Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Spurning um Klett

Spurning um Klett

Leigufélagið Klettur var stofnað í byrjun árs 2013, samkvæmt heimild sem Íbúðalánasjóði var árið áður veitt með breytingu á lögum um húsnæðismál, orðrétt til að „eiga leigufélag með húsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið á nauðungarsölu“. Klettur var því stofnaður um íbúðir sem sjóðurinn hafði yfirtekið vegna vanskila.

Nafn félagsins vísar væntanlega til stöðugleika og kjölfestu, líkt og segir á vefsíðu félagsins:

Með stofnun Kletts leigufélags má því segja að stigið sé mikilvægt skref í þá átt að bæta hag þeirra sem kjósa að leigja. Með tilkomu Kletts leigufélags varð til kostur á húsnæðismarkaði sem líkist evrópskum leigufélögum því um er að ræða félag sem er komið til að vera. Klettur leigufélag er sjálfstætt félag í eigu Íbúðalánasjóðs.

Í upphafi þessa árs var hins vegar tilkynnt að ákveðið hefði verið að setja Klett í söluferli í heilu lagi. Haft var eftir Hermanni Jónassyni, forstjóra Íbúðalánasjóðs, að söluferlið miðaðist við að hámarka virði eignanna. 

Þingmaðurinn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir spurði Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, út í málið á þingi þann 15. febrúar:

Það eru í raun þrjú félög á markaðnum sem sinna þessum almenna markaði, en þau eru Heimavellir með um 500 íbúðir, Almenna leigufélagið í eigu Gamma, sem er með um 500 íbúðir, og svo Klettur sem á um 450 eignir.

Þetta félag var formlega stofnað í ársbyrjun 2013 þannig að það er þriggja ára, hefur gengið vel og hefur haft tök á að stækka og fjölga íbúðum. Ég skil ekki af hverju ráðherra leyfir þessu félagi ekki að lifa áfram og sinna þar með því hlutverki fyrir hönd ríkisins að vinna að uppbyggingu almenns öruggs leigumarkaðar.

Í svari sínu áréttaði Eygló að alltaf hefði verið lagt upp með að það væri tímabundin ráðstöfun að Íbúðalánasjóður ræki leigufélag, og vitnaði þar í athugasemdir með frumvarpinu sem veitti honum heimildina til þess:

Miðað er við að leigufélagið verði aðgreint frá hefðbundnum rekstri Íbúðalánasjóðs enda þykir það ekki samrýmast hlutverki Íbúðalánasjóðs sem lánveitanda til íbúðarhúsnæðis að eiga og leigja út íbúðir til lengri tíma. Í þessu sambandi er það áréttað að verði þessi heimild nýtt verði að líta á þá ráðstöfun sem tímabundna enda ekki að öðru leyti gert ráð fyrir breyttu hlutverki Íbúðalánasjóðs í frumvarpi þessu.

Eygló vitnaði jafnframt í álit meirihluta velferðarnefndar með frumvarpinu:

Meiri hlutinn telur einnig mikilvægt að unnið verði markvisst að sölu á eignum félagsins þegar aðstæður leyfa, en hvetur þó jafnframt til varfærni hvað það varðar þannig að tryggt verði að kjör sem í boði verða við sölu á eignum félagsins verði þannig að salan muni ekki leiða til mikillar hækkunar á leiguverði.

Sigríður Ingibjörg neitaði því ekki að til hefði staðið að hafa þessa ráðstöfun tímabundna en áréttaði raunverulegu spurningu sína:

Telur ráðherra ekki of geyst farið í þessu og telur hún ekki að vegna skorts á húsnæði muni þetta hækka leiguverð?

Ekki verður séð að ráðherra hafi svarað þessu með beinum hætti. Þvert á móti var skýring hennar á tilganginum með sölu á þessum tímapunkti hinn sami og hjá forstjóra Íbúðalánasjóðs, að hámarka þyrfti virði eignanna (sem er markmið sem erfitt er að sjá fyrir sér að sé mjög samrýmanlegt því markmiði að hækka ekki leiguverð):

Það er líka mat stjórnarinnar að það séu verulegar rekstrarlegar ástæður fyrir því að selja leigufélagið Klett og geti haft jákvæð áhrif á rekstur sjóðsins; og einnig að nú sé réttur tími til sölu félagsins hvað það varðar að hámarka virði eigna sjóðsins sem mundi hafa jákvæð áhrif á afkomu þess og styrkja eigið fé sjóðsins.

Nú fór það svo að annað af félögunum utan Kletts sem Sigríður Ingibjörg taldi upp, Almenna leigufélagið, hreppti Klett, og varð þannig langstærsta leigufélagið á markaði.

Spurningin sem eftir stendur er því einföld, sú sama og Sigríðar Ingibjargar nema enn brýnni nú í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin:

Var hugað að því markmiði að tryggja að leiguverð hækkaði ekki þegar ákveðið að selja Klett og þegar ferlið við söluna var skilgreint?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu