Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Rofið

Rofið

Ég hef lent í geðrofi oftar en einu sinni.

Þetta er eðli málsins samkvæmt mjög súr reynsla. Mikil rússíbanaferð sem hjá mér lýsti sér fyrst og fremst í mikilli maníu, gleði og sannfæringu um að heimurinn væri að breytast mjög hratt til betri vegar. Með svoleiðis pakka fylgir oft sú skynjun að maður sjálfur sé einhvers konar mikilvægur miðpunktur sem hafi merkilegan boðskap fram að færa sem enginn annar skilur nægilega vel - en skemmtilegt nokk fann ég alveg fyrir slíkri tilfinningu en barðist ansi meðvitað gegn henni. Leit á það sem hluta af þeirri áskorun sem fylgdi rofinu að halda mig á jörðinni og blása ekki út egóið. Þetta tókst oftast en ekki alveg alltaf.

Svo fylgdu líka vondar tilfinningar inn á milli og skeið þar sem ég var alveg úti úr heiminum og þá jafnvel örvæntingarfullur yfir því að kannski gæti ég aldrei framar snúið aftur til réttrar rænu. Það er að segja þegar ég var með nógu mikilli rænu til að átta mig á ástandi mínu á annað borð. Það er margt fyndið í þessu og mér finnst allt í lagi að hlæja að því sem er fyndið við þetta þó vissulega hafi þetta verið mínum nánustu mjög þungbært á meðan á því stóð.

Ég skil fyrir vikið betur en áður annað fólk sem hefur lent í hinu sama og hef töluverða samúð með því. Get alveg verið innan um alls konar fólk án þess að finnast það óþægilegt. Ég hef lært töluvert fleira jákvætt og uppbyggilegt af því að ganga í gegnum klikkunartímabil og er alveg sannfærður um að þessi reynsla er merkingarbær ef maður nær að vinna úr henni og gerir það sem maður verður að gera til að ná sér út úr henni. Eins og með alla aðra reynslu sem nær alveg inn að beini þá brýtur hún mann alveg niður og spurningin er bara hvort maður nær að púsla sér saman aftur. Ég er alveg á því að ég hafi orðið betri af því að brotna niður og skríða saman aftur þó ég mæli ekki endilega með þessari leið fyrir alla.

Eitt af því sem hefur breyst hjá mér var að ég er mun meðvitaðri en áður um hvað skynjun fólks á hinum svonefnda veruleika er misjöfn og hvað skynjun hvers og eins er merkingarbær alveg sama þó einhverjum öðrum finnist hún fáránleg. Þó hún samsvari kannski ekki endilega einhverjum hlutlægum mælikvörðum en hún samt sem áður til, sem skynjun viðkomandi. Veruleikinn minn er veruleikinn minn rétt eins veruleikinn þinn er veruleikinn þinn. Engri skynjun er hægt að afneita heldur er það heillandi verkefni að reyna að skilja skynjun annarra, hvaðan hún kemur og hvað hún þýðir. Sum skynjun er vissulega óuppbyggileg eða óheilbrigð en hún er samt sem áður þarna, sem veruleiki þess sem skynjar hana.

Ég held að það sé mjög gott í pólitík að hafa þetta í huga. Mín skynjun á því sem er í gangi sem minni vinnu tengist er oft nokkuð á skjön við skynjun fólksins sem stendur fyrir utan og horfir á hana. Stundum finnst mér það sanngjarnt og stundum ósanngjarnt, en hvað sem því líður er skynjun annarra veruleiki sem ég get ekki flúið. Það er eiginlega hluti af mínu starfi að reyna að skilja hana eftir bestu getu. Stundum er ég ósammála en það er lágmark að skilja hana. Það verður líka örugglega alltaf ákveðið rof þarna á milli og það er í raun hollt að almenningur sé ekki alveg samdauna pólitíkinni. Þetta er eitt af því sem pólitíkusar fá ekki breytt og þurfa því að sætta sig við.

Þetta ytra sjónarhorn hjálpar okkur líka við að verða ekki of samdauna sjálf og ég hef alveg fundið fyrir þeirri hættu nú þegar þó ekki hafi ég verið sérstaklega lengi í þessu. 

Egóið vill nefnilega blásast út ef maður passar það ekki - og það þarf ekki endilega að vera í maníukasti til að það gerist þó það hjálpi alveg til.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni