verr fyrir samfélagið en verkfall), eða að sætta sig við það að vinna við óviðunandi aðstæður. Fyrir marga er ekkert val, af efnahagslegum ásatæðum, og það vinnur þá í raun áfram gegn vilja sínum. 

Ríkisstjórnin ber fyrir sig neyð, segir að fólk sé í lífhættu -- og reynir þannig að gera hjúkrunarfræðinga að vonda fólkinu í sögunni. Ríkisstjórnin slær sig þannig til riddara (aftur), verandi bjargvættur allra sem þurfa aðhlynningu. Ekki hjúkrunarfræðingarnir, heldur ríkisstjórnin.

Vandmálin á Íslandi eru mörg um þessar mundir, en ég er ekki frá því að stærsti vandinn sé valdhroki stjórnarflokkanna. Valdhrokinn sem gerir forsætisráðherra og fjármálaráðherra kleift að skreppa á fótboltaleik í stað þess að vinna vinnuna sína. Valdhrokinn sem lak af orðum Gunnars Braga Sveinssonar í síðustu viku: "Hver þorði að standa uppi í hárinu á kröfuhöfum? [...] Hver er það sem þorði að taka á Icesave? [...] Og hver þorði að lækka lán heimilanna? Hvar er kjarkurinn?"

Það er engu líkara en hann vilji að ríkisstjórnin fái klapp á bakið og ótakmarkaðan frípassa til að gera hvað sem þeim sýnist, fyrir það að hafa náð að "standa í hárinu á kröfuhöfum" með því að láta sérfræðinga í ráðuneytinu klára vinnu sem byrjaði 2011, fyrir að hafa "tekið á Icesave" með því að vera viðstaddir þegar Íslendingar kusu ítrekað gegn Icesave samningunum, og fyrir að hafa lækkað lán frekar fárra heimila að óverulegu marki (nema í tilfelli þeirra auðugustu) með gríðarlegum tilkostnaði fyrir ríkissjóð meðan lágtekjufólk og fólk á leigumarkaði fékk ekkert. (Já, við tókum eftir tilkynningunni úr fjármálaráðuneytinu morguninn sem stóra leikritið var flutt í Hörpunni.)

Ríkisstjórnin vinnur ekki auðvelt starf, og það er auðvelt að gagnrýna fólk sem situr í ríkisstjórn. Það er svo til alveg sama hvað er gert, einhver mun alltaf kvarta. En núverandi ríkisstjórn Íslands gæti sennilega gert sér og öllum öðrum greiða með því að slaka aðeins á í hrokanum og boðhyggjunni, auka aðeins á manngæskuna og umhyggjuna, og hlusta aðeins á fólkið í landinu sem hafði kjarkinn sem Gunnar Bragi var að spyrja eftir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu