Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Frelsið Khadiju!

Frelsið Khadiju!

Rétt í þessu dæmdi dómsstóll í Baku í máli vinnufélaga míns, Khadiju Ismayilovu. Hún fékk 7½ árs fangelsisdóm. Samkvæmt dómsstólnum er hún sök um að hafa hvatt til tilraunar til sjálfsmorðs, og fyrir skattsvik, fjárdrátt, kúgun og fleira. Raunveruleikinn er miklu alvarlegari.

Khadija gerðist í raunveruleikanum sek um að afhjúpa spillingarvefinn í kringum forseta Azerbaijans, Ilham Aliyev. Til að mynda sýndi hún fram á það 2010 að sonur Aliyevs, Heydar, sem var þá 11 ára gamall, væri skráður eigandi 9 glæsihýsa í Dubai að verðmæti 5.6 milljarða króna (44 milljón dollara). Síðar sýndi hún að önnur dóttir forsetans, Arzu, væri eigandi eins stærsta banka landsins, og ætti auk þess skeljarfyrirtæki sem væri búið að sölsa undir sig ríkisflugfélag Azerbaijan.

Árið 2012 kom í ljós að gull- og silfurnáma í Chovdar, sem var opinberlega rekið af bresku fyrirtæki í eigu þriggja panamískra fyrirtækja, væri að endingu í eigu dætra forsetans, Leylu og Arzu Aliyeva, ásamt móður þeirra, Mehriban. Ríkisstjórnin í Azerbaijan brást við þessari afhjúpun með lagabreytingu sem gerði það ólöglegt að birta upplýsingar um eigendur fyrirtækja án dómsúrskurðar eða leyfis eigendanna.

Khadija var handtekin í desember 2014 og hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan þá. Gæsluvarðhaldinu hefur verið ítrekað framlengt, en nýlega þegar réttarhöldin hófust loks bað Khadija um að fá að kalla til vitni og leggja fram sönnunargögn máli sínu til stuðnings. Þá var því svarað að þetta væru bara tilraunir til að tefja málið.

Frá því að hún var fangelsuð höfum við vinnufélagar hennar á OCCRP reynt að taka upp þráðinn á þeim rannsóknum sem hún var með í vinnslu. Þannig kom í ljós að í gegnum eignatilfærslur og undarlega samninga hafði forsetinn hagnast um meira en 130 milljarða króna (rúman milljarð dollara) á einkavæðingu Azercell, farsímafyrirtækis Azerbaijans. Þessu hefur verið lýst sem stærsta spillingarmálinu í sögu Svíþjóðar, vegna aðkomu sænska fjarskiptarisans TeliaSonera að málinu.

Einnig fundust við rannsóknirnar villur í London og Moskvu, einkaþotur, snekkjur og fleira, ásamt svo mörgum öðrum dæmum um blygðunarlausa spillingu að það væri hægt að skrifa um það ágætlega þykka bók. Í landi þar sem meðalmánaðarlaun eru um 54000 krónur hefur forseti landsins og hans fjölskylda náð að eignast fyrirtæki og aðrar eignir upp á hundruðir milljarða króna. Lögum samkvæmt fær forsetinn 35 milljónir króna í árslaun, og má ekki eiga nein fyrirtæki.

Það er því erfitt að ímynda sér að ásakanirnar á hendur Khadiju Ismayilovu eigi við rök að styðjast, ekki síst þar sem upprunalega ásökunin var borin til baka af manninum sem lagði hana fram. Þar sem þetta er augljóslega pólitísk fangelsun hafa ýmsir fordæmt fangelsunina, meðal annars fjölmiðlafrelsisfulltrúi ÖSE Dunja Mijatović, forseti þings Evrópuráðs Anne Brasseur, Amnesty International, og Committee to Protect Journalists.

Það er ekki nóg.

Í dag eru rúmlega 220 manns tengd blaðamennsku og fjölmiðlun almennt í fangelsi víða um heim, flest fyrir að hafa náð að fara í taugarnar á yfirvöldum. Það er orðið bráðnauðsynlegt að gerð sé skýlaus krafa um að þeim verði öllum sleppt lausum, og það séu raunverulegar afleiðingar fyrir þau lönd sem stunda pólitíska ritskoðun með þessum hætti. Ef pólitískum fangelsunum og sýndarréttarhöldum yfir blaðamenn er leyft að viðgangast með þessum hætti er ólíklegt að fjölmiðlar geti hreinlega sinnt sínu hlutverki sem aðhald við valdhafa. Frjáls fjölmiðlun er grundvallaratriði fyrir lýðræði.

Ég vil því beina þeirri áskorun til fulltrúa Íslands í Evrópuráði að leggja fram tillögu um tímabundna brottvikningu Azerbaijans úr þeim samtökum, í samræmi við 8. grein stofnsamþykktar Evrópuráðs. Tímabundnar brottvikningar hafa átt sér stað áður, í tilfelli Grikklands 1967-1969, Tyrklands 1980-1984, og Rússlands 2000-2001. Brottvikning af þessu tagi er gríðarlega sterk pólitísk aðgerð, og er því mjög mikilvægt að henni sé ekki beitt af léttúð. Hinsvegar er, að ég tel, full ástæða til að stíga þetta skref í bæði þágu tjáningarfrelsis, og gegn ofríki og spillingu. Þegar búið er að senda skilaboðin einu sinni er búið að draga línu í sandinn. 

Það er okkar að draga línuna: hingað og ekki lengra.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni