Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Snjallborgin Reykjavík

Snjallborgin Reykjavík

Smart Cities er áhugaverð aðferðafræði sem hefur fengið hið íslenska heiti snjallborgir. Aðferðafræðin snýst um að nýta upplýsingatæknina til að bæta gæði og skilvirkni þeirrar þjónustu sem borgir bjóða upp á og koma á betri samskiptum við íbúa. Hjá Reykjavíkurborg er að störfum starfshópur til að skoða snjallborgarlausnir og hann skilaði borgarráði áfangaskýrslu í dag.

Samþykkt var að skoða frekar ákveðin verkefni sem hafa verið reynd með góðum árangri erlendis:

Tilraunaverkefni með lýsingu í borginni. Tilgangur er að draga úr orkunotkun og ljósmengun ásamt því að velja lýsingu til framtíðar þar sem fyrir liggur að stór hluti ljóskera borgarinnar eru að verða úreld. Valin verði tvö eða þrjú ólík hverfi eða svæði þar sem sett verði upp tilraunalýsing sem taki mið af umferð og umhverfi.

Tilraunaverkefni með þráðlaust borgarnet. Tilgangur er að bæta þjónustu við borgarbúa og ferðamenn, skapa undirstöðu til frekari snjallborgaruppbyggingar og sömuleiðis skapa möguleika á nýjum viðskipta- og þjónustulíkönum í samvinnu við fjarskiptafyrirtæki á markaði. Valin verði svæði eins og t.d. miðborg og háskólasvæðið.

Tilraunaverkefni með skynjara í bílastæðum. Tilgangur að auka nýtingu bílastæða, auðvelda aðgengi að þeim og draga úr hringsóls umferð. Valið verði bílastæðahús og útisvæði.

Tilraunaverkefni um snjallar ruslafötur, t.d. á útivistarsvæðum eða borgarhlutum þar sem umferð er ójöfn. Tilgangur að lækka kostnað við tæmingu og draga úr líkum á yfirfullum ruslafötum. Snjallar ruslafötur geta m.a. þjappað rusli og gefið til kynna hvenær þarf að tæma þær.

Tilraunaverkefni um notkun snjalllausna í heimahjúkrun. Tilgangur að gera ákveðna hluta velferðarþjónustu skilvirkari og hagkvæmari t.d. með fækkun heimsókna og auknum samskiptum og aðhaldi í gegnum snjalltæki.

Önnur áhugaverð verkefni sem vert væri að skoða nánar væru t.d. áframhald á snjallri stjórnun umferðaljósa til að stýra hraða og draga úr mengun, frekari upplýsingagjöf eða þjónusta í strætóskýlum og stjórnendamælaborð.

Það verður mjög spennandi að fylgjast með framvindu þessara verkefna og sóknarfærin eru greinilega mörg. Ekki er verra að snjallborgin fellur mjög vel að markmiðum nýrrar upplýsingastefnu borgarinnar, sem ég hafði forgöngu um.

Tilgangurinn með snjallborgarverkefnum er síðan beinlínis sá að gera hlutina með hagkvæmari hætti og snjallborgin rímar þá líka vel við þá hagræðingarþörf sem borgin stendur frammi fyrir. Stundum borgar sig að eyða fáeinum aurum til að spara krónur - því má alls ekki missa sjónar af. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni