Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Viðmót velferðarkassana

Viðmót velferðarkassana

Nú stendur yfir Fundur fólksins, þriggja daga hátíð um samfélagsmál að norrænni fyrirmynd. Formi hátíðarinnar er ætlað að færa umræðuna nær fólkinu og brjóta aðeins upp hvernig rætt er um þessi mál. Settar hafa verið upp tjaldbúðir þar sem fulltrúar stjórnmálaflokka og ýmissa félagasamtaka taka á móti gestum og spjalla. Einnig eru haldnir fyrirlestrar og alls kyns aðrir skemmtilegir viðburðir.

Ég sá einn ansi áhugaverðan fyrirlestur í gær á vegum MND félagsins. Þar sýndi formaður félagsins, Guðjón Sigurðsson, á leikrænan og táknrænan hátt hvernig velferðarkerfinu er skipt upp í aðskilda kassa og notendum þess er allt of oft ætlað að finna út úr sjálfir hvernig þessir kassar virka. Þeir þurfa að sækja um hina og þessa þjónustu hér og þar og skortir heildaryfirsýn og aðstoð við að fóta sig í kerfinu. Guðjón talaði fyrir því að í staðinn ætti kerfið að virka þannig að hver og einn notandi fái einfaldlega heildræna aðstoð við að fá þá kassa sem viðkomandi þarf á að halda. Notendastýrð persónuleg aðstoð er ein þekktasta aðferðin til að ná þessu fram.

Guðjón bauð fólki upp á svið til að bregðast við fyrirlestrinum og ég fór upp til að lýsa minni sýn á þessi mál. Ég setti þau í samhengi við reynslu mína af hugbúnaðargerð, sem mér finnst eiga ansi marga skemmtilega snertifleti við vinnu við stjórnsýslu. Hugbúnaðargerð snýst einmitt um að búa til flókin kerfi sem virka einföld út á við. Notandinn á ekki að þurfa að vita hvernig tölvan sjálf eða forritin í henni virka; nóg er bara að vita að ef t.d. er smellt á ákveðinn takka þá gerist eitthvað ákveðið. Þar að baki getur verið heilmikið ferli en notandinn þarf ekkert um það að vita. Oft er einmitt talað um svarta kassa í þessu samhengi, í þeim skilningi að kerfiskassinn er innsiglaður gagnvart notandanum. Það sem blasir hins vegar við notandanum kallast viðmót og það er mjög mikilvægur liður í hugbúnaðargerð að huga að því hvernig viðmótið styður við notkunargildi hugbúnaðarins.

Ég tengdi þessar pælingar síðan við endurskoðaða upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar, en lokadrög að henni voru einmitt samþykkt á síðasta fundi stjórnkerfis- og lýðræðisráðs. Sú endurskoðun var orðin mjög tímabær enda núgildandi stefna frá árinu 2000 og ýmislegt hefur gerst í upplýsingamálum síðan þá. Í nýju stefnunni er eitt markmiðið Notendamiðað aðgengi, en það snýst um að hugað sé að því hvernig upplýsingarnar blasa við notendum þeirra og hvernig þeim gengur að nálgast þær og nýta sér þær. Líkt og segir í orðskýringum með stefnunni er það að hafa aðgang að einhverju að mega nýta sér það en að hafa aðgengi er að geta nýtt sér það með góðu móti. Þarna má taka sem dæmi aðgang að tiltekinni byggingu (að mega fara þangað inn) og aðgengi að henni (að geta farið þangað inn). Hreyfihamlaðir geta haft fullan aðgang að henni en ef þeir hafa ekki aðgengi er samt sem áður um ákveðna mismunun að ræða. Þessu þarf að huga að alls staðar í stjórnsýslu og þjónustu.

Hvernig viðmót erum við að bjóða fólki upp á? Aðeins það sjálft getur svarað því og þess vegna verðum við að vera óhrædd við að spyrja - og svo hlusta vel á svörin.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu