Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

14 litlir krossar

14 litlir krossar

Milli dagsins í dag, og dagsins sem ég dey, fæ ég að krota fjórtán litla krossa á blað. Ef ég er rosalega heppinn.

Miðað við meðallífslíkur við fæðingu, og fjögurra ára kjörtímabil Alþingis, þá er mín líklega lýðræðislega þátttaka einskorðuð við þessa fjórtán krossa.

Alþingi tekur ákvarðanir um svona sirka hundrað og fimmtíu mál á ári, gróft áætlað. Sum ár er þingið duglegara en önnur, en ef við styðjumst við þessa tölu, þá eru um sex hundruð ákvarðanir teknar þar á hverju kjörtímabili -- og allar réttlættar á grundvelli eins lítils kross frá þér. "Við unnum síðustu kosningar," segir einhver. "Þjóðin gaf okkur umboð."

Og það er það sem er kosið um. Flestar ákvarðanir samfélagsins fara aldrei í gegnum þingið. Ég myndi giska gróflega á að um hundrað ákvarðanir eru teknar innan ráðuneyta fyrir hver lög sem eru sett, hverja þingsályktun. Flestar lítilmótlegar og ómerkilegar, auðvitað. Flest, en ekki allt, innan ramma laganna. Þetta er ekki mjög stórt gisk; í reynd er talan líklega mun hærri. En ákvarðanir teknar í ráðuneytum og í stofnunum ríkisins hafa oft meiri áhrif, dags daglega, á líf fólks, en ákvarðanir teknar í þinginu. En þrátt fyrir þetta er nánast engin geðveiluvörn til staðar þar. Stundum tekur einhver eftir einhverri klikkun og skrifar grein eða boðar til mótmæla, og stundum röflar einhver um ruglið á þingi. En flest ekki.

Sex hundruð á móti einum er afleitt Lýðræðishlutfall: hlutfallið milli vilja þíns, og hvernig hún birtist. Þetta er ekki lýðræðislegt. En sextíu þúsund á móti einum er hreinlega dónalegt Lýðræðishlutfall.

Ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að það er líklega ekki praktískt að allir ríkisborgarar allra landa taki fimmtán þúsund ákvarðanir um samfélagið sitt á hverju ári, í viðbót við að vera í vinnu, afla sér tekna, og huga að því sem skiptir það máli í lífinu. En það hlýtur að vera hægt að bæta þetta hlutfall, er það ekki?

Að bæta lýðræðishlutfallið er lykillinn að því að gera lýðræðið merkingarbært. Ég er þakklátur fyrir mína fjórtán litlu krossa, finnst þeir stórfínir, og hyggst nota þá alla ef ég lifi nógu lengi. En er nokkuð frekt af mér að vilja fjölga þeim?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni